Árið 1913 stofnaði danskur klæðskeri fyrirtækið L. Andersen, sem veitti alla þá þjónustu viðvíkjandi karlmannafötum, sem þá tíðkaðist í Reykjavík. Árið 1918 gerðist Skotinn O. J. Lauth félagi Andersens í fyrirtækinu, og hlaut það þá nafnið Andersen & Lauth.
Fyrirtækið var gert að hlutafélagi árið 1935. Föt hf. var stofnað árið 1942, en Föt hf keypti hlutafélagið Andersen & Lauth árið 1944. Stjórnarformaður Fata hf. frá upphafi og Andersen & Lauth frá árinu 1944 var Helgi Eyjólfsson.
Andersen & Lauth var ein þekktasta herrafataverslun landsins hér á árum áður. Um 1970 rak fyrirtækið tvær herrafataverslanir. Aðra á Vesturgötu 17, en hina á Laugavegi 39. Fatnaður í verslunum Andersen & Lauth var aðallega framleiddur í verksmiðju Fata hf., en þar voru saumuð jakkaföt, stakir jakkar og stakar buxur. Fötin voru einkum framleidd undir vörumerkinu Aristo og Athos. Þá fengust í verslunum Andersen & Lauth skyrtur undir merkinu Angli. Búðirnar höfðu aukinheldur á boðstólum Scott hatta og Peter Scott ullarpeysur. Verslanirnar höfðu sömuleiðis söluumboð fyrir frakka frá verksmiðjunni Elg.
Föt hf. framleiddi föt fyrir karlmenn á öllum aldri. Þá saumaði fyrirtækið smóking-föt nýstúdenta við Menntaskólann í Reykjavík um árabil. Árið 1969 unnu á fimmta tug starfsmanna í verksmiðju Fata hf., þar af þrír klæðskerar. Á sama tíma voru starfsmenn í verslunum Andersen & Lauth sjö talsins. Efni þau, sem fyrirtækið notaði voru að langmestu leyti frá Englandi, en einnig var nokkuð flutt inn frá Þýskalandi, Hollandi og Svíþjóð.
Um 1970 tók fyrirtækið í notkun nýja tækni við framleiðslu á fötum, en hún byggðist á því, að í stað þess að þræða millifóður í fötin var flutt inn ný tegund millifóðurs sem límd var við ytra byrði fatanna, en þessi aðferð gerði það að verkum, að fötin héldu mun betur lögun. Föt voru um það leyti nær eingöngu framleidd í lagersaum, en einnig var saumað eftir máli ef það þurfti.
Um svipað leyti var innflutningstakmörkunum á fatnaði aflétt og samkeppni harðnaði. Verslunin hætti starfsemi um 1980.