Björn Jón Bragason, framkvæmdastjóri Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg, ritaði stuttan pistil um Hafmeyjuna í Tjörninni, sem birtist fyrir fáeinum dögum á vefsvæði hans í Pressunni. Pistillinn er svohljóðandi.
Nína Sæmundsson var einn kunnasti listamaður Íslendinga á tuttugustu öld, þrátt fyrir að hún sé nú flestum gleymd. Líklega hafa þó fáir íslenskir myndlistarmenn náð viðlíka árangri og Nína. Verk hennar má finna víða um heim, þar á meðal mætti nefna verkið Afrekshug sem stendur yfir aðalanddyri Waldorf-Astoria hótelsins við Park Anenue í New York og minnismerki um Leif Eiríksson í Los Angeles, en lengst af starfaði Nína vestanhafs.
Öðru kunnu verki Nínu, Hafmeyjunni, var sumarið 1959 fundinn staður í Tjörninni í Reykjavík. Hugmyndina að staðarvalinu átti Thor Thors sendiherra, en Nína var sjálf með í ráðum við ákvörðunina. Íslenskir gagnrýnendur fundu þessu fallega verki allt til foráttu, en Nína hafði þá um árabil verið litinn hornauga af hinni svokölluð „listaelítu“ hér heima. Hinir og þessir forkólfar Bandalags íslenskra listamanna kröfðust þess að Hafmeyjan yrði fjarlægð og hún var í blaðagreinum kölluð mörgum illum nöfnum. Þeir sömu menn og hallmæltu verkinu höfðu lítið gert sjálfir til að auka hróður lands og þjóðar samanborið við Nínu, en hins vegar þegið opinbera styrki í ríkum mæli á meðan Nína lifði af list sinni. Hér kann einnig að hafa haft áhrif að helstu forystmenn í listalífi þessa tíma voru róttækir vinstrimenn sem höfðu megnan ímugust á Bandaríkjunum.Á nýársnótt þegar hálftími var liðinn af nýja árinu 1960, var Hafmeyjan sprengd í loft upp. Er lögreglumenn komu á staðinn lágu hlutar styttunnar eins og hráviði á ísilagðri Tjörninni.
Ódæðisverkið hefur aldrei verið upplýst en þeir sem frömdu verknaðinn rituðu bréf sem birtist í dagblöðunum þar sem Hafmeyjunni var enn á ný hallmælt. Af þeim skrifum má dæma að hér hafi engir óvitar verið á ferð. Allt til þessa dags hafa verið uppi sögusagnir um að háttsettir menn í listalífinu hafi verið að verki.
Það hefur löngum þótt vandalismi af verstu gerð að ráðast gegn listaverkum og í þetta sinn höfðu hatursmenn Nínu vinninginn, því styttunni var aldrei komið fyrir aftur á sínum stað. Ódæðisverkið lagðist svo þungt á Nínu að hún treysti sér ekki til að líta brotna styttuna augum. Hún lést aðeins fimm árum síðar.
Er ekki tímabært að einni kunnustu listakonu Íslands verði veitt uppreist æru og Hafmeyjunni, þessu glæsilega verki, á nýjan leik fundinn staður í Tjörninni?