Þrír stjórnarmenn í Samtökum kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg áttu fund í hádeginu föstudaginn 17. ágúst, með fulltrúum fasteignafélagsins Regins hf. Fulltrúar Samtakanna á fundinum voru Bolli Kristinsson formaður, stjórnarmennirnir Gunnar Guðjónsson og Jón Sigurjónsson, auk Björn Jóns Bragasonar, framkvæmdastjóra Samtakanna. Fyrir hönd Regins sátu fundinn Helgi S. Gunnarsson forstjóri og Hannes Frímann Sigurðsson, sem hefur umsjón með Laugavegsreitum ehf.
Þeir Helgi og Hannes Frímann kynntu á fundinum hugmyndir Reginsmanna að uppbyggingu við Laugaveg, en þeir hafa mikla trú á framtíð svæðisins og vonast eftir því að framkvæmdir þeirra á reitum geti hafist nú strax í janúar.
Um er að ræða þrjá reiti. Í fyrsta lagi svokallaðan Hljómalindarreit, sem afmarkast af Laugavegi, Hverfisögötu, Smiðjustíg og Klapparstíg. Í annan stað svokallaðan Brynjureit, sem er milli Klappastígs og Vatnsstígs – neðan verslunarinnar Brynju og alveg niður að Hverfisgötu, auk húsanna á horni Laugavegar og Klapparstígs. Og í þriðja lagi lóðirnar að Laugavegi 33–39 og alla leið niður að Hverfisgötu.
Áform þeirra Reginsmanna eru mjög metnaðarfull og gefur augaleið að uppbygging verslunar- og skrifstofurýmis, auk hótels og íbúða á umræddu svæði mun verða mikil lyftistöng fyrir verslun og mannlíf við Laugaveginn.