Auður og Þór héldu í upphafi fundarins kynningu á fyrirhuguðum framkvæmdum, en í mars er áformað að hefja framkvæmdir við Hverfisgötu frá Vitastíg og að Snorrabraut. Áætlað er að þeim ljúki í júlí eða ágúst. Framkvæmdir við Hverfisgötu neðan Ingólfsstrætis og að Lækjartorgi eiga að hefjast síðar á árinu. Þá er gert ráð fyrir framkvæmdum í Pósthússtræti frá marsmánuði og fram í júlí, en viðbúið að þær framkvæmdir tefjist vegna fornleifarannsókna. Framkvæmdir á Hverfisgötu, milli Ingólfsstrætis og Klapparstígs munu ekki hefjast á þessu ári að tillitssemi við verktaka sem vinnur að byggingu á svokölluðum Hljómalindarreit. Í máli rekstaraðila á fundinum kom fram að þeir vildu að sama tillit yrði tekið til hagsmuna rekstrar þeirra og tekið er til verktakans, en varla hefur verið gætt neins samráðs við rekstaraðila á svæðinu. Í máli fulltrúa borgarinnar kom líka fram að gatnamótum Hverfisgötu og Klapparstígs yrði að loka aftur vegna framkvæmda, en rekstaraðilar gagnrýndu harkalega miklar lokanir á þvergötum meðan á framkvæmdum hefur staðið.
Í máli rekstaraðila kom fram mikil óánægja með framkvæmdir við Hverfisgötu sem hafa dregist úr hömlu. Flestir voru þeirra skoðunar að rétt væri að hlífa svæðinu við framkvæmdum þetta árið, en ef yrði af framkvæmdum þyrfti að huga miklu betur að hagsmunum rekstrarins en verið hefði. Allar mótvægisaðgerðir hefði skort. Til að mynda væri afar brýnt að setja upp merkingar varðandi það hvar bílastæði mætti finna og hvar bílastæðahús væru. Mikið rask hefur í för með sér tekjutap fyrir verslanir og það getur skipt tugum prósenta. Þá þekkjum við í gegnum tíðina ótalmörg dæmi um fyrirtæki sem hafa lagt upp laupana vegna framkvæmda sem drógust á langinn og líklega er Ingólfstorg einna versta dæmið. Nánast öll verslun hvarf af því svæði vegna framkvæmda við torgið.
Fulltrúar borgarinnar kynntu einnig fyrirhugaðar breytingar á Frakkastíg, en þær eiga að hefjast 2015. Til stendur að fjarlægja meira en helming allra bílastæða við götuna. Þannig verða öll bílastæði tekin vestanmegin, en