Myndin sýnir líkan að byggingu Iðnskólans á Skólavörðuholti. Álman lengst til hægri á myndinni var aldrei byggð, en þar átti að vera salur Iðnaðarmannafélagsins og um leið kvikmyndahús sem reka átti til að afla fjár til reksturs skólans.
Kvikmyndahúsið lengst til hægri á myndinni átti að standa við fyrirhugað „Skólavörðutorg“. Þessi áform voru lögð á hilluna eftir að ríkið tók við rekstri skólans. Skólinn var óratíma í byggingu. Framkvæmdir hófust 1946, kennsla hófst þar 1955 í hálfhráum hússkrokk og varð það hlutskipti kennara og nemenda að innrétta það. Fyrsti áfangi hússins var ekki fullrágenginn fyrr en 1974.
Umhverfi Skólavörðuholtsins hefði orðið allt annað ef kvikmyndahúsið hefði risið þarna.