Hérna að neðan gefur að líta glefsur úr ummælum sem höfð hafa verið eftir kaupmönnum og öðrum rekstaraðilum í miðborginni síðustu áratugina:
„Þið eigið nokkrar lóðaspildur, svo að við tökum þannig til orða, við Aðalstræti og þar í grennd. Eru einhverjar áætlanir uppi í sambandi við þær?“ – „Því er fljótsvarað. Við höfum tvívegis látið gera frumdrög að glæsilegum byggingum við Aðalstræti og hefðum haft fullan hug á að reisa þær, en seinagangurinn með skipulagið þarna hefur komið í veg fyrir, að nokkuð væri hægt að gera.“
– Sigurliði Kristjánsson í Silla & Valda árið 1969.
„Borgarstjóri hefur sagt opinberlega, að um lokun Austurstrætis verði ,,að sjálfsögðu“ haft „samráð við þá sem hagsmuna hafa að gæta í Austurstræti“. Það eru býsna margir sem stunda atvinnurekstur við götuna og hafa þar hagsmuna að gæta, en ekki einn einasti kaupmaður hefur verið spurður né verið haft samráð við vegna tilraunarinnar, ef undan er skilin kaffiveislan fræga í Höfða á sínum tíma. Þangað voru allir kaupmenn við götuna boðaðir eftir að þeir höfðu sent borgarstjóra harðorð mótmæli, en undir mótmælin skrifuðu 23 kaupmenn, en þeir óttuðust þá þegar, að slík lokun myndi hafa samdrátt í viðskiptum í för með sér og hefur sá ótti ekki reynst ástæðulaus.
Í umræddu kaffiboði voru mótmælin þögguð niður, öllu fögru lofað, og þá vantaði ekki orðin SAMVINNU og SAMRÁÐ. Þar var það fyrirheit gefið að tilraunin yrði aðeins tveir mánuðir og síðan yrði gatan opnuð. Nú eru þessir tveir mánuðir liðnir og vel það, við kaupmennina hefur ekki verið taláð, og þegjandi og hljóðalaust samþykkja borgaryfirvöld framlengingu á lokun götunnar án alls samráðs, vitandi það að umferð og verslun i götunni hefur minnkað.“
– Ónefndur kaupmaður í Austurstræti árið 1973.
Nei, ég vil ekki loka Laugaveginum fyrir bílaumferð, a.m.k. ekki í náinni framtíð. Ég tel að Laugavegurinn anni á fullnægjandi hátt þeirri bílaumferð sem um hann fer í dag. Ef bílaumferð yrði bönnuð, myndi það t.d. valda öldruðu fólki og fötluðum miklum vandræðum og myndi gera þeim erfiðara um vik að versla hér við Laugaveginn.
– Ebba Hvannberg í Skóverslun Hvannbergsbræðra árið 1982.
„Aðalvandamálið er skortur á bifreiðastæðum, en það hefur í för með sér mjög hæga umferð og ólöglegar bifreiðastöður. Að mínu áliti er nauðsynlegt að gera eftirfarandi. Í fyrsta lagi þarf að byrja á að breyta núgildandi reglum um stöðumæla og rangstöðu ökutækja. Einn aðili, Reykjavíkurborg, á að annast eftirlit með stöðumælum, rangstöðum og ,,zónum“. Borgin á að hafa allar tekjur af aukaleigugjöldum og sektum. Nýtt innheimtukerfi á að taka upp þar sem minnkuð er skriffinnska og framkvæmd gerð einföld t.d. með afslætti til þeirra sem greiða innan 24 klst. Tekjum sem inn koma á að verja óskiptum til byggingar bifreiðageymsluhúsa. Í öðru lagi á að byggja tvö bifreiðageymsluhús strax, annað í Kvosinni, t.d. við Vesturgötu eða Tryggvagötu, og hitt við Hverfisgötu. Sé rétt staðið að hönnun, framkvæmd og rekstri munu slík hús geta staðið undir sér fjárhagslega. Í þriðja lagi á að setja upp „zónur“ í nærliggjandi götum þar sem ekki eru stöðumælar, þ.e. gjaldfrjáls stæði sem eru takmörkuð við ákveðinn tíma, jafnvel allt upp í fjórar klukkustundir. Standi bifreið aftur á móti lengur en leyfilegt er, á að beita viðurlögum. Í fjórða lagi á að reka ókeypis strætisvagnaleið sem hringleið Hlemmur—Lækjartorg eða á milli bílageymsluhúsa og jafnframt um Laugaveg og Hverfisgötu. Allt tal um bifreiðastæði í Vatnsmýri og strætisvagnaleið þaðan er óraunhæft.“
– Pétur Sveinbjarnarson í Aski árið 1982.
