Í Fréttablaðinu, mánudaginn 12. nóvember sl. birtist grein eftir Jón Sigurjónsson, gullsmið og stjórnarmann í Samtökum kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg. Greinin ber heitið Skortur á bílastæðum við Laugaveg og er svohljóðandi:
Borgaryfirvöld kynntu nú á dögunum deiliskipulag fyrir reiti þá við Laugaveginn sem eru í eigu fasteignafélagsins Regins hf. Það er mikið fagnaðarefni að Reginsmenn hyggi á framkvæmdir á þessum reitum, en eitt af því sem staðið hefur verslun við Laugaveginn fyrir þrifum er skortur á nýtískulegu verslunarhúsnæði.
Eitt atriði veldur mér þó miklum áhyggjum í tillögum að uppbyggingu og það er hversu fáum bílastæðum er gert ráð fyrir á svæðinu og sér í lagi neðanjarðar. Í fljótu bragði sýnist mér sem bílastæðum á umræddum lóðum muni ekkert fjölga frá því sem nú er, þrátt fyrir margfalt byggingamagn og vonandi margföld umsvif. Sér í lagi er þetta varhugavert þar sem gert er ráð fyrir íbúðum, en rétt er að hverri íbúð fylgi a.m.k. eitt bílastæði neðanjarðar, ella munu íbúar leggja í stæðin allt í kring, sem einkum eru ætluð verslun og viðskiptum á svæðinu.
Með framkvæmdum Regins á þessu svæði gefst Reykjavíkurborg, og/eða Regin eftir atvikum, einstakt tækifæri til að útbúa almenningsbílastæði neðanjarðar á þeim slóðum þar sem hvað helst skortir bílastæði til framtíðar í miðborginni. Milli Hverfisgötu og Laugavegar væri hvað best að koma fyrir bílastæðum sem gagnast geta versluninni á þessum slóðum og nægir að fara eina hæð niður. Nú er tækifæri til að ráðast í þessar framkvæmdir – tækifæri sem mun aldrei gefast aftur á þessu svæði í framtíðinni. Ég hef sjálfur staðið að byggingu tveggja húsa við Laugaveginn og komið fyrir stórum bílakjöllurum undir þeim húsum án teljandi vandkvæða.
Borgaryfirvöld hafa ítrekað á umliðnum misserum amast við bílnum og segja má að bílahatur sé ríkjandi í borgarpólitíkinni. En hvað sem líður andstyggð manna á bílum verður ekki framhjá því litið að þetta er sá fararmáti sem flestir hafa kosið sér og ef viðskiptavinir fá ekki stæði nærri verslunum leita þeir annað.
Óskandi væri að borgaryfirvöld opnuðu augu sín fyrir því einstaka tækifæri sem þau fá til byggingar almenningsbílastæða á umræddum lóðum. Ef þau láta sér þetta tækifæri úr greipum ganga er raunveruleg hætta á stórslysi í skipulagsmálum miðborgarinnar til framtíðar litið.