Þórarinn Hauksson, lyfjafræðingur og íbúi við Einholt, ritar áhugaverða grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun, en greinin nefnist „Engar rannsóknir, bara hómópata-remedíur“. Þar fjallar um hann um skort á bílastæðum neðanjarðar við nýbyggingar á svokölluðum Einholts/Þverholts reit. Þar eiga að vera 235 íbúðir, en aðeins er gert ráð fyrir 177 bílastæðum í kjallara. Þessi grein kallast á við grein sem Jón Sigurjónsson, kaupmaður við Laugaveg, ritaði í Fréttblaðið fyrir skemmstu, þar sem hann lýsti þungum áhyggjum af bílastæðavanda sem myndi skapast á Regins-reitum við neðarverðan Laugaveg, en þar er gert fyrir afar fáum bílastæðum neðanjarðar.
Fyrir liggur tillaga að deiliskipulagi á reit milli Einholts og Þverholts, þar sem Búseti hyggst reisa allt að 235 íbúðir, en aðeins hefur verið samþykkt að veita heimild fyrir 177 bílastæðum í bílakjallara í heildina. Grípum niður í grein Þórarins:
„Á höfuðborgarsvæðinu búa 2,52 að meðaltali í hverri íbúð. Tillagan gerir ráð fyrir 24.000 m² byggingarmagni fyrir þessar 235 íbúðir, eða að hver íbúð verði 102 m² að meðaltali. Til samanburðar, þá eru íbúðir í Hlíðahverfi að meðaltali 95 m² og bjuggu 2,4 í hverri þeirra að meðaltali árið 2000. Samkvæmt Hagstofu Íslands voru svo 646.1 fólksbíll á hverja 1000 íbúa á landinu árið 2011 og munu þá líklegast 382 fólksbílar fylgja væntanlegum íbúum miðað við 2,52 íbúa í hverri íbúð. Það myndi hafa í för með sér að 205 bílastæði mun vanta fyrir íbúðirnar. Í skipulagsreglugerð segir samt sem áður orðrétt „2 bílastæði á lóð íbúðarhúss fyrir íbúðir stærri en 80 m². 1 bílastæði á lóð íbúðarhúss fyrir íbúðir 80 m² eða minni“; auk fleiri ákvæða um fleiri stæði eftir tegund húsnæðis. Ef við reiknum með að 100 af þessum 235 væntanlegu íbúðum verði undir 80 m² og hinar yfir, þá gerir reglugerð ráð fyrir a.m.k. 370 bílastæðum fyrir íbúðirnar, sem er þó undir væntanlegum fjölda fólksbíla. Ef bílakjallarinn ætti að nægja fyrir 592 íbúa, mættu þeir ekki vera með fleiri en 0,299 fólksbíl á hvern íbúa, sem er 53,7% lægra en meðaltal landsins. Það eru tölur sem sjást einungis í borgum allra fátækustu ríkja Evrópusambandsins og sáust seinast á Íslandi árið 1976, fyrir 36 árum.“
Greinin endar svo á þessum orðum:
„Við gerð þessa deiliskipulags er því algerlega rökrétt að Skipulagsog byggingarsvið Reykjavíkurborgar fari eftir skipulagsreglugerð 3.1.4. um fjölda bílastæða sem segir orðrétt: „2 bílastæði á lóð íbúðarhúss fyrir íbúðir stærri en 80 m². 1 bílastæði á lóð íbúðarhúss fyrir íbúðir 80 m² eða minni.“ Þar segir nefnilega einnig orðrétt: „Unnt er að víkja frá þessum lágmarksákvæðum í deiliskipulagi ef sýnt er fram á að bílastæðaþörf sé minni eða unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti“ en engar tölur eða rannsóknir benda til þess að bílastæðaþörfin í Reykjavík verði minni á þessum reit en segir í reglugerð og í raun fráleitt að halda öðru fram.“