Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg
Hinn 6. júní síðastliðinn stofnaði hópur kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveginn með sér samtök. Í stjórn voru kjörin Bolli Kristinsson, formaður, Brekkuhúsum ehf., Brynjólfur Björnsson, Versluninni Brynju, Gunnar Guðjónsson, Gleraugnamiðstöðinni, Hildur Símonardóttir, Vinnufatabúðinni, og Jón Sigurjónsson, Jóni & Óskari. Og í varastjórn Frank Ú. Michelsen, Michelsen úrsmiðum, og Hallgrímur Sveinsson, Gullkúnst Helgu.
Markmið og tilgangur hinna nýju Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda er að efla verslun við Laugaveginn í Reykjavík og vera málsvari eigenda rótgróinna verslana og eigenda verslunarhúsnæðis við götuna.
Nýstofnuð Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg setja stefnumál sín fram í tíu punktum:
- Öllum fyrirætlunum um lokun gatna í miðborginni verði hætt.
- Bílastæðum verði fjölgað og gjaldskylda felld niður í nágrenni Laugavegar. Þá verði farið varlega í allar hækkanir á bílastæðagjöldum næstu árin.
- Tekið verði í kjölfarið upp kerfi „free-parking” að fyrirmynd nágrannaþjóða.
- Gætt verði samráðs við kaupmenn og fasteignaeigendur við Laugaveg þegar teknar eru stórar ákvarðanir er varða götuna.
- Laugavegurinn er verslunargata samkvæmt skipulagi og skulu aðgerðir borgaryfirvalda er varða götuna taka mið af því hvernig verslun megi dafna sem best.
- Engar frekari tálmanir verði lagðar við uppbyggingu nútímaverslunarhúsnæðis við götuna og þar í grennd.
- Fasteignagjöld í miðborginni verði lækkuð til muna til að laða að fjölbreytta starfsemi.
- Hluta þess fjár sem verja á til eflingar strætisvagna verði varið til að bæta almenningssamgöngur í miðborginni. Til dæmis með litlum strætisvagni sem æki niður Laugaveginn.
- Löggæsla á og við Laugaveg verði stórefld.
- Ákvæði lögreglusamþykktar Reykjavíkur um sektir við sóðaskap verði virkjuð og sömuleiðis tekið á ölvun á almannafæri.
Þá hafa Samtökin skorað á Reykjavíkurborg að eiga gott samstarf við kaupmenn og fasteignaeigendur í öllum stærri málum er varða Laugaveginn og nágrenni og hafa óskir þar að lútandi þegar verið sendar og fyrirspurnir varðandi ýmis mál er snerta götuna.
Kaupmönnum og fasteignaeigendum við Laugaveg er ljóst að róttækra aðgerða er þörf til að sporna við viðskiptaflótta úr götunni. Laugavegurinn getur aftur orðið miðstöð verslunar í Reykjavík, en til að svo megi verða þarf að grípa til róttækra aðgerða líkt og tilgreind eru í punktunum hér að ofan. Mikilvægast er nú að ná eyrum borgaryfirvalda og hyggjast hin nýju Samtök beita margvíslegum leiðum til þess.
Án blómlegrar verslunar er engin miðborg.
Framkvæmdastjóri hinna nýju Samtaka er Björn Jón Bragason, en hann má nálgast í síma 897-7040 eða með tölvupósti: bjorn@101reykjavik.is. Heimilisfangið er að Laugavegi 34. Slóðin á vefsíðu Samtakanna er 101reykjavik.is.