Jón Sigmundsson fæddist 1. júlí 1875 að Skarfsstöðum í Hvammssveit. Ungur að árum réðst hann til gullsmíðanáms að eigin vilja og án hvatningar. Námið stundaði hann hjá Helga gullsmið Sigurgeirssyni á Ísafirði og frænda sínum Jóni Guðmundssyni í Ljárskógum. Sveinspróf tók hann hjá Jóni í Ljárskógum árið 1897. Eftir það dvaldi hann vetrarlangt við úrsmíðanám hjá Þorbirni Ólafssyni að Kaðalstöðum í Borgarfirði.
Að námi loknu stundaði Jón jöfnum höndum iðn sína í heimahéraði og bústörf, uns hann afréð að setjast að í Reykjavík sem gullsmiður og skartgripasali, og fluttist hann þangað búferlum haustið 1904. Hann tók á leigu íbúð í Grjótagötu 10 og hafði þar jafnframt vinnustofu og seldi þaðan smíðisgripi sína. Sömuleiðis annaðist hann viðgerðir á úrum og klukkum, ef óskað var. Hinn 29. október 1904 birtist svohljóðandi tilkynning í Ísafold:
„Hér með leyfi ég mér að tilkynna heiðruðu bæjarbúum og ferðamönnum að ég hef sezt að hér í Reykjavík og læt af hendi allskonar smíðar út gulli og silfri með sanngjörnu verði.
Virðingafyllst Jón Sigmundsson, gullsmiður.“
Reykjavík var í þá daga aðeins bær með rúmum átta þúsund íbúum og á fimmta hundrað húsum, flest litlum timburhúsum, en þó nokkrum torfbæjum. Atvinnulífið í bænum hvíldi á útgerð og verslun. Peningaráð alþýðu voru lítil og brýnustu lífssnauðsynjar urðu að sitja í fyrirrúmi. Menn máttu ekki almennt við því að verja aurum sínum til kaupa á gripum til að prýða með heimilin. Þó var hér eini staðurinn á landinu, sem ætla mætti að hefði rúm í náinni framtíð fyrir sérverslun með skartgripi, úr og listmuni. Árið 1904 töldust sjö starfandi gullsmiðir í Reykjavík, og varð Jón sá áttundi. Ekki unnu þó allir þessir menn að iðn sinni eingöngu. Gullsmiðir bæjarins höfðu verkstofur á heimilum sínum, störfuðu sjálfstætt og seldu sjálfir eigin smíðar. Að mestu var unnið eftir áður gerðum pöntunum. Þeir höfðu ekki sölubúðir né fluttu inn erlenda smíðisgripi. Starfsemi gulllsmiða var fábrotin, og nær eingöngu bundin við smíðar á silfurbúnaði á íslenska þjóðbúninginn. Tóbaksílát og svipur var nokkuð smíðað. Úr gulli voru smíðaðir giftingahringir, steinhringir og stöku skartgripir.
Fyrstu árin hafði Jón Sigmundsson starfsstöð sína og heimili á ýmsum stöðum í bænum. En 1907 tók hann á leigu húsið númer átta við Laugaveg. Það var lítið steinhús og áður kallað Smiðjuholt. Þetta hús keypti hann síðar og byggði upp. Þarna kom hann fyrir vinnustofu sinni og lítilli sölubúð fyrir framan, en hann hafði þá þegar hug á að koma upp myndarlegri skartgripaverslun.
Reykjavík tók stakkaskiptum á næstu áratugum. Íbúafjöldinn margfaldaðist og velmegun jókst. Viðfangsefni Jóns Sigmundssonar stækkuðu og urðu fjölbreyttari. Þó skiptust á skin og skúrir í rekstrinum í takti við almennt árferði. Samhliða gull- og silfursmíði var fengist við viðgerðir á úrum og klukkum, ýmist sjálfstætt eða í samvinnu við aðra úrsmiði. Er verslunin hafði fengið einkaumboð hér á landi fyrir úr og klukkur nokkurra heimsþekktra fyrirtækja var árið 1944 komið á fót í sambandi við verslunina viðgerðarstofu fyrir þessa starfsgrein.
Er Jón hóf starfsemi sína, voru viðskipti landsmanna að mestu bundin við Danmörku. Hann hóf því fyrst innflutning þaðan á alls konar smávörum úr silfri, silfurpletti og gulli Brátt fór hann þó að skrota við Þýskaland og síðar Sviss með úr. Á ófriðarárunum fyrri hófust viðskipti við Ameríku og England. Upp úr því jók hann vöruval sitt og fór að hafa í versluninni kristal, keramik og ýmsa innflutta listmuni. Á tímum hafta og ófrelsis varð vöruþurrð mikil í versluninni, þrátt fyrir takmarkaða kaupgetu almennings.
Jón Sigmundsson andaðist 4. ágúst 1942, en fyrirtækið var rekið áfram af ekkju hans og fjölskyldu.
Skartgripaverslun Jóns Sigmundssonar er enn í eigu beinna afkomenda Jóns, en nú reka þeir fyritækið í sameiningu Símon Ragnarsson, sonarsonur Jóns, og sonur hans Ragnar Símonarson og smíða þeir sjálfir meginhluta þeirra gripa sem seldir eru í verslunum fyrirtækisins, sem nú er einnig með verslun í Spönginni í Grafarvogi, en hún var opnuð árið 2001.
Símon hannaði og smíðaði fyrstu stúdentastjörnuna árið 1976, en síðan þá hefur sá siður að gefa stúdentastjörnu orðið rótgróinn. Um svipað leyti gróf hann í fyrsta skiptið faðirvorið í hálsmen, sem aðrir gullsmiðir hafa síðan einnig tekið upp. Skartgripaverzlun Jóns Sigmundssonar er nú elsta starfandi fyrirtæki við Laugaveginn og eitt elsta fyrirtæki landsins.
Heimildir: 7.–8. tbl Frjálsrar verslunar 1954 og 6. tbl. Tímarits iðnaðarmanna 1944.