Stór hluti þeirra ferðamanna sem sækir landið heim kemur með skemmtiferðaskipum og bókanir gera ráð fyrir að enn fleiri komi með skemmtiferðaskipum til borgarinnar næsta sumar.
Íslendingar eiga þó langt í land með að skapa viðunandi aðkomu fyrir skemmtiferðaskipin, en fæst þeirra komast inn á innri höfnina og verða því að leggjast að bryggju í Sundahöfn. Þar er ekki umhverfið ekki sem glæsilegast – gámar og ólykt. Vart er til svo fátækt ríki í Karabíska hafinu að þar sé ekki skemmtiferðaskipalægi alveg við miðbæi viðkomandi höfuðstaða. – Þaðan sem gestir geta gengið í land, litið í söfn, skoðað áhugaverða staði, sótt tónlistarviðburði, litið inn á matsölustaði og verslað.
Slíku er ekki að heilsa hér á landi, þar sem venjulegast er boðið upp á hópferðir út úr borginni og sá mikli fjöldi ferðamanna sem hingað kemur með skemmtiferðaskipum skilur lítið eftir sig í tekjum hér innanlands.
Til að bæta úr þessu væri rétt að koma upp viðlegukannti fyrir skemmtiferðaskip við Skúlagötu nærri Hörpunni, en ýmsar útfærslur á þeirri hugmynd hafa verið gerðar á umliðnum árum, svo sem með bryggju sem myndi skapa skjól fyrir smábáta yfir sumartímann og myndu setja skemmtilegan svip á strandlengjuna við Skúlagötu.
Ef skemmtiferðaskipalægi yrði fundinn staður við Skúlagötu mætti hugsa sér að Harpan gæti nýst sem glæsilegt aðkomuhús eða terminal. Þar færi fram tollskoðun og allir gestir af skemmtiferðaskipum gengju þar í gegn. Um leið gæfist færi á að hafa þar tónleika á daginn yfir sumartímann og drýgja þannig tekjur af húsinu. En undanfarið hefur mikill taprekstur tónlistarhússins verið til umræðu.
Þeir lauslegu útreikningar sem gerðir hafa verið á kostnaði við skemmtiferðaskipalægi gera ráð fyrir að slík framkvæmd myndi borga sig upp á fáeinum árum, enda hafnargjöldin mikil af hverju skipi. Ef til vill væri ráðlegt að leita til einkaaðila um byggingu þessara mannvirkja og reksturs til ákveðins tíma, til að takmarka áhættu opinberra aðila.
En hvað sem því líður er mikilvægt fyrir uppbyggingu og framþróun ferðamennsku í Reykjavík að huga alvarlega að nýrri aðkomu skemmtiferðaskipa til borgarinnar – enda gríðarlegar tekjur í húfi. Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg hvetja borgaryfirvöld til að setja þetta brýna hagsmunamál Reykvíkinga á dagskrá.