Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg fagna því að gatan verði nú að lokinni menningarnótt opnuð aftur fyrir bílaumferð. Tilraun borgaryfirvalda til lokunar hefur gefist einkar illa. Víða er mikill samdráttur í verslun milli ára, jafnt á lokaða kaflanum sem og annars staðar við götuna og þá hafa aldraðir og fatlaðir viðskiptavinir orðið mjög sjaldséðir í verslunum. En gjarnan þarf að aka þeim viðskiptavinum upp að dyrum sem eiga óhægt um vik að ganga.
Samtökin treysta því að ekki verði gerðar fleiri tilraunir til lokunar götunnar í ljósi þess hversu illa hefur til tekist. Í Reykjavík er aðeins ein verslunargata og mikilvægt að verslun og mannlíf þar fái að dafna og eflast á komandi árum og áratugum, en til þess að svo megi verða þarf aðgengi að vera greitt að verslunum. Laugavegurinn á í harðri samkeppni við önnur verslunarsvæði í Reykjavík, þar sem aðgengi er gott.
Í mars á þessu ári rituðu tæplega fimmtíu fasteignaeigendur og eigendur rótgróinna verslana við götuna undir mótmælaskjal sem afhent var borgarstjóra, þar sem öllum frekari fyrirætlunum um lokun götunnar var mótmælt. Síðan þá hefur fjölgað mjög mikið í þessum hópi. Kaupmenn hafa um áratugaskeið bent á þá hættu sem versluninni stafar af heftu aðgengi, en borgaryfirvöld hafa því miður sýnt því lítinn skilning. Hér á heimasíðunni má lesa fjölda ummæla kaupmanna í miðborginni um þessi mál síðustu áratugina.
Að sama skapi hafa lokanir gatna eyðilagt hinn gamalgróna reykvíska sið að fara á „rúntinn“ en viðskiptavinir aka gjarnan rúntinn að kvöldlagi og líta í búðarglugga. Umferð bifreiða um Laugaveginn er afar hæg og ógnar engum. Hins vegar getur lokun götunnar skapað stórhættu í nálægum íbúðahverfum. Laugavegurinn er lífæðin í gegnum miðborginni á sama hátt og Austurstræti var lífæðin í gegnum Kvosina þar sem miðstöð verslunar var áður, en lokun Austurstrætis fyrir bílaumferð 1973 varð banabiti verslunar á því svæði.
Til eru vítin að varast að og brýnt að borgaryfirvöld hætti að tálma aðgengi borgaranna með höftum og bönnum.