Við Laugaveg 57–59 stendur eitt glæsilegasta verslunarhús landsins, Kjörgarður. Forgöngu að byggingu hússins höfðu þeir Sveinn B. Valfells og Kristján Friðriksson. Kristján átti upphaflega helming þeirrar lóðar sem Kjörgarður stendur á, en byggingaframkvæmdir vegna húss fyrir fyrirtæki hans, Últímu, strönduðu þar sem leyfi fengust ekki eða seint. Upp úr því kviknaði sú hugmynd að slá saman lóðunum númer 57 og 59 og byggja þar eitt verslunarhús. Úr varð „magasín“ að erlendri fyrirmynd, sem þá var kallað fjölverslunarbygging, en nú er í daglegu talið nefnt verslunarmiðstöð.
Teikningar gerði hinn kunni arkítekt Halldór H. Jónsson, en hann teiknaði margar af þekktustu byggingum bæjarins, svo sem Hótel Sögu og Háteigskirkju. Jón Guðni Árnason var byggingameistari og annaðist verkstjórn.
Kjörgarður opnaði laust fyrir jólin 1959 og þá þegar höfðu 14 verslanir komið sér þar fyrir, en enn var þá óráðstafað rými fyrir átta til tíu verslanir í viðbót. Alls voru 25 verslunardeildir í Kjörgarði þegar mest var. Þá stóð enn fremur til að byggja tvær hæðir ofan á húsið, en það var í upphafi þrjár hæðir með kjallara, seinna var fjórðu hæðinni bætt við. Gólfflötur er um 900 fermetrar í kjallara og á fyrstu hæð, en 500 fermetrar á efri hæðum.
Í kjallaranum var í upphafi húsgagnaverslunin Skeifan og starfaði hún þar um langt árabil. Á götuhæðinni voru fimm verslanir þegar Kjörgarður tók til starfa. Þar var Últíma með herrafataverslun, skóverslunin Ríma, Verslun VBK með sport- og vinnuföt og herravörur, verslunin Sport með sport- og veiðitæki, og úra- og skartgripaverslunin Menið.
Á annarri og þriðju hæð voru einnig verslanir, meðal annars Storkurinn með fjölbreytta verslun með ungbarnafatnað og skyldar vörur, Tískan með nærfatnað kvenna, lífstykkjavörur og fleira fyrir kvenfólk, verslunin Mælifell með fjölbreytt úrval af álnavöru, Orion, sem hafði umboð fyrir garn, tvinni, hnappa, saumavélar, prjónavélar o. fl.
Þá var þarna að finna Bernharð Laxdal, sem verslaði með kvenkápur og kvenhatta, blómaverslunina Kjörblómið, hárgreiðslustofuna Blæösp, verslunina Gluggatjöld og svo mætti áfram telja. Á efstu hæðinni var í upphafi Kjörgarðskaffi með útsýni yfir sundin blá. Rafknúinn rúllustigi í húsinu gerði verslun mögulega á efri hæðum, en rúllustiginn í Kjörgarði var sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi.
Við opnun Kjörgarðs mátti lesa í einu dagblaðanna: „Opnun Kjörgarðs er mikið framfaraspor í verzlun hérlendis og Kjörgarður verður fyrsta „magasínið“ með fullkomnu sniði hérlendis. Þangað ganga menn ekki bónleiðir til búðar.“
Síðar var Hagkaup lengi á allri götuhæðinni með matvörur, búsáhöld, vefnaðarvörur, fatnað skó og fleira. Nú er verslun Bónuss á þeirri hæð, en enn eru verslanir á annarri hæð. Þar má finna kaffihús og Storkurinn er þar enn til húsa. Þá er margs konar önnur starfsemi í húsinu, svo sem arkítektastofa og sálfræðistofur.