Þórleif Sigurðardóttir (kölluð Þóra) fæddist árið 1916 við Ránargötu í Reykjavík, en ólst upp við Laugaveginn. Faðir hennar hét Sigurður Oddsson og var lengi hafnsögumaður á dönsku varðskipunum, en móðir hennar hét Herdís Jónsdóttir. En hvernig ætli hafi verið að alast upp á Laugaveginum á öðrum og þriðja áratug síðustu aldar? Við skilum grípa niður í viðtal við Þóru frá árinu 2006:
„Maður gat þurft að vera í stígvélum allt sumarið, ef rigndi var allt í pollum, ef það var þurrt þá var rykmökkur og flugur. Það var svo mikið af hestvögnum á Laugaveginum þá. Það var kaupmaður á móti okkur, Jón Bjarnason á Laugavegi 33, hann hafði sveitaverslun – og líka Guðjón Jónsson á Hverfisgötu 50. Það var allt fullt af hrossum og vögnum í kringum okkur, stundum svo mikið að beðið var um að lána portið undir hrossin. Það var nú meiri uppákoman, hrossaskítur og flugur út um allar trissur.“
Og hún heldur áfram:
„Ég gæti hafa verið sjö ára þegar Laugavegurinn var malbikaður. Ég man að ég var veik og fékk að sitja við gluggann og sjá vélarnar. Ég sá þá Stóru-Bríeti, ég hélt að allar slíkar vélar hétu Bríetar. Vélin var uppnefnd eftir Bríeti Bjarnhéðinsdóttur.“
Þóra lærði að sníða til föt í Köbenhavns tilskerer akademi í miðri kreppunni, en það var skóli ætlaður þeim sem þurftu að læra að sníða en höfðu áður lært að sauma. Hún taldi sig þó þurfa að læra eitthvað meira, þar sem höftin voru svo mikil heima á Íslandi. Hún hugsaði mér sér að gagnlegt væri að læra að búa til kjólapunt, því kona sem átti einn svartan kjól í þá daga gat lagað hann til með því að setja á hann hvítan kraga, en kragar og slaufur við kjóla voru mikið í tísku á þeim árum. Hún lærði því að sauma kraga, alls kyns fínvöru, blóm, sokkableti, brjóstahaldara og ýmsa smávöru.
Komin heim keypti hún nokkrar vélar og stofnaði nærfataverksmiðjuna Lady, árð 1937. Sama ár giftist hún Hirti Jónssyni, sem þá starfaði hjá Eimskipafélaginu. Hjörtur var fæddur að Saurbæ í Vatnsdal árið 1910, sonur Jóns Hjartarsonar bónda þar og konu hans Guðrúnar Friðriksdóttur. Hann útskrifaðist frá Verslunarskóla Íslands árið 1929 og gerðist bókari að námi loknu hjá Eimskipafélagi Íslands.
Hjört dreymdi um að koma á fót sportvöruverslun, en hann hafði snemma fengið umboð fyrir gott firma í haglaskotum. Eftir Ólympíuleikana í Berlín 1936 var hann búinn að skíra þessa verslun Olympiu. Verslunin varð að veruleika árið 1938 og úti í glugga var stillt byssum, magabeltum og brjóstahöldum.
Þegar stríðið braust út fengust engin skot. Þá hjónin hófust þau handa við að selja konfekt og karamellur, vindlinga og margt fleira með lífstykkjavörunum. Allar konur sem voru í peysufötum gengu í lífstykkjum í þá daga. Þóra hóf að sauma belti sem varð mjög vinsælt – slankbelti. Hugmyndina að slankbeltinu fékk hún á Strikinu í Kaupmannahöfn, en þá var komið „new look“. Hún keypti sér dýrt, mjótt magabelti fyrir mittið og vinkonur hennar dáðust að því hvað hún væri mittismjó. Í kjölfarið fékk hún þá hugmynd að framleiða magabelti. Þóra lýsti þessu svo löngu síðar:
„Það varð nokkurs konar bylting þegar ég fór að sauma slankbeltið. Í því fengu konur fínan kropp, líka konur sem voru búnar að eignast börn og voru svona svolítið útvaðnar – þær fengu almennilegt mitti. Slankbeltið var úr dúk með spírölum, krækt að framan og reimað að aftan. Ef konur voru 70 til 80 sentimetrar í mittið keyptu þær belti nr. 70. Það komu meira að segja til mín karlmenn sem höfðu farið í belti konunnar sinnar og vildu fá eins, – þetta styddi svo vel við bakið.“
Síðar fór Þóra vestur um haf og í framhaldi af því hóf hún að sauma teygjubuxur, korselett og slankbelti úr teygju. Hún seldi þó mest af brjóstahöldurum. Á haftaárunum kópíeraði hún snið frá fínustu búðum í Bandaríkjunum, spretti þeim upp og sneið eftir sniðunum.
Þóra sá um framleiðsluna, en Hjörtur hafði umsjón með rekstri og bókhaldi. Hjörtur reisti stórhýsi undir verslun þeirra á Laugavegi 26, sem enn stendur, en hann hafði keypt lóðina á stríðsárunum og beið í mörg ár eftir að fá leyfi til að byggja. Þangað var verslunin flutt og saumastofunni komið fyrir í kjallaranum, en hún hafði áður verið staðsett heima hjá þeim hjónum. Þau Þóra og Hjörtur bjuggu fyrst í stað á efri hæðum, en árið 1964 stofnaði Hjörtur Húsgagnahöllina að Laugavegi 26 og um skeið var hún rekin þar á þremur hæðum. Jón sonur þeirra tók síðar við rekstri Húsgagnahallarinnar og annar sonur þeirra Sigurður varð framkvæmdastjóri Lady hf. Þriðji sonurinn Gunnar rak verslunina Olympiu. Hjörtur var um skeið formaður Kaupmannasamtakanna og gegndi að auki fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum, svo sem fyrir Verslunarráð, Lífeyrissjóð verslunarmanna og Verslunarskólann.
Árið 1977 opnaði Verzlanahöllin í stórhýsinu að Laugavegi 26 en þá voru þar alls ellefu verslanir undir einu þaki, en auk Olympiu mátti þar finna Kosta Boda, Sonju tískuvöruverslun, Plötuportið, Gullhöllina og Bókabúð Braga.
Framleiðslu var haldið áfram mjög lengi undir merki Lady, en margar konur máttu ekki heyra minnst á að Þóra hætti að sauma á þær slankbelti. Um 1970 gekk tískan í sérstaka átt, því þá hættu konur að stórum hluta að nota brjóstahöld og létu brjóstin dingla. Þóra lét svo um mælt löngu síðar að þetta hefði verið „ömurleg tíska“.
Þegar dró úr sölu á lífstykkjavörum var saumað mikið af náttsloppum hjá fyrirtækinu, en einnig var mikið flutt inn af sloppum, undirfatnaði og náttfatnaði. Þá fengust einnig draktir og kápur í versluninni. Svo fór að rekstri verslunarinnar á Laugavegi var hætt, um það fórust Þóru svo orð:
„En svo breyttist allt þegar Laugavegurinn var gerður að göngugötu og trjáræktarsvæði, þá gat maður bókstaflega lokað og það gerðum við og fluttum verslunina upp í Kringlu.“
Olympia hélst í eigu fjölskyldunnar allt til ársins 2004. Á Laugavegi 26 var síðar rekin verslun Skífunnar og nú er tískuvöruverslunin Eva á götuhæðinni.
Heimild: Morgunblaðið, 12. nóvember 1970 og 8. janúar 2006.