Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, efndi til fundar laugardaginn 26. janúar um framtíð verslunar í miðbænum. Frummælendur á fundinum voru tveir, Björn Jón Bragason, frkvstj. Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg, og Kjartan Magnússon borgarfulltrúi.
Björn rakti í ræðu sinni þróun verslunar í miðbænum og við Laugaveg undanfarna öld og rakti ástæður hnignunar verslunar á þessu svæði, sem eru mýmargar. Í lok ræðu sinnar fjallaði hann um þær hugmyndir sem Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg hafa kynnt til eflingar verslunar og mannlífs í miðbænum.
Kjartan Magnússon fjallaði í sínu erindi um bílastæðaklukkuna sem komið hefur í stað gjaldmæla víðs vegar um Evrópu og sömuleiðis á Akureyri. Með bílastæðaklukkunni er unnt að tryggja gott flæði í bílastæðin án gjaldtöku, en eina yfirlýsta markmið gjaldtökunnar er stýring í bílastæði en ekki tekjuöflun. Þá er gjaldtaka fyrir bílastæðinn hemill á að fólk komi í bæinn.
Fundurinn var vel sóttur og spunnust líflegar umræður að honum loknum. Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg þakka Verði kærlega fyrir fundinn, en lýsa jafnframt mikilli óánægju með að aðeins einn borgarfulltrúi og einn varaborgarfulltrúi skyldu hafa látið sjá sig á fundinum. Áhugaleysi annarra borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á þessum mikilvæga málaflokki er til skammar.