Ég átti á dögunum viðtal við Pétur Sveinbjarnarson, sem stýrði Þróunarfélagi Reykjavíkur með miklum um myndarbrag í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Pétur er hafsjór af fróðleik um miðborgarmál, en ég spurði hann fyrst af öllu um upphaf Þróunarfélagsins:
Þróunarfélagið átti sér ákveðna sögu, fyrst og fremst hjá Reykjavíkurborg, þáverandi borgarstjóra, borgarráði og skipulagsyfirvöldum. Davíð Oddsson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson voru þeir sem kveiktu það bál. Þróun miðborgar Reykjavíkur er ekki einangrað fyrirbæri. Menn hafa séð þetta í mörgum löndum gerast, ekki hvað síst í Bretlandi og þar hefur þróast í gegnum þrjá áratugi það sem við getum kallað miðborgarmenning, miðborgarfræði og miðborgarstjórnir. Það sem miðborg Reykjavíkur hefur hvað lengst af liðið fyrir er að hún er eina miðborgin hér – það er bara ein miðborg á Íslandi. En aftur á móti eru í flestum öðrum löndum margar miðborgir og þess vegna eru mál sem snerta miðborgir miklu ofarlegar á baugi og miklu víðtækari umræða um þau. Það er samt athyglisvert í miðborg Reykjavíkur að það er ein stétt manna sem hefur talið sig hafa einkaleyfi á að fjalla um hana og það eru arkítektar. Erlendis eru þeir jú nauðsynlegir en aðeins einn hluti þeirra sem fjalla um miðborgarmál, en eru ekki taldir alvitrir.
Með stofnun Þróunarfélagsins vildu menn fá að einu borði alla hagsmunaaðila. Kaupmenn höfðu sýnt miðborginni áhuga og haldið uppi ákveðinni umræðu um hana og sáu fyrir sér nokkurn veginn þá þróun sem varð, en það gerðu ekki fleiri í raun og veru. Með stofnun Þróunarfélagsins var reynt að fá að einu borði helstu hagsmunaaðila; borgina, ríki – vegna þess að ríkið hefur miklum skyldum að gegna við miðborg Reykjavíkur – og síðan fulltrúa frá verslun og þjónustu, meðal annars fjármálafyrirtækjum, bankana, og segja má að þetta hafi tekist með stofnun Þróunarfélagsins. Og þá var í fyrsta skipti sett fram bæði varnar- og sóknaráætlun fyrir miðborgina. Umræðan varð mjög jákvæð og það náðist að samstilla þessa aðila umtalsvert sem komu að málum. Hins vegar er það alltaf svo að þegar nýtt fyrirbæri kemur til sögunnar að þá eru byggðir varnarmúrar til dæmis innan borgarkerfisins og meðal embættismanna. Mönnum fannst kannski að það væri verið að taka spón úr aski þeirra. Það er alltaf sú hætta þegar svona nokkur starfsemi kemur.
Viðfangsefni Þróunarfélagsins
Það má skipta verkefnum svona þróunarfélaga í tvennt. Annars vegar það sem við getum í daglegu talið kallað „minni mál“ – ýmiss konar umsjón og að halda hlutunum í góðu lagi og sinna litlu málunum. Dæmi um mál sem Þróunarfélaginu tókst ágætlega að sinna þann tíma sem það starfaði var að standa fyrir verulegu átaki í að lýsa upp opinberar byggingar. Annað lítið viðfangsefni sem tók mikinn tíma var að fá það í gegn að höggmyndirnar í miðborginni yrðu merktar með samræmdum hætti, en þær höfðu áður verið ómerktar. Þá var að hluta til sett upp starf húsvarðar fyrir miðborgina, það var einn aðili sem fór um miðborgina dags daglega og fylgdi því eftir að hún væri þrifin og lagaði það sem að miður fór. Það var mjög leitt að þetta starf skyldi lagt niður eins mikilvægt og það er. Annað mál sem Þróunarfélagið beitti sér fyrir í samvinnu við ríkið var að þegar Útvegsbankahúsið losnaði að því var breytt í dómhús. Þróunarfélagið fékk því framgengt að lóð undir væntanlegt tónlistarhús – sem ætlaður hafði verið staður inni í Álftamýri – yrði flutt á þann stað sem núverandi hús var byggt á. Og ég tel að hafi verið mjög farsælt.
Þannig mætti nefna ýmis mál, en það sem á skorti hvað uppbyggingu Þróunarfélagsins varðar er að það hafði engin fjárráð. Í raun hefði skipulagssjóður Reykjavíkurborgar átt að falla undir Þróunarfélagið og því þannig gert kleift að kaupa lóðir, skipuleggja lóðir, koma hugsanlega af stað framkvæmdum, þá í samvinnu við áhugasama aðila og koma sér síðan út úr slíkri starfsemi og hefja ný viðfangsefni. Þetta var meginveikleikinn í tilvist Þróunarfélagsins að það skyldi ekki hafa umsjón með skipulagssjóði borgarinnar og í raun hefði bílastæðasjóður einnig átt að falla undir Þróunarfélagið. Þannig hefði félagið haft öflug tæki til þess að koma hlutunum í gang – láta hjólin snúast. Hvað síðar varð get ég ekki dæmt um.
Miðborgin er eitt hús
En þegar við erum að hugsa um miðborgina verðum við jafnan að hugsa til þess að það sé ákveðið jafnvægi á milli þess sem við getum kallað menningar, búsetu, verslunar og þjónustu. Það er gríðarlega mikilvægt líka að gefa því forgang þegar verið er að byggja upp miðborg að huga að því sem getur dregið að sem flest fólk og fengið það til að dvelja sem lengst. Þessu gleymir fólk oft og tíðum í umræðum um miðborgina. Það skortir mjög á það í umræðunni að líta verður á miðborg Reykjavíkur eins og við lítum á eitt hús – án þaks að vísu. Það verður að stjórna henni og sjá um hana, þrífa hana og sinna henni eins og við séum að sinna einu húsi. Þannig eigum við að líta á miðborgina sem eitt hús frá Hlemmi að Austurstræti – sem eina heild.
Mér finnst grátlegt að við höfum misst af vissum sóknarfærum með miðborgina. Ég nefni þar sem dæmi Hafnarhúsið. Mér finnst að gerð hafi verið hrapaleg mistök þegar Listasafni Reykjavíkur var komið fyrir þar. Þar hafði miðborgin mikil sóknarfæri með alls konar hönnun og verslanir og það hefði orðið miklu myndarlegra listasafn ef byggt hefði verið við Kjarvalstaði fyrir þá miklu fjármuni sem fóru í breytingar á Hafnarhúsinu. Í staðinn fyrir að vera með tvö veikburða listasöfn, dýr í rekstri, að byggja upp eitt stórt á Kjarvalstöðum, úti sem inni. Og nota aftur á móti Hafnarhúsið fyrir atvinnustarfsemi sem dregur miklu meira að sér, en safn gerir – með fyllstu virðingu fyrir safninu. En þarna var eitt sóknartækifærið. Það jákvæðasta sem mér finnst hafa gerst eru breytingarnar á gömlu verbúðunum við Geirsgötu og það sem hefur verið að gerast í kringum höfnina almennt og sýnir að það eru sóknartækifæri fyrir miðborgina.
Síðan er annað sem háir alltaf miðborg Reykjavíkur, að í stjórnmálunum er togað í spottana í sitthvora áttina þegar miðborgin er annars vegar. Og oft koma stjórnmálamenn sem vilja kannski gera mikið en stoppa stutt við. En miðborgin verður að fá að vera fyrir utan og ofan slíkt og fá að þróast samkvæmt ákveðinni áætlun sem fólk er ásátt við með skýrum markmiðum, en stjórnmálamenn láti skammtímasjónarmið vera. Mér þykir leiðinlegast í umræðunni um miðborgina í dag að maður sér ekki að það sé nógu mikil sátt um miðborgina milli allra þeirra aðila sem eiga um hana að fjalla og það sé verið að taka alls konar ákvarðanir sem bara birtast þeim sem þar búa, lifa og starfa eins og einhverjar skyndiákvarðanir. Hvort sem það eru gjaldskrárbreytingar eða einhverjar aðrar reglur, en allt slíkt er mjög hættulegt öllu miðborgarstarfi og þarf að komast hjá.
Mér hefur oft dottið í hug þegar ég sé stöðumælaverðina að störfum af hverju við gætum ekki gert þar verulega breytingu með tilkomu aukins túrisma í miðborginni og breytt störfum þeirra, þannig að þeir yrðu miðborgarþjónar. – Hresst við búninginn að sumrinu til og látið þá vísa til vegar og látið þá vera miðborgarþjóna, en ekki bara í því að skrifa út sektarmiða. Það mætti þannig kannski koma með aðrar áherslur inn í þau störf og ráða ungt og fallegt skólafólk að sumrinu og þetta gæti verið til leiðsagnar fyrir ferðamenn – því það hefur þó miðborgin enn að hún er sá hluti af Íslandi þar sem flestir túristar koma og eru – og eru vel að merkja. Hún er þannig útvörður landsins gagnvart öllum túristum. Mér finnst að þar séu sóknarfæri ennþá sem miðborgin nýtir sér ekki enn. Það að breyta stöðumælavörðum í miðborgarþjóna og efla þann hluta gagnvart túrisma er eitthvað sem ætti að hugleiða. Það er ekki alltaf þannig að hlutirnir þurfi að kosta mikla peninga.
Sátt þarf að nást
Það sem miðborgin þarfnast mest í dag er að menn færi sig aftur á byrjunarreit og byrji aftur að reyna að ná sátt um miðborgina og kalla að því borði aftur alla þá aðila sem hafa ríkra hagsmuna að gæta og ná sátt milli þessara aðila um stefnumótun fyrir miðborgina um lengri tíma sem fái síðan að verða að veruleika. Samhliða því þarf að koma málum svo fyrir að sátt verði um áætlum, bæði er varðar uppbyggingu og þjónustu. Það er annars vegar uppbyggingaráætlun og hins vegar þjónustuáætlun. Og í uppbyggingu verður að gera það kleift að til sé fjármagn. Ef menn ætla að hafa verslun áfram í miðborginni þá verður ekki hjá því komist að byggja upp að minnsta kosti tvo sterka verslunarkjarna milli Laugavegar og Hverfisgötu og það gerist ekki nema ráðist verði í allverulegar breytingar á skipulagi og það er hægt að gera án þess að framkvæmdirnar verði á einhvern hátt ofvaxnar miðborginni eða verði einhver óskapnaður, heldur geta nýbyggingar fallið vel að núverandi skipulagi. Leggja þarf talsvert margar lóðir undir og alveg nýja hugsun. En ég held að verslun verði ekki til lengri tíma í framtíðinni bjargað nema til komi að minnsta kosti tveir ef ekki þrír verulega myndarlegir verslunarkjarnar milli Hverfisgötu og Laugavegar og þá með aðgengi báðum megin.
Hefja þarf stórsókn í bílastæðamálum
Það er heldur ekki undan því vikist að halda áfram uppbyggingu bílastæðahúsa, en á því sviði hefur ríkt algjör stöðnun. Menn verða að horfa djörfum augum til framtíðar í því tilliti. Ég held að ódýrasta lausnin sé að grafa inn Arnarhól og þar geti orðið höfuðbílastæðahús fyrir Kvosina, en hóllinn getur lítið nákvæmlega út eins og hann lítur út í dag eða hvernig sem menn vilja að hann líti út þrátt fyrir að það verði tvær til þrjár hæðir inni í hólnum. Hann er ekkert helgur reitur í þeim skilningi að það megi ekki grafa hann upp að innan – ekkert frekar en Hyde Park er í Lundúnum, þar sem eru bílastæði undir jörðinni. Austurvöllur var nú nefndur um tíma, sem er allt í lagi en það er bara mjög lítill reitur og það er svo dýr framkvæmd. Ég held að það verði ekki komist hjá því að menn horfi raunverulega á lausnina, sem sé stórt bílageymsluhús inni í Arnarhóli sem mun reynast nauðsynlegt þegar byggt verður hótel með ráðstefnusölum við Hörpuna og síðan á Landsbankareitnum, þar sem núverandi bílastæði eru – og þau myndu hverfa. En bílastæðamálunum verður að sinna áfram eins og hverri annarri uppbyggingu og þá skiptir máli að bílastæðahúsin séu gerð þannig að þau falli að byggðinni. Bílastæðahús undir Arnarhóli gæti gagnast öllu þar í kring, versluninni, stjórnarráðinu, Þjóðleikhúsinu, Hæstarétti og svo framvegis.
Þegar rætt er um hvað sé þýðingarmikið fyrir miðborgina þá langar mig að taka dæmi af Bæjarins bestu sem að starfa á fjórum fermetrum við Tryggvagötu. Bæjarins bestu eru þýðingarmeiri fyrir miðborgina heldur en Listasafn Reykjavíkur í Tryggvagötu með öllum þeim kostnaði sem því safni fylgir. Þannig að þetta er ekki alltaf spurning um peninga.
Skemmtiferðaskipin
Við vikum nú talinu að skemmtiferðaskipunum, en uppi hafa verið hugmyndir um skemmtiferðaskipalægi við Hörpuna. Pétur segir að hugmyndin hafi verið á sínum tíma að öll minni skemmtiferðaskip kæmu inn á gömlu höfnina til að ferðamennirnir gætu gengið inn í miðborgina og notið hennar vegna þess að skipin hafa svo stutta viðkomu. Grípum aftur niður í samtalið við Pétur:
Sumir vilja heldur ekki fara frá borði. Það er mikill munur á því hvort þú labbar í tvo þrjár tíma frá skemmtiferðaskipinu sem liggur inn við Klepp eða inni í Sundahöfn – innan um vörugeymslur þar – eða getir varið tímanum í að rölta um Tjörnina, Höfnina, verslað, fengið þér kaffi og svo framvegis. Þá má ekki heldur gleyma því að áhafnir skipanna eru stundum álíka fjölmennar og farþegarnir og þær eiga líka sín leyfi og fara sjaldnast í þessa ferðir sem boðið er upp á. Ef skemmtiferðaskipin kæmu að bryggju í miðborginnni gæti þetta fólk líka komist í land. Það myndi stórauka verslun og þjónustu við miðborgina.
Flæðið um borgina
Þá verður að hugsa um flæðið um borgina. Það þarf að fá sem flesta til að koma í miðborgina og vera sem lengst og síðan þarf að örva flæðið um miðborgina þannig að fólk komist þar auðveldlega um. Miðborgarstrætó var mjög góð hugmynd sem var framkvæmd. Það var strætó sem kostaði ekkert í og gekk stöðugt frá Hlemmi niður Laugaveginn og upp Hverfisgötuna og fólk gat hoppað úr og í. Þannig mátti líka skapa flæði milli bílastæðahúsanna. Þú gast þannig notað bílastæðahúsið á Vitatorgi þótt þú ynnir niðri í Austurstræti. En svo var miðborgarstrætó bara lagður af einn morguninn. Þá var sparnaður hjá SVR og þessi leið skorin niður og ekkert um það meira hugsað. Þarna voru pólitíkusarnir að toga í sitthvorn spottann. En miklu máli skiptir að skapa þetta flæði um miðborgina þannig að fólk komist auðveldlega um.
Farsæl verkefni Þróunarfélagsins
Reykjavík tók á þeim árum sem Þróunarfélagið starfaði þátt í fundum svokallaðra vetrarborga, en það voru borgir á kuldasvæðum. Umræðan í þessum hópum snerist oft um það hvernig hægt væri að byggja yfir götur, torg og annað til að skapa skjól fyrir fólk. Á sínum tíma var sett fram mjög góð áætlun um að hita upp allar götur í Kvosinni og það hafði gríðarlega mikið að segja. Annað verkefni sem gekk mjög farsællega en tók langan tíma var að byggja upp kerfi öryggismyndavéla fyrir alla miðborgina. Þá þurfti að ná samstöðu lögreglu, Símans, sem þá var opinber stofnun, og tryggingafélaganna, sem lögðu talsverða fjármuni í verkefnið og þetta varð prýðilega gott kerfi þegar það komst loks á, en síðan var því ekki viðhaldið í heilan áratug eða lengur. Svona kerfi þarfnast reglulegs viðhalds og það mátti líka finna aðrar leiðir til að vakta kerfið án þess að lögreglan gerði það, en þess eru dæmi erlendis að öryrkar fái vinnu við að vakta slík kerfi en lögregla tekur yfir jafnskjótt og eitthvað gerist sem þarf að fjalla um. Auðvitað varð að halda áfram þessarri uppbyggingu, enda dýrt að byrja aftur þegar allt er hrunið.
Gæta þarf hófs í húsafriðun
Ég spurði Pétur um húsafriðunarmálin:
Ég hef alla tíða verið húsafriðunarmaður en þar verða menn að ganga fram af hófsemi og skynsemi. Húsafriðun er miðborg mikilvæg en líka er hægt að gera stór mistök í þeim efnum. Það verður fyrst og fremst að hugsa um hús sem hafa menningarsögulegt gildi fyrir miðborgina – og þau eru til. En svo er kannski verið að friða hús sem hafa ekkert gildi – bara einhverjum mönnum dettur í hug að það sé skemmtilegt að friða þau. Svo er stórhættulegt að friða hús þegar verið er að rjúfa stór skörð í götumynd. Mér finnst uppbyggingin á Nýja Bíó reitnum hafa tekist vel. Aftur á móti finnst mér hótelið á horni Túngötu og Aðalstrætis líflítið. Ég sá alltaf fyrir mér landnámsreit á þeim stað. Hér áður fyrr var alltaf talað um þetta horn sem upphaf byggðar í Reykjavík og ég sá alltaf fyrir mér að þarna yrði sögureitur, frekar en sú risastóra hótelbygging sem þarna var reist og enn eru eftir tækifæri í Grjótaþorpinu til að gera það enn glæsilegra.
Leiðinlegast þykir mér að sjá hvernig staðan er á Hverfisgötu og hvernig henni hefur hrörnað gríðarlega. Nú er aðalumræðan um miðborgina eiginlega um einn skemmtistað – gamla Sjálfstæðishúsið. Þar eru allir kappsfullir að fjalla um einn smáreit. Þetta er mjög hættulegt því horfa verður á miðborgina heildstætt. Allar góðar miðborgir taka breytingum en aðalmálið er að skapa skilyrði fyrir sem fjölbreyttastan atvinnurekstur – ekki einsleitan. Ekki verður komist hjá því að stýra þeirri þróun. Við náum ekki árangri með miðborg Reykjavíkur fyrr en við förum að líta á hana sem eitt hús og skipulegga þarf innviði þess. Eins verðum við að halda húsinu við og hreinsa það og þjóna svæðinu eins og það sé heilt hús. Það verður ekkert komist hjá því.
Á sínum tíma hófst umræða um offjölgun veitingastaða og þá var rætt um að reitaskipta því upp, þannig að ekki yrðu ofmargir veitingastaðir á hverjum reit, en síðan hefur það dottið upp fyrir. Borgaryfirvöld geta með öflugu þróunarfélagi haft áhrif á það hvaða uppbygging á sér stað í miðborginni og þá erum við að tala um þróunarfélag sem hefur burði til að kaupa upp lóðir og láta skipuleggja þá starfsemi sem borgaryfirvöld og hagsmunaaðilar á viðkomandi svæði telja heppilega. Síðan eru fengnir samstarfsaðilar og borgaryfirvöld koma sér út úr verkefninu og færa sig yfir á næsta stað.
Bílastæðamál og göngugötur
Pétur velti líka upp bílastæðamálunum og bílaklukkunum, þannig að frítt yrði að leggja í tiltekinn tíma en aftur á móti sektir þegar farið er framyfir þann tíma:
Sektirnar eru þá þær tekjur sem koma inn til að viðhalda stæðunum og byggja upp. Hægt væri að hugsa sér að stöðumælar yrðu við Laugaveg og gjaldskylda þar en gjaldfrjáls stæði við Hverfisgötu og Grettisgötu og þar þyrfti að nota klukku. Ég var í Svíþjóð á dögunum og þar voru klukkur á stóru bílastæði í útjaðri en svo aftur gjaldmælar við aðalgötuna.
Ég spurði Pétur um göngugötur og þær nauðsynlegu hliðaraðgerðir sem ráðast þyrfti í samfara slíku, en aldrei væri hugað að:
Göngugata getur virkað milli klukkan eitt og fjögur og svo er hún kannski hræðileg eftir klukkan fjögur. Menn verða að líta heildstætt á þessa hluti.
Við ræddum líka um Kvosina og Geirsgötu, sem sker það svæði í sundur:
Kvosarsvæðið er svo lítið frá Tjörninni að Höfninni að það má ekki kljúfa það með bílaumferð. Það þarf að vera ein heild og þú þarft að geta gengið óhindrað frá Ingólfsgarði að Tjarnarbakkanum en núna sker Geirsgötuumferðin þetta svæði í sundur. Það er hægt að skera borgir niður bara eins og skorið er niður brauð, sbr. Hringbrautina. Þetta á að vera eitt flatt öruggt svæði. Á litlum kafla þarf því að koma Geirsgötuumferðinni annað hvort upp eða niður eins og var hugsað. Raunar tel ég að ekki hafi verið um þetta ágreiningur, en þetta hefur bara ekki ekki verið forgangsmál hjá borgaryfirvöldum.
Samstarf mikilvægt
Stjórnmálamenn eru kjörnir til fjögurra ára og þeir hugsa oft ekki mikið lengur en það. Brýnast núna er að ná aftur saman þeim aðilum sem hagsmuna hafa að gæta, það er úr versluninni, þjónustunni og opinbera geiranum og ná aftur einhverri sátt um miðborgina. Þannig að menn vakni ekki einhvern morguninn við 100% hækkun á bílastæðagjöldum eða fái miða sendan til sín í hús um að eitthvað verði bannað sem taki gildi á morgun og svo framvegis. – Með öðrum orðum að menn fari að tala saman að nýju um miðborgina, sem leiði síðan til þess að menn búi aftur til heildstæða stefnu um miðborgina, annars vegar þjónustustefnu og hins vegar framkvæmdastefnu. Þessi stefna verði tímasett og útveguð verði verkfæri, þ.e. fjármagn til þess að koma framkvæmdum af stað. Og ég held að það sé forgangsverkefni að byggja upp verslunar- og þjónustukjarna milli Laugavegar og Hverfisgötu á tveimur stöðum, ef menn ætla að reyna að stöðva þá þróun sem er að eiga sér stað.
Við gleymum því að það er eins með verslanir, veitingastaði og allt annað að húsnæði þróast og þar sem var hægt að hafa verslun, lager og allt fyrir 40 árum og jafnvel fjögur þrep upp – það gengur ekki í dag. Þannig mætti lengi telja og mikið af því húsnæði sem er til staðar í dag hentar ekki versluninni og þjónustunni í dag og stenst heldur ekki þær kröfur sem gerðar eru. Þess vegna segi ég að ef veita á viðnám þá þarf að byggja upp tvo til þrjá kjarna af þessu tagi og það má vel gera án þess að það tröllríði jafnvægi í núverandi byggð. Þetta myndi hjálpa Hverfisgötunni svo mikið, sem er í hræðilegu ástandi í dag. Það er líka mjög dýrt að missa niður. Þegar Hverfisgatan er komið í það ástand sem hún er í í dag, þá hríðfellur fasteignaverðið. Það verður enn dýrara að ráðast í þessar framkvæmdir eftir því sem tíminn líður.
Borgin verður sjálf að ráðast í þetta samstarf, ef vilji er ekki til þess á æðstu stöðum þá verður það ekki. Borgarstjórinn þarf sjálfur að leiða þetta samstarf.
Ég þakka Pétri kærlega fyrir fróðlegt spjall um miðborgina.