Marta Guðjónsdóttir varaborgarfulltrúi og Kjartan Magnússon borgarfulltrúi voru gestir á fundi stjórnar Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveginn að morgni þriðjudagsins 14. ágúst sl., en þau hafa sýnt málefnum Laugavegarins mikinn skilning og fögnuðu þau bæði mjög stofnun Samtakanna – en brýnt væri að þeirra mati að kaupmenn og fasteignaeigendur við Laugaveginn hefðu skýran málsvara, jafnt gagnvart borgaryfirvöldum sem og út á við.
Stjórnarmenn fóru yfir málin með þeim vítt og breytt. Til að mynda var rætt um umferðarskipulag Sæbrautar, en hægt yrði að stilla ljósin á Sæbraut þannig að möguleiki væri á að fara á grænu ljósi alveg frá Kleppsvegi og vestur að Hörpu. Með þessum hætti mætti hækka hámarkshraða upp í 70–80 km en slíkt myndi greiða mjög fyrir umferð. Að sama skapi viðruðu stjórnarmenn hugmyndir um hundruð nýrra bílastæða milli Sæbrautar og Skúlagötu sem gagnast gætu versluninni – sér í lagi starfsmönnum verslana við Laugaveginn.
Kjartan og Marta tóku mjög vel í hugmyndir um „free-parking“ fyrirkomulag og rifjaði Kjartan upp að sjálfstæðismenn hefðu á sínum tíma haft á stefnuskrá sinni að innleiða framrúðuskífur í miðborginni og hefði hann séð slík kerfi gagnast vel í ýmsum borgum Norður-Evrópu.
Í máli Kjartans kom fram að borgarfulltrúar meirihlutans, sem og embættismenn í borgarkerfinu, væru of gjarnir á að bera Reykjavík saman við milljónaborgir – þar sem allt önnur lögmál í umferðarskipulagi ættu við. Stjórnarmenn tóku undir þessi sjónarmið og bentu á að heimasmíða þyrfti skipulag þessara mála að miklu leyti hér, enda Reykjavík gerólík flestum borgum á meginlandi Evrópu.
Kjartan fjallaði líka talsvert um skemmtiferðaskipin, en nú stendur til að gera skemmtiferðaskipalægi í Sundahöfn. Hann rifjaði upp för sína á ferðakaupstefnu í Flórída fyrir nokkrum árum þar sem fulltrúar stærstu og framsæknustu fyrirtækja í útgerð skemmtiferðaskipa voru saman komnir. Þeir hefðu haft á orði að aðkoman að Reykjavík væri hörmuleg og borgin yrði af miklum viðskiptum skemmtiferðaskipa, þar sem mörg fyrirtæki kærðu sig ekki um að leggja skipum sínum að bryggju í vöruhöfnum.
Kjartan og fleiri hafa aftur á móti bent á nýja lausn, sem fælist í því að reistur yrði viðlegukanntur við Sæbrautina, næst Hörpu. Með þessu móti gætu gestir skemmtiferðaskipanna gengið í bæinn og verslað við Laugaveginn. Þannig gæti höfuðborgin margfaldað tekjur sínar af farþegum skemmtiferðaskipa, en nú er flestum þeim farþegum sem stíga á land ekið í hópferðabílum út úr borginni.
Stjórn Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg þakkar þeim Kjartani og Mörtu kærlega fyrir komuna.