„Ég held að kaupmenn óttist það mest að ekkert verði við þá talað áður en stórar ákvarðanir eru teknar varðandi framtíð Laugavegarins og miðbæjarins. Menn óttast að vakna upp einn morguninn við það að Laugavegurinn sé orðinn að göngugötu. Ég tel það alls ekki tímabært nú að loka Laugaveginum fyrir bílaumferð, en útiloka alls ekki að það geti orðið í framtíðinni. Það er bara svo margt sem verður að gera fyrst áður en svo stórt skref er stigið. T.d. verður að sjá fyrir bílastæðum alveg við Laugaveginn, ekki langt niður við Skúlagötu, eins og stungið hefur verið upp á. Fólk vill geta ekið á sínum bíl sem næst þeim stað sem það ætlar á.“
– Sigurður E. Haraldsson í Versluninni Elfur árið 1982.
„Hér er mjög mikill skortur á bílastæðum og er það mjög bagalegt fyrir viðskiptin. Þeim málum verður að koma í lag hið fyrsta, það þolir enga bið.“
– Matthías Sigurðsson, kaupmaður í Víði, árið 1982.
„Hér er allt steindautt eftir klukkan 6 og allar helgar“, segir Gulli og rifjar upp góðar og yljandi minningar frá því að hann var á „rúntinum“, í iðandi mannlífi Austurstrætis fyrir svo sem 25 árum. Þeir Karnabæjarbændur benda á að ekkert hafi verið hugsað fyrír framtíðarþróun þessa borgarhluta. Brýnustu aðgerðir til aö rétta hlut miðbæjarins telja þeir vera: Stórmarkað, meira svigrúm húseigenda til að bæta við rými til aukinna athafna, úrlausnir í bílastæðamálum þannig að fólk eigi stuttar gönguleiðir að verslunum, frjáls opnunartími til að miðbæjarverslanir geti haft opið t.d. á fimmtudagskvöldum og til 6 á laugardögum.
– Guðlaugur Bergmann í Karnabæ árið 1982.
Ég er ekki hrifin af áætlunum sem uppi hafa verið um að koma upp nýjum miðbæ í Kringlumýrinni. Ég held það sé ekki skynsamlegt að dreifa þessum fáu verslunum sem grundvöllur er fyrir á marga staði. Með því móti yrði hvergi almennilegur miðbær.
– Ebba Hvannberg í Skóverslun Hvannbergsbræðra árið 1982.
„Ég held satt að segja að okkur hafi tekist að koma í veg fyrir að Laugavegi yrði lokað fyrir bílaumferð, að strætisvögnum undanskildum, í desember. Ég tel að okkur beri að skipta okkur af þessum málum í auknum mæli. Þannig eru takmarkanir á beygjum inn á Laugaveg að flestra áliti allt of miklar. Við viljum breytingar á þessum hömlum. Með þessum takmörkunum er bara verið að auka á hættuna í íbúðahverfunum upp af Laugavegi, þar eykst umferðin stórlega.“
– Guðlaugur Bergmann í Karnabæ árið 1986.
