Hjónin Erla Vilhjálmsdóttir og Skúli Jóhannesson stofnuðu verslunina Tékk-Kristal á Skólavörðustíg 16 árið 1970, en þau ráku verslun sína um árabil að Laugavegi 15 í húsi Ludvig Storr. Sjöunda janúar 2001 birtist viðtal við þau í Morgunblaðinu, en við grípum hér niður í mitt viðtalið:
Þau stoppuðu stutt á Skólavörðustígnum og fluttu fljótlega í húseign Ludvigs Storr á Laugavegi 15 eins og fyrr var sagt, og var verslað þar í tuttugu ár. Þau nefna að skemmtilegt og lærdómsríkt hafi verið að kynnast Storr-hjónunum og þar hafi tekist mikil vinátta. „Margir þekkja búðina frá þessum tíma og þar eignuðumst við fjölmarga viðskiptavini sem hafa haldið tryggð við okkur æ síðan,“ segir Skúli og bætir við að í árslok 1992 hafi þau lokað verslun sinni við Laugaveginn, en þá höfðu þau opnað stóra og myndarlega verslun við Faxafen í Skeifuhverfinu. Það hafi verið kominn doði í verslun á Laugaveginum eftir að Kringlan var opnuð.
Kringlan eða Fenin?
Þau Erla og Skúli eru í ákjósanlegri aðstöðu til að bera saman gæði verslunarstaðsetninga, með verslanir bæði í Fenjunum og í Kringlunni og áður á Laugaveginum. Þau segja bæði að Kringlan sé góður staður og verslunin þar gangi afar vel, en þegar upp sé staðið skili verslunin í Fenjunum meira. Munurinn á Laugaveginum og Faxafeni þegar þau fluttu 1992 hafi hins vegar verið gífurlegur og hafi þau verið með tugum prósenta ef ekki yfir hundrað prósenta betri sölu í Faxafeni heldur en á Laugaveginum. „Við veltum því aldrei fyrir okkur að Fenin væru eitthvað áhættusöm í þessum skilningi. Okkur sýndist að upp væri að rísa veglegur verslunarkjarni og þetta svæði er vel staðsett gagnvart stórum íbúðabyggðum. Hér er gífurleg umferð og fer vaxandi. Auk þess eru hér vinsælir veitingastaðir, nokkrir stórmarkaðir, margar fataverslanir, húsgagnamarkaður og lengi mætti telja. Allt styður þetta hvað við annað og laðar að fjölda fólks. Þetta er meiri háttar verslunarhverfi,“ segja þau hjón.
Það kemur dálítið á óvart að þið gefið Fenjunum betri einkunn en Kringlunni?
„Það er einfaldlega staðreynd, en við erum jú bara að tala um okkar verslanir. Vel má vera að aðrir segi aðra sögu, en við eigum sem betur fer stóran og góðan hóp viðskiptavina og ótrúlega mörgum finnst betra að koma í verslun okkar í Faxafeni, fljótlegt og þægilegt, ætla sér ekki að fara í búðaráp, vita að hverju þeir ganga hér og geta svo farið. Við lifum jú á tímum þar sem allir eru að flýta sér og aðgengi verslana þarf að vera gott …“