Lög Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg
1. gr. Félagið heitir „Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg“.
2. gr. Heimili félagsins og varnarþing er á Laugavegi 34, Reykjavík.
3. gr. Markmið og tilgangur félagsins er að efla verslun við Laugaveginn í Reykjavík og vera málsvari eigenda rótgróinna verslana og eigenda verslunarhúsnæðis við götuna.
4. gr. Félagið hyggst vinna að markmiði sínu með kynningu á málstað fasteigna- og verslunareigenda gagnvart borgaryfirvöldum sem og út á við.
5. gr. Fasteigna- og verslunareigendur við Laugaveg geta óskað inngöngu í félagið. Eigendur annarra fyrirtækja við götuna geta einnig óskað inngöngu. Beiðnir um inngöngu skulu bornar upp á stjórnarfundum og samþykktar með tveimur þriðju hlutum atkvæða.
6. gr. Stjórn félagsins getur vikið úr því hverjum þeim sem að hennar áliti brýtur lög þess eða vinnur gegn stefnu þess. Til þess þarf atkvæði tveggja þriðju hluta stjórnarmanna.
7. gr. Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum, formanni, gjaldkera, ritara og tveimur meðstjórnendum. Stjórnin er kosin á aðalfundi félagsins til eins árs í senn. Formaður skal kjörinn sérstaklega, á undan stjórn. Framboð til formanns og stjórnar skulu hafa borist stjórn félagsins eigi síðar en viku fyrir aðalfund. Stjórn félagsins skal auglýsa um leið og aðalfundur er auglýstur, hvar og hvenær framboðum skal skilað. Ef ekki er sjálfkjörið skal kosning vera skrifleg. Á aðalfundi skal kjósa tvo endurskoðendur og einn til vara. Framboð til endurskoðenda skal berast stjórn félagsins eigi síðar en viku fyrir aðalfund. Ef ekki er sjálfkjörið skal fundurinn skipa þriggja manna kjörnefnd sem sér um gerð kjörseðla, úrskurð um vafaatkvæði, stjórn talningar og framkvæmd kosninga að öðru leyti.
8. gr. Málefni félagsins annast formaður þess, stjórn, almennir fundir og nefndir sem þessir aðilar kjósa sér til aðstoðar.
9. gr. Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi félagsins skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn mega sitja aðalfundi.
10. gr. Aðalfund skal halda ekki síðar en 1. desember ár hvert og skal boða til hans með minnst tveggja vikna fyrirvara. Allar kosningar á aðalfundi skulu vera skriflegar sé þess óskað. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála og kjöri á aðalfundinum, en breytingar á lögum þurfa þó að hljóta atkvæði tveggja þriðju hluta fundarmanna. Verði atkvæði jöfn, ræður hlutkesti. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir: 1. Skýrsla stjórnar og endurskoðaðir reikningar. 2. Lagabreytingar. 3. Ályktanir fundarins. 4. Kosning formanns, stjórnar. 5. Önnur mál. Samþykki aðalfundar þarf til við breytingu á röðun dagskrár.
11. gr. Stjórnarfundi skal halda svo oft sem þurfa þykir. Formaður boðar til þeirra og stýrir þeim nema annað sé ákveðið. Stjórnarfundi skal boða með tveggja sólarhringa fyrirvara. Bregða má frá þeirri reglu ef allir stjórnarmenn samþykkja. Stjórnarfundur er löglegur ef meirihluti stjórnarmanna situr fund. Óski tveir stjórnarmenn eftir stjórnarfundi ber að halda hann innan viku frá því formanni berst slík ósk skriflega. Verði atkvæði jöfn í atkvæðagreiðslu á stjórnarfundi, ræður atkvæði formanns.
12. gr. Árgjald félagsins er skal ákveðið á aðalfundi.
13. gr. Reikningstímabil félagsins er tíminn milli aðalfunda.
14. gr. Ákvörðun um slit félags verður tekin á stjórnarfundi með tveimur þriðju hlutum atkvæða. Við félagsslit skal eignum félagsins ráðstafað í til eflingar verslunar við Laugaveg.
Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi félagsins hinn 6. júní 2012 og öðlast þegar gildi.