Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg mótmæla málflutningi Hjálmars Sveinssonar, formanns umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, sem í fréttum ríkisútvarpsins á sunnudag lagði til að Laugavegi yrði lokað fyrir bílaumferð frá 1. maí til 1. október.
Samtökin hafa áður bent á skaðleg áhrif lokunar á verslun við Íslendinga og hafa kært fyrri ákvörðun borgarinnar um lokun til innanríkisráðuneytis. Ráðuneytið hefur ekki kveðið upp úrskurð sinn og fráleitt að ræða um lokun áður en ráðuneytið hefur komist að niðurstöðu.
Laugavegurinn er eina skilgreinda verslunargata borgarinnar og til mikils að vinna að verslun þar fáist þrifist. Það gerist ekki nema í góðu samráði við hagsmunaaðila og brýnt að formaður umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar láti af skæruhernaði gegn atvinnulífi í borginni. Ekki hefur örlað á vilja formanns umhverfis- og skipulagsráðs til samráðs við rekstraraðila og eigendur atvinnuhúsnæðis við götuna.
Hafi borgaryfirvöld áhuga á lokun er rétt að greitt verði um það atkvæði meðal rekstraraðila og eigenda atvinnuhúsnæðis á svæðinu. Of miklir atvinnuhagsmunir og eignarréttindi eru í húfi til að ákvörðun af þessu tagi sé tekin einhliða af borgaryfirvöldum.
Göngugata getur verið skemmtileg tilbreytni á sólríkum dögum, en í rigningu og sudda er engum til gagns að loka fyrir umferð. Möguleg lokun götunnar verður að vera á forsendum verslunarinnar sjálfrar. Þar mætti til dæmis hugsa sér svokallaða góðviðrislokun.