„Við höfum reynt að vekja athygli á því að framtíð miðbæjaríns byggist m.a. á því að hér verði fjölgað verulega bílastæðum. Íslendingar hafa valið einkabílinn sem aðalsamgöngutæki sitt og þess vegna þarf að sjá fólki fyrir bílastæðum svo það komist leiðar sinnar … Við urðum hins vegar fyrir áfalli þegar stöðumælagjöld voru hækkuð og hersveitir stöðumælavarða fóru af stað með sektarmiða. Þetta hafði neikvæð áhrif á umferð í miðbænum og hrakti fólk héðan, enda voru á tímabili skrifaðar um átta hundruð sektir á dag í bænum.
– Ástbjörn Egilsson, frkvstj. Gamla miðbæjarins, árið 1988.
„Ég tel líka að göngugatan í sinni núverandi mynd sé tímskekkja. Tjaldastemningin sem reynt hefur verið að mynda þar er mislukkuð. Austurstrætið ætti að vera með svipuðu sniði og Laugavegurinn er eftir breytingar á honum. Austurstrætið ætti að vera þröng vistgata sem væri opin fyrir bílaumferð. Þannig mætti tryggja gegnumgangandi umferð um miðbæinn.“
– Garðar Siggeirsson, kaupmaður í Herragarðinum, árið 1988.
„Það er víst óhætt að segja að hreinsun í miðbænum sé algjörlega í lágmarki og borgum við þó hæstu fasteignagjöldin hérí miðbænum. Fólk vill koma í miðbæinn til að skoða í búðir og fá sér kaffi, ekki til að vaða ryk, sand og gosdrykkjaumbúðir upp í ökkla. Það er líka dapurlegt þegar fullorðnar konur þora ekki að ganga í gegnum Austurstræti á björtum sumardegi vegna rónanna sem hanga þar.“
– Edda Hauksdóttir í Stellu árið 1989.
Skúli Jóhannsson, kaupmaður í Tékk-Kristal, lýsti áhyggjum vegna ástandsins í miðbænum og nefndi, að sem dæmi, að nánast engin uppbygging hefði átt sér stað þar undanfarna áratugi. Ástæðan væri sú, að verslun og þjónústa hefði færst í miklum mæli þaðan, til dæmis í Kringluna. Hann fjallaði nokkuð um hugmyndir til úrbóta og nefndi, að ástæða væri til að auka uppbyggingu í kringum höfnina, opna ætti Austurstræti fyrir bílaumferð og ástæða væri til að strætisvagnar færu niður Laugaveginn, frá Hlemmi að Lækjartorgi.
Skúli mælti fyrir tillögum til borgaryfirvalda til úrbóta: Í fyrsta lagi, að gjöld vegna nýbygginga og bílastæða við þær yrðu lækkuð, eða jafnvel felld niður, í öðru lagi að stöðumælagjöld yrðu aðeins innheimt frá klukkan 9 til 15 og í þriðja lagi að mati á fasteignum og lóðum í miðbænum, sérstaklega Kvosinni, yrði breytt, þannig að fasteignagjöld lækkuðu.
– Skúli Jóhannesson, kaupmaður í Tékk-Kristal, á fundi Kaupmannasamtakanna um málefni miðbæjarins árið 1990.
„Sú stefna sem rekin er í bifreiðastæða- og stöðumálum bætir ekki úr skák og hefur skapað miðborginni neikvæða ímynd.“
– Pétur Sveinbjarnarson, frkvstj. Þróunarfélags miðborgarinnar árið 1991.
„Það var nógu slæmt að þurfa að loka versluninni. Mér finnst hálfóþægilegt að koma á þessar slóðir, það er eins og eitthvað vanti. En það var orðið ómögulegt að reka hér verslun, bílastæðavandræði voru hér mikil, ekki má leggja hér bíl fyrir framan lengur en 15 mínútur.“
– Örn Jacobsen í Verslun Egils Jacobsen árið 1998.
