Verslunin Brynja er til húsa að Laugavegi 29, en hún er elsta og jafnframt ein þekktasta byggingavöruverslun landsins. Guðmundur Jónsson kaupmaður stofnaði verslunina árið 1919 og rak hana í tuttugu ár. Verslunin hefur um áratugaskeið flutt sjálf inn vörur beint frá heimsþekktum verksmiðjum og framleiðendum.
Árið 1943 var stofnuð glerslípun og speglagerð í sambandi við verslunina, en þar fékkst um áratugaskeið afgreitt skorið gler, speglar og slípað gler.
Björn Guðmundsson rak verslunina lengi, en hann var systursonur Guðmundar. Björn var jafnframt umsvifamikill í innflutningi á verkfærum, byggingavörum, búsáhöldum, glervörum, þilplötum og harðvið. Heildverslun hans var með einkaumboð fyrir ýmsa þekktustu framleiðendur þessara vara.
Björn lést árið 1993 og þá tók sonur hans Brynjólfur við rekstrinum.