Frank Ú. Michelsen úrsmiður var í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins 4. ágúst 2012, en viðtalið er hér að neðan:
Í vikunni sendu Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg frá sér ályktun þar sem þau gagnrýna harðlega og mótmæla ákvörðun bílastæðasjóðs að hækka stöðumælagjöld um allt að 50 prósent á þremur gjaldsvæðum af fjórum og lengja gjaldskyldu á laugardögum. Þá eru margir kaupmenn óánægðir með lokun Laugavegarins sem þeir segja að dragi úr viðskiptum og mismuni fólki eftir aðstæðum þess. „Laugavegurinn á að vera fyrir alla landsmenn, ekki bara þá sem kjósa að ganga eða vera á hjóli. Það má ekki gleyma því að fjöldi fólks er ekki fær um að ganga lengri eða skemmri vegalengdir, hvort sem það er vegna fötlunar, aldurs eða af öðrum ástæðum. Borgaryfirvöld eiga ekki að mismuna þessu fólki og útiloka það frá helstu verslunargötu Reykjavíkur,“ segir Frank Michelsen, verslunareigandi við Laugaveg.
Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda voru stofnuð fyrr í sumar, m.a. vegna lítils samráðs borgaryfirvalda við kaupmenn á Laugaveginum. „Við erum ekki í stríði við borgina og það hefur verið fullur vilji af okkar hálfu að vinna með borginni að því að bæta Laugaveginn. Samstarf er hins vegar gagnkvæmt þar sem báðir aðilar hlusta á og taka tillit til sjónarmiða hvor annars. Í dag er einstefnan algjör af hálfu borgarinnar.“ Frank segist ekki mótfallinn því að Laugaveginum sé lokað að hluta yfir sumartímann ef það er gert í samstarfi við verslunareigendur á svæðinu. „Til að mæta sjónarmiðum borgarinnar hef ég bent á að það megi hafa götuna opna á morgnana þannig að viðskiptavinir okkar geti sótt í þjónustu og verslun á bílnum en síðan mætti loka götunni eftir hádegi og fram á kvöld. Þannig væri komið til móts við alla.“