Árið 1971 komu Jón Sigurjónsson gullsmíðameistari og Óskar Óskarsson úrsmíðameistari á fót úra- og skartgripaverslun sem við þá er kennd. Jón & Óskar var fyrst til húsa að Laugavegi 70 í fimmtíu fermetra hálf niðurgröfnu rými, en þegar reksturinn fór að sprengja utan af sér þessa fáu fermetra stækkuðu þeir verslunina til austurs yfir í húsið við hliðina á.
Verslunin var frá upphafi deildaskipti í skartgripadeild og úra- og klukkudeild. Starfsfólkið hefur alla tíð verið sérþjálfað í afgreiðslu fyrir sína deild en þeir Jón og Óskar lögðu frá upphafi áherslu á að starfsfólk þeirra væri vel menntað í sinni grein.
Árið 1987 störfuðu hjá fyrirtækinu tíu manns, við beina þjónustu við viðskiptavini, og í gull- og úrsmíði og viðgerðaþjónustu. Í viðtali við Jón og Óskar það ár lýsti Óskar úrvalinu af úrum svo:
„Í úrunum er mikið úrval af toppvöru, sem við flytjum inn beint. Pierre Cardin úrin eru orðin mjög vinsæl, þau eru nánast „skartgripir sem mæla tímann“. Við erum líka með Delma, Casio, Seiko og Chizen-úr, gæðamerki, annað viljum við ekki bjóða.“
Skartgripirnir voru þá, eins og fyrr og síðar, fluttir inn frá þekktum og virtum skartgripafyrirtækjum, í Þýskalandi, Belgíu og Ítalíu. Að hafa sami skapi hefur lengi verið smíðað á verkstæði fyrirtækisins, en þegar blaðamaður átti viðtal við Jón Sigurjónsson árið 1987 var hann að leggja lokahönd á nýjustu línuna sem frumsýnd yrði á sýningu gullsmiða á Kjarvalstöðum. Sú lína nefndist „Stykki úr gulli“, en um var að ræða hálsmen, nælur og hringi úr gulli, skreytt litlum demöntum.
Það var síðan árið 1995 sem verslunin flutti í nýtt og glæsilegt húsnæði að Laugavegi 61 og varð þar með stærsta úra-og skartgripaverslun landsins. Fyrirtækið rekur nú einnig verslanir í Kringlunni og Smáralind. Jón & Óskar hefur frá fyrstu tíð verið þekkt fyrir vandaða og persónulega þjónustu, en verslunin hefur lengi haft umboð fyrir fjölda heimsþekktra vörumerkja en milliliðalaus viðskipti tryggja besta verðið.