Sú var tíðin að allar stærri verslanir í Reykjavík voru staðsettar í miðborginni, en flest þessara fyrirtækja voru rótgróin ættarveldi í verslun. Gamlir Reykvíkingar muna vel eftir Haraldarbúð í Austurstræti, Edinborg í Hafnarstræti, skóverslun Lárusar G. Lúðvíkssonar í Bankastræti, Marteini Einarssyni á Laugavegi og svo mætti lengi telja. En nú er svo komið að verslun hefur að mestu lagst af í gamla miðbænum og myndarlegum verslunum við Laugaveginn, aðalverslunargötu bæjarins, fer sífellt fækkandi.
Borgaryfirvöld undanfarinna áratuga bera höfuðábyrgð á því hvernig komið er fyrir miðbænum, en fjölmörgum húseigendum hefur verið meinað að rífa ónýtt verslunarhúsnæði og byggja nýtt og þá hefur aðgengi að verslunum verið skert stórlega með færri bílastæðum og lokun gatna.
Og nú berast þær fregnir að enn eigi að loka götum, en umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar hefur ákveðið að loka varanlega fyrir umferð bifreiða um Austurstræti. Erfitt er að koma á auga röksemdir fyrir slíku. Á það hefur verið bent að víða erlendis þrífist göngugötur vel sem verslunargötur, en slíkt hefur ekki gefið góða raun hér á landi og eru ástæður þess vafalaust margar, svo sem óblíð veðrátta og mikil notkun einkabílsins. Austurstræti var án efa glæsilegasta verslunargata bæjarins lungann úr síðustu öld, en lokun götunnar drap svo að segja endanlega verslun við Austurstræti og þar í grennd. Þetta ætti að vera mönnum víti til varnaðar.
Ég þekki ágætlega til verslunarreksturs í miðborginni og tengist einni af rótgrónari verslunum við Laugaveg. Undanfarin sumur hefur stundum verið lokað á laugardögum fyrir bílaumferð um Laugaveg, jafnan án nokkurs fyrirvara og að geðþótta einhverra ráðamanna. Ég gerði samanburð á sölu í versluninni þá daga sem gatan var lokuð og því sem gerist á „meðal-laugardegi“ þegar opið er fyrir bílaumferð. Salan þá daga sem gatan er lokuð er alltaf innan við helmingur af því sem hún er venjulega og stundum mun minni. Aðrir verslunareigendur hafa sömu sögu að segja. Kaupmenn hafa því eðlilega velt því fyrir sér hvort það taki því hreinlega að hafa verslanir opnar þá daga sem gatan er lokuð fyrir bílaumferð.
Þá er til þess að líta að viðskiptavinir verslana við Laugaveg eru oft og tíðum fullorðið fólk. Fólk komið á efri ár er sjaldnast í stakk búið til að ganga langan veg og vill því geta lagt bílum sínum nærri versluninni. Flestir viðskiptavinir verslana við Laugaveginn koma líka gagngert til að versla í tilteknum búðum, en við Laugaveginn er því miður lítil sem engin „gangandi traffík“.
Ein aðförin að verslun á þessu svæði var hjólreiðastígur, sem var lagður eftir Hverfisötunni endilangri, en undir hann fóru nánast öll bílastæði við götuna. Sem betur fer varð ekki framhald á þeirri endaleysu, enda sást vart nokkur maður á hjóli nýta sér stíginn. Á umliðnum árum hefur bílastæðum verið fækkað jafnt og þétt við Laugaveginn og annars staðar í miðborginni og að sama skapi hafa gangstéttir verið breikkaðar. Akandi umferð er því ekki ætlað mikið rými á þessu svæði og því óskiljanlegt hvers vegna ætti að vera ástæða til að loka götum að fullu fyrir bílaumferð.
Borgaryfirvöldum er mjög umhugað um menningarlíf og er það vel. En menningin í miðborginni er ekki hvað síst fólgin í versluninni sjálfri. Mikill sjónarsviptir er að gömlum stórveldum í verslun. Ekki eru mörg ár síðan elsta starfandi fyrirtæki landsins, Reykjavíkurapótek í Austurstræti, lagði upp laupana og margir gamlir Reykvíkingar sakna þess og annarra glæsilegra fyrirtækja. Fyrirtækin í miðborginni eru nefnilega miklu meira virði fyrir samfélagið en húsin. Fyrirtækin veita fólki atvinnu og þar verða til verðmæti. Það er líka merkilegt menningarfyrirbæri ungra sem aldinna Reykvíkinga að aka niður Laugaveginn og Austurstræti og virða fyrir sér vörur í útstillingargluggum verslana. Rúntinum er ógnað með lokunum borgaryfirvalda.
Eftir því sem verslunum fækkar í miðbænum fjölgar öldurhúsum, en vera kann að borgaryfirvöld stefni að því að eingöngu slík starfsemi fái þrifist í miðborg Reykjavíkur. Ég hygg þó að við séum fleiri þeirrar skoðunar að í miðbæ Reykjavíkur eigi að geta þrifist verslun og til þess að svo megi vera til frambúðar verða borgaryfirvöld að láta af áformum sínum um lokun gatna og hætta öðrum skemmdarverkum gegn versluninni. Án blómlegra verslunarfyrirtækja er enginn miðbær.
Greinin birtist á Pressunni, 29. janúar 2011.