Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður Reykvíkinga og fyrrverandi borgarfulltrúi, var gestur stjórnar Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg, að morgni fimmtudagsins 30. ágúst 2012. Hann hefur lengi sýnt hagsmunamálum verslunarinnar í miðborginni mikinn áhuga og velvilja, en umræður stjórnarmanna og Guðlaugs Þórs snerust að mestu leyti um það hvernig bæta mætti samgöngur í nágrenni miðborgarinnar og hvernig nýbygging Landspítalans gæti orðið lyftistöng fyrir miðborgina.
Guðlaugur er mjög gagnrýninn á borgaryfirvöld, sem horfi um of til Evrópu í leit að fyrirmyndum. Borgir í líkingu við Reykjavík væri mikið frekar að finna á meginlandi Norður-Ameríku. Og hvað uppbyggingu almenningssamgöngukerfis áhrærði nefndi hann sérstaklega Boulder, sem er rétt fyrir utan Denver í Colorado, litlu minni borg en Reykjavík, þar sem byggt hefur verið upp myndarlegt kerfi almenningssamgangna. Ef menn ætluðu að vera að draga úr bílaumferð yrðu þeir að bjóða upp á annan valkost og sá valkostur væri ekki til staðar.
Guðlaugur lýsti þungum áhyggjum af því að borgaryfirvöld hefðu samþykkt að engar framkvæmdir yrðu í vegamálum á höfuðborgarsvæðinu næstu tíu árin – en ráðast þyrfti í verulegar umbætur á samgöngukerfinu – sér í lagi til að fækka slysum – langflest slys verða á höfuðborgarsvæðinu. En umferðaröryggismálin eru Guðlaugi mjög hugleikin.
Stjórn Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveginn þakkar Guðlaugi kærlega fyrir fundinn.