Jörgen Frank Michelsen úrsmiður kom hingað til lands árið 1907 og stofnaði úrsmíðavinnustofu á Sauðárkróki tveimur árum síðar. Jörgen hafði tvo nema í iðninni, þá Guðna A. Jónsson og elsta soninn, Franch Michelsen. Franch var um tíma við framhaldsnám í úrsmíðaiðninni í Kaupmannahöfn, þar sem hann vann einnig hjá Carl Jonsen, hirðúrsmið.
Franch kom að utan 1940 og stofnsetti Franch Michelsen hf. Verslanir þeirra feðga sameinuðust árið 1946 er Jörgen Frank fluttist suður. Störfuðu þeir feðgar saman uns Jörgen Frank féll frá 1954. Í versluninni hafa frá fyrstu tíð verið á boðstólum úr og klukkur, auk skartgripa og silfurgripa.
Á meðal þeirra tólf nema sem Franch hafði í iðninni var sonur hans, Frank Úlfar Michelsen, sem ennfremur stundaði framhaldsnám í Sviss. Viðgerðir á úrum hafa einnig verið stór þáttur í starfi Michelsen-feðganna, en frá því að Franch setti verslunina og viðgerðarþjónustuna á fót og fram til ársins 1984 hafði hann gert við um 250 þúsund úr og klukkur, þ.e. um ein viðgerð á hvern Íslending. Úraverslun Franch Michelsen var lengst af til húsa á Laugavegi 39, en hefur hin síðari ár verið rekin að Laugavegi 15.
Frank Úlfar tók við rekstrinum 1993 og keypti fyrirtækið af föður sínum 1999. Í verslun Michelsen úrsmiða er nú boðið upp mikið úrval úra, þar á meðal Rolex-úrin, sem löngum hafa verið þekkt fyrir vandaða smíð.