„Því má halda fram að kaupmenn í miðbæ Reykjavíkur séu í gíslingu skipulagsyfirvalda. Það má nánast ekki hreyfa við neinu. Flest hús, eldri en hundrað ára, eru á verndarskrá, sem er í raun fáránlegt og á ekkert skylt við að eðlilega verndarstefnu. Fyrir tilstuðlan skipulagsyfirvalda má segja að fyrri kynslóðir hafi tekið núverandi miðbæjarkaupmenn í gíslingu. Kaupmenn og fjárfestar verða að fá að breyta og fjarlægja ýmis gömul og úr sér gengin hús til að rýma fyrir nýju og betra húsnæði sem hentar verslun í dag. Annars er úti um miðbæjarverslun.“
– Haukur Þór Hauksson, kaupmaður og formaður Samtaka verslunarinnar, árið 2001.
„Við kaupmenn höfum margsinnis óskað eftir því að borgaryfirvöld hætti að skattpína viðskiptavini miðborgarinnar með of háum bílastæðagjöldum. Best væri ef gjöldin yrðu lækkuð og það eitt og sér gæti haft mikil áhrif í þá átt að efla miðbæinn á ný og ná honum upp úr þeirri lægð sem hann er nú í.“
– Gunnar Guðjónsson kaupmaður í Gleraugnamiðstöðinni árið 2002.
Þau Erla og Skúli eru í ákjósanlegri aðstöðu til að bera saman gæði verslunarstaðsetninga, með verslanir bæði í Fenjunum og í Kringlunni og áður á Laugaveginum. Þau segja bæði að Kringlan sé góður staður og verslunin þar gangi afar vel, en þegar upp sé staðið skili verslunin í Fenjunum meira. Munurinn á Laugaveginum og Faxafeni þegar þau fluttu 1992 hafi hins vegar verið gífurlegur og hafi þau verið með tugum prósenta ef ekki yfir hundrað prósenta betri sölu í Faxafeni heldur en á Laugaveginum.
– Úr viðtali við Skúla Jóhanneson og Erlu Vilhjálmsdóttur í Tékk Kristal árið 2001.
„Mér fannst ég þurfa að vera áfram niðri í bæ, því ég var búin að vera þar svo lengi. En svo sá ég fljótt að það var ekki jafn fýsilegt og ég hélt að vera á þessum slóðum, því bærinn hefur breyst svo mikið á síðustu árum. Verslanir sem voru í Austurstræti og Hafnarstræti eru horfnar og komnir súludansstaðir og kaffihús í þeirra stað.“
„Og ekki voru stöðumælahækkanirnar og hin eilífu bílastæðavandamál og sektir í miðbænum til að fegra þetta,“ hélt Íris áfram. „Ég var iðulega farin að heyra, að fastakúnnar mínir veigruðu sér við að koma á stofuna til mín, af því að þeir fengu einfaldlega ekki bílastæði.“
– Íris Gústafsdóttir hárgreiðslumeistari, sem áður rak hárgreiðslustofu í Pósthússtræti, árið 2001.
Gilbert Ó. Guðjónsson, úrsmiður á Laugavegi, segist hlynntur því að framrúðuklukkukerfið verði tekið upp í tilraunaskyni til að tryggja að sem flestir hafi aðgang að bílastæðum í miðbænum. Hann segir að margt í bílastæðamálum miðborgarinnar verði að enduskoða og að ekki hafi nægjanlegt samráð verið haft við verslunareigendur í þeim efnum. Hann nefnir sem dæmi að bíleigendur við götur í miðborginni geti látið bíla sína standa óhreyfða á gjaldskyldum stæðum með svokölluðum íbúakortum sem dragi þar með úr framboði á bílastæðum fyrir viðskiptavini.
– Úr viðtali við Gilbert úrsmið árið 2002.
„Þetta stuðar fólk, það lætur skipta um batterí í úrinu fyrir 700 krónur og borgar svo 1.500 krónur í stöðumælasekt í leiðinni.“
– Kornelíus Jónsson úrsmiður árið 2003.
„Auðvitað lagar maður sig að breyttum aðstæðum,“ segir Þórir … Hann segir skelfilegt að horfa upp á það á sama tíma að einu fyrirtækin sem fylli skarð þjónustufyrirtækja sem hverfi á brott úr miðborginni séu veitinga- og skemmtistaðir. Hann heyri það á fólki að það vilji ekki sjá miðborgina þróast í þá átt sem hún sé að gera og sjálfur vill hann sjá miðborgina fyrst og fremst sem verslunarsvæði en ekki „ölsvæði“.
– Þórir Sigurbjörnsson í Vísi árið 2003.
„Ég gæti séð fyrir mér að efst og neðst við Laugaveg kæmu verslunarmiðstöðvar með góðum bílastæðum í kjallaranum, með svona tíu til fimmtán verslunum á hvorum stað. Þetta gæti orðið eins konar akkeri allrar verslunar við götuna. Nú er búið að rífa Sjörnubíó og malbika stæði. Ég hef heyrt um slík áform til dæmis þar, nú er bara að bíða og sjá hvað gerist og hvenær. Að þessu gæti borgin stuðlað með aðgerðum í skipulagsmálum. Af öðrum miðborgarmálum sem snúa að borgaryfirvöldum þá þarf að fjölga bílastæðum og lækka sektargreiðslur svo ég nefni nú eitthvað.“
– Svava Johansen í Sautján árið 2003.
„Sum húsin sem standa við Laugaveginn eru í því standi að þau fengju ekki að standa við aðalgötu nokkurrar borgar í veröldinni. Ég hef ekki séð annað eins nema ef vera skyldi hörmungina í Kabúl þegar ég kom þangað … Við eigum að vera með samfellda röð verslunarglugga niður allan Laugaveginn eins og þekkist erlendis. Loka þessum sundum og gera upp þau hús sem eru þess virði. En skúrarnir verða að fara. Það hljóta allir að sjá.“
– Bolli Kristinsson, kaupmaður í Sautján, árið 2005.
„En svo breyttist allt þegar Laugavegurinn var gerður að göngugötu og trjáræktarsvæði, þá gat maður bókstaflega lokað og það gerðum við og fluttum verslunina upp í Kringlu.“
– Þóra Sigurðardóttir í Olympiu, árið 2006.
„Ákvörðunin um að loka versluninni var sársaukafull en erfitt hefur verið að horfa upp á hnignum miðbæjarins og samdrátt í verslun á sama tíma og aðrar verslanir fyrirtækisins blómstra sem aldrei fyrr … Ekki er loku fyrir það skotið að Veiðimaðurinn verði opnaður á ný í gamla miðbænum þegar borgaryfirvöld framtíðarinnar hafa áttað sig á því að miðborgin verður aldrei lifandi án blómlegrar verslunar og skapa starfsumhverfi til að svo megi verða.“
– Ólafur Vigfússon í Veiðimanninum árið 2008.
Frank finnast húsin við Laugaveg 4-6 ekki þess virði að vernda þau, nóg sé af húsum, sem megi friða, annars staðar við Laugaveg og við aðrar götur í nágrenninu. Frank leggur mikla áherslu á að hann sé yfirleitt fylgjandi friðun gamalla húsa og því að leyfa sögulegum minjum að halda sér, líka við Laugaveg. „Þessi tvö hús eru bara kofaræksni og er ekkert við bjargandi. Hvar ætlum við að enda, hvar eru mörkin?“ spyr Frank. „Það var fín mynd í Mogganum á sunnudaginn, þar sem Laugavegurinn var moldartroðningur og fullt af gömlum húsum. Eigum við ekki bara að fara alla leið?“ spyr hann enn. „Þetta er ekki fagurt bros, og hér er ekki verið að taka tönn úr fallegu brosi. Þetta eru afskræmdar, skemmdar ljótar tennur,“ segir Frank Michelsen. „Við verðum að leyfa Laugaveginum að þróast og miðborginni að dafna.“
– Frank Ú. Michelsen úrsmiður árið 2008.
„Eins og nú er komið held ég að þau eigi bara að fara,“ segir Brynjólfur Björnsson, eigandi Brynju á Laugavegi 29. „Þau er ekki í neinu samræmi við næstu hús fyrir ofan. Borgin hefur haldið svo asnalega á þessu, það er náttúrlega með ólíkindum. Það eru fleiri hús hérna við Laugaveginn sem hafa staðið hálftóm og ónýt árum saman. Þau draga bara niður götumyndina.“ Brynjólfur segir að hans skoðun sé því sú að húsin eigi að fara svo hægt verði að hefjast handa við uppbygginguna.“
– Brynjólfur Björnsson í Versluninni Brynju aðspurður um húsin að Laugaveg 4-6 árið 2008.
„Stæðunum fer stöðugt fækkandi í miðborg Reykjavíkur. Borgaryfirvöld eru alltaf að gera aðgengið að búðunum erfiðari. Áður fyrr var t.d. mikil umferð fram hjá minni búð á morgnana. Nú er þetta algjörlega horfið,“ segir Frank, en hann telur að þetta megi m.a. rekja til erfiðs aðgangs bíla í miðbæ Reykjavíkur.
Frank segir borgaryfirvöld vera full af hroka, en hann telur að með þessum aðgerðum sé verið að vega að eldri borgurum og hreyfihömluðum. „Hvert á fólkið sem á erfitt með gang að fara? Á það bara að fara eitthvert annað?“ segir Frank, en hann telur að viðhorf borgaryfirvalda eigi einnig eftir að bitna á þeim sem búa í úthverfum og á landsbyggðinni.
– Frank Ú. Michelsen úrsmiður árið 2012.
„Erfiðasti þátturinn við rekstur Bíóborgarinnar var bílastæðaskorturinn. Þegar vinsælar myndir voru sýndar lögðu gestir uppi á gangstéttunum á Njálsgötu og Grettisgötu. Þegar gestirnir komu út var stundum búið að draga bíliana í burtu af lögreglunni og gefa himinháar sekt. Þeir viðskiptavinir komu ekki aftur … Farsæl og góð fyrirtæki verða ekki rekin í miðborginni nema með nægum bílastæðum og góðu aðgengi. Það má segja að vinsældir Bíóborgarinnar hafi orðið henni fjötur um fót. Smám saman fjaraði undan aðsókninni.“
– Árni Samúelsson í Sam-bíóunum árið 2012.
„… við erum búin að fara í gegnum skort á bílastæðum, lokun á bílastæðum, fækkun á bílastæðum, lokun á götunni í níu mánuði 2003. Ég held að við séum á vitlausum tíma eða eitthvað, það er búið að gera svo mikla atlögu að öllu umhverfi. Það er eiginlega kominn til að verslunin í miðborginni fái að þróast í friði. Hér er stemning allt árið. Yfir sumartímann þegar erillinn er á götunum, fullt af fólki úti á götunum, fullt af bílum á götunum. Þetta helst allt í hendur. Ég er alfarið á móti því að við lokum fyrir bílaumferð – alfarið. Vegna þess að þetta helst í hendur – bílar og mannfólkið gangandi. Það myndar eril – tengingu og ef þú sérð engan bíl eða ekkert þá verður svo mikil kyrrð að fólk verður bara hissa. Ef við fáum þennan eril þá á miðbærinn mikla og góða framtíð fyrir sér.“
– Edda Hauksdóttir í Stellu árið 2012.