Afar fátítt er að hérlend fyrirtæki verði níræð. Enn sjaldgæfara er að svo gamalgróin fyrirtæki haldist í eigu sömu fjölskyldunnar í heila níu áratugi. Þess eru þó dæmi. Verslun Guðsteins Eyjólfssonar við Laugaveg í Reykjavík lætur lítið yfir sér, en þessi kunna verslun hefur starfað í meira en níu áratugi og þar eru niðjar stofnandans enn við stjórnvölinn.
Guðsteinn Eyjólfsson var fæddur í Krosshúsum í Grindavík 1. janúar 1890 og ólst þar upp. Hann fluttist 18 ára að aldri til Reykjavíkur og lærði klæðskurð, fyrst í Thomsens magasíni og þvínæst hjá Andersen & sön. Síðarnefnda fyrirtækið var með þeim elstu og virtustu í bænum og lét Guðsteinn mjög vel af veru sinni þar, en hjá Andersen & sön störfuðu fimm íslenskir sveinar í þann tíma sem Guðsteinn var þar. Síðar hélt Guðsteinn utan til Kaupmannahafnar til að ljúka meistaranámi í klæðskurði. Dvaldi hann þar við nám í tvö ár. Löngu síðar lýsti hann herratískunni anno 1913 fyrir blaðamanni Lesbókar Morgunblaðsins. Hefðu sniðin almennt verið nokkuð þröng og jakkar fremur síðir. Aðeins hefði verið saumað eftir máli og úr vönduðum innfluttum efnum frá Englandi. Föt hefðu verið ákaflega dýr á þeim tíma og jafnaðarlega greidd með afborgunum, en þau hefðu að sama skapi enst lengur en seinna varð raunin.
Guðsteinn kvæntist 9. nóvember 1913 Guðrúnu Jónsdóttur frá Miðhúsum í Hvolhreppi, en hún var fædd 28. maí 1893. Guðrún hafði flust með foreldrum sínum til Reykjavíkur skömmu eftir aldamótin, en bær þeirra brotnaði tvívegis í jarðskjálftum.
Guðrún var annáluð hannyrðakona og vann við saumaskap, en þau Guðsteinn munu hafa unnið saman, að öllum líkindum hjá Andersen & sön. Guðrún fékkst alla tíð við saumaskap, merkti hún meðal annars dúka og rúmföt. Þótti hún hafa einstakt lag á klaustursaum og frönsku og ensku bróderíi. Guðrún var einkar skipulögð og ólík manni sínum að því leyti. Þau munu þó hafa bætt hvort annað upp, en samband þeirra þótti sérlega gott og sýndu þau hvort öðru mikla virðingu. Síðar sagði Guðsteinn svo frá í blaðaviðtali að hann ætti konu sinni allt að þakka, alla sína afkomu, allt sitt lífsstarf. Hún hefði verið „einstök manneskja á öllum sviðum“. Guðrún og Guðsteinn hófu búskap að Skólavörðustíg 2A og bjuggu þar uns þau réðust í að selja búslóðina og keyptu sér íbúð á Grettisgötu 55. Þetta var árið 1918 og sama ár hóf Guðsteinn sjálfstæðan rekstur.
Þeim hjónum varð átta barna auðið. Elst var Hólmfríður María, fædd 1914. Hún lærði bindasaum í Danmörku og framleiddi hálsbindi til sölu í verslun föður síns áratugum saman. Næstur í röðinni var Jón Óskar, fæddur 1916, vélsmiður, þá Eyjólfur, fæddur 1918, kaupmaður í verslun föður síns, síðan Kristinn, fæddur 1921, garðyrkjumeistari og listmálari, þá næst Sigursteinn, fæddur 1924, framkvæmdastjóri hjá BM Vallá. Sjötta í röðinni er Vilborg, fædd 1927, húsfreyja, þá Ársæll, fæddur 1929, rafvirki og kaupmaður, og loks Málfríður, fædd 1931, húsfreyja. Þau eru nú öll látin.
Rétt upp úr 1920 hélt Guðsteinn til Danmerkur til að læra kemíska hreinsun. Festi hann kaup á tækjum þrotabús efnalaugar nokkurar í Kaupmannahöfn og flutti þau til Íslands og kominn til landsins stofnsetti hann fyrstu efnalaug landsins, Efnalaug Reykjavíkur. Efnalaugina rak Guðsteinn í samvinnu við tvo bræður Guðrúnar, þá Tómas og Sigurjón Jónssyni. Guðsteinn dró sig fljótlega út úr rekstri efnalaugarinnar, en hún var starfrækt í nálega áttatíu ár.
