Þessi mynd er tekin á fimmta áratugnum og sýnir neðsta hluta Laugavegar. (Smelltu til að skoða stærri mynd). Lengst til vinstri á myndinn má sjá stórhýsi Jóns Þorlákssonar, Bankastræti 11, þar sem byggingavöruverslunin J.Þorláksson & Norðmann var rekin um áratugaskeið. Húsið er einkar vandað að allri gerð og sómir sér vel í götumyndinni.
Næsta hús á myndinni er Laugavegur 1, elsta hús við götuna, reist 1848, en síðan þá hefur húsið verið fært til innar í lóðina og lítið er eftir af upphaflegu húsi. Næsta hús við, Laugavegur 3, er annað glæsilegt steinsteypuhús, en þar var klæðaverslun Andrésar Andréssonar og saumastofa um árabil, en síðar útibú Búnaðarbankans. Húsið þykir eitt hið fallegasta verslunarhús bæjarins, teiknað af Guðjóni Samúelssyni húsameistara.
Sitt hvoru megin við Laugaveg 1 eru því háir brunagaflar glæsilegra verslunarhúsa, en Laugavegur 1 nýtur sín ekki á þessum stað. Ef til vill myndi húsið sóma sér betur annars staðar í nágrenninu – gert upp í sinni frumgerð. Milli arkítektarverka Jóns Þorlákssonar og Guðjóns Samúelssonar mætti síðan gjarnan reisa myndarlegt verslunarhús í klassískum stíl sem félli vel að götumyndinni og yrði lyftistöng fyrir verslun og mannlíf á þessum stað og myndi um leið styrkja ásýnd götunnar.