Um 1922 keypti Guðsteinn einlyft timburhús við Laugaveg 34, en í því húsi hafði meðal annars verið sölubúð. Flutti Guðsteinn klæðskeraverkstæði sitt í annan hluta þessa húss, en í hinum hluta þess var skósmíðaverkstæði. Við húsið að Laugavegi 34 var einnig skúr þar sem Þorkell Sigurðsson rak úrsmíðaverkstæði. Þorkell flutti síðar starfsemi sína neðar á Laugaveginn. Á lóðinni var einnig annar skúr þar sem Guðsteinn hafði kýr og hænsni yfir vetrartímann.
Þau Guðsteinn og Guðrún áttu landskika í Laugarnesi, svonefnt Kirkjuland, sem var erfðafestuland. Á sumrin var búsmalinn hafður þar inn frá og mjólkin sótt þangað. Þar voru lömb, gæsir, hænsni og meira að segja svín um tima. Á Kirkjulandi voru einnig ræktaðar kartöflur. Kristinn, sonur þeirra, bjó síðar á Kirkjulandi, en hann var lærður garðyrkjumeistari og byggði þar gróður- og vélahús.
Guðsteinn fékkst þó ekki eingöngu við klæðskurð heldur stóð hann í talsverðum innflutningi á fatnaði og skóm. Hann fékk snemma umboð fyrir hina kunnu Wilson-hatta, en þeir voru seldir í versluninni allt þar til fyrir fáeinum árum. Guðsteinn flutti alla vöru inn sjálfur, þar á meðal öll aðföng til framleiðslunnar.
Umsvif Verslunar Guðsteins jukust stig af stigi og brátt var orðið tímabært að starfsemin flyttist í stærra húsnæði. Í mars 1929 fékk Guðsteinn leyfi til að reisa þrílyft verslunar- og íbúðarhús á lóð sinni við Laugaveg og í kjölfarið voru húsin við Laugaveg 34 rifin. Þorleifur Eyjólfsson arkítekt gerði teikningar að nýju húsi, sem þykir allsérsakt og fallegt með bogadregnum kvistum og fjölda glugga með mörgum fögum. Segja má að það sé í júgendstíl, en sú stiltegund ruddi sér rúms í arkítektúr í Vínarborg um aldamótin 1900. Þorleifur teiknaði fleiri hús sem setja svip á bæinn, þar á meðal er verslunarhús Egils Jakobsen við Austurstræti, en það ber einnig einkenni júgendstíls.
Mikill mannskapur vann við byggingu hússins og um leið og fyrsta hæðin var risin var hafist handa við frágang að innan og svo koll af kolli – hver hæð var tekin að innan strax og hún hafði verið steypt. Húsið reis á mjög stuttum tíma, en verklagni og hagsýni voru í fyrirrúmi við bygginguna. Útveggir voru úr jarnbentri steinsteypu, húsið var með járnþaki á pappa og á borðasúð. Loft á milli hæða voru ennfremur steypt. Húsið er þrílyft með porti, kvisti og sjö gluggakvistum. Skilveggir og kjallaragólf voru höfð úr venjulegri steinsteypu og innan á útveggjum voru settar korkplötur lagðar vírneti og múrsléttaðar. Kjallari er undir hálfu húsinu. Á neðstu hæðinni voru í fyrstu tvær sölubúðir með þremur útstyllingargluggum og sýningarskápum innan við þá.
Á annarri hæð hússins er mikil lofthæð og tekið mið af því við smíði hússins að unnt væri að fjarlægja svo til alla milliveggi, en útveggir hússins eru sérstyrktir með tilliti til þessa. Hafði Guðsteinn gert ráð fyrir þeim möguleika að breyta annarri hæðinni í veitingasölu, en þess vegna er inngangur frá Laugaveginum upp á aðra hæð með stórum dyrum og þaðan liggur breiður tröppugangur upp. Ekkert varð þó af þeim ráðagerðum, en Guðrúnu mun lítt hafa hugnast að í húsinu yrðu vínveitingar með því ónæði sem slíkri starfsemi fylgir. Guðsteinn sýndi forsjálni um fleiri hluti því gert var ráð fyrir að unnt yrði að koma fyrir lyftu í húsinu, þó að svo hafi ekki verið gert.
Guðsteinn og Guðrún bjuggu með fjölskyldu sinni á þriðju hæðinni. Í risinu voru í upphafi nokkur einstaklingsherbergi sem leigð voru út. Þar bjó um tíma Guðmundur Einarsson, myndhöggvari frá Miðdal. Önnur hæðin var einnig leigð út. Á öndverðum fjórða áratugnum leigði Edith Jónsson ballettkennari íbúðina, og bjó þar ásamt dóttur sinni Helenu. Í salnum á hæðinni kenndi Edith ballett. Hún átti flygill og um tíma var MA kvartettinn við æfingar í húsinu. Seinna bjó þýsk fjölskylda á hæðinni – landflótta Gyðingar. Við hernám Reykjavíkur var hluti af risinu tekin leigunámi fyrir hermenn breska setuliðsins, en þeir stöldruðu þó stutt við.
Verslunin flutti inn í húsið í desember 1929 og hefur starfað þar óslitið síðan. Lengst af var götuhæðinni þó skipt í tvö verslunarrými. Í því stærra var Verslun Guðsteins frá öndverðu, en hinum megin var í fyrstu afgreiðsla fyrir efnalaugina. Síðan var þar rekin smurbrauðsstofa og þvínæst kom Eyjólfur Guðsteinsson þar á fót sælgætisverslun sem naut mikilla vinsælda meðal hermanna á stríðsárunum. Þeirri starfsemi var hætt eftir stríðslok og þá var um tíma rekin rekin vefnaðarvöruverslun í minna plássinu, þar sem meðal annars voru seldir tilbúnir kjólar, innfluttir frá Bandaríkjunum. Síðar stofnaði Eyjólfur aftur sælgætisverslun í plássinu sem hann rak áratugum saman, þar til laust eftir 1980 að Verslun Guðsteins var stækkuð og nær hún nú yfir alla götuhæðina.
Er klæðskeraverkstæðið flutti inn í hið nýja húsnæði unnu þar að jafnaði þrjár saumakonur, en margt var þá unnið í höndunum sem nú er einvörðungu gert í vélum. Til að mynda voru öll hnappagöt kappmelluð í höndum og þá fór mikil vinna í að pilla þræðingar úr fötum. Á saumastofunni voru saumaðir frakkar, náttföt, buxur og tweed-jakkar í legersaum, en jakkaföt voru saumuð eftir máli.
Skömmu eftir að verslunin flutti í nýtt og rúmbetra húsnæði skall á heimskreppa með miklu atvinnuleysi og innflutningshöftum. Guðsteinn lýsti því svo sjálfur síðar að fólkið hefði ekki haft neina peninga – alls enga. Illa gekk að innheimta skuldir viðskiptavina og allt var greitt með óreglulegum afborgunum. Guðsteinn naut á þessum árum mjög aðstoðar Eyjólfs sonar síns, sem mjög ungur tók að mestu við rekstri verslunarinnar. Eyjólfur var æ síðan hægri hönd föður síns.
Vegna innflutningshafta kom Guðsteinn á laggirnar skyrtugerð árið 1937 og þá fyrst fór hagur fyrirtækisins verulega að vænkast. Skyrtugerðin var í byrjun staðsett í betri stofunni hjá þeim Guðrúnu og Guðsteini, en fluttist síðar á aðra hæð hússins. Skyrturnar voru framleiddar undir merkinu Reylon, nefndar í höfuðið eftir samnefndu sjálfstýfingarefni.
Guðrún lést langt um aldur fram 13. nóvember 1942, eftir að hafa fengið skyndlega sýkingu, en hún hafði þó alla tíð verið mjög heilsuhraust. Börn þeirra hjóna voru þá sum hver enn á unglingsaldri. Fjölskyldan átti þá því láni að fagna að eiga að góða vinnukonu, Ástu Níelsdóttur, frá Svefneyjum á Breiðafirði, sem annaðist heimilið af miklum myndarskap eftir fráfall Guðrúnar. Sá hún um heimili fjölskyldunnar æ síðan.
Árið 1950 kom Guðsteinn á fót prjónastofu í húsinu til að anna þörfum verslunarinnar, en til þeirrar starfsemi var keypt gríðarstór hringprjónavél, sem náði þvert í gegnum húsið. Kristinn, sonur Guðsteins, starfaði lengst af á prónastofunni. Á þeim árum voru einnig saumaðir gaberdínfrakkar á saumastofunni að amerískri fyrirmynd. Upp úr 1960 dró úr innflutningshöftum og þá var framleiðslu jakkafata hætt. Skyrtur og peysur voru þó framleiddar í versluninni langt fram eftir áttunda áratugnum.
Blaðamaður Lesbókar Morgunblaðsins átti viðtal við Guðstein skömmu fyrir jólin 1963. Þar sagði hann að með batnandi efnahag og auknum framförum hefði öllu farið fram og bætti því við að óhætt væri að segja að allt hefði breyst og velmegunin aukist ótrúlega. Fólk væri farið að kaupa dýrari vörur en áður og spyrði ekki eins mikið um verð. Guðsteinn sagði í lok viðtalsins að tímarnir hefðu auðvitað mátt breytast – „því að þetta var ekkert líf hjá fólkinu í gamla daga, hreint ekkert líf“.
Guðsteinn Eyjólfsson lést 11. júlí 1972, 82 ára að aldri. Eftir andlát hans var verslunin rekin með óbreyttu sniði í fjögur ár uns Hólmfríður María og Eyjólfur Guðsteinsbörn keyptu hluti systkina sinna. Hólmfríður fluttist við svo búið í húsið og bjó þar, allt þar til hún lést. Eyjólfur sá um rekstur fyrirtækisins fram til dauðadags haustið 2004. Síðustu fimmtán árin naut hann þó aðstoðar dóttur sinnar, Svövu, sem tók við alfarið við rekstrinum að föður sínum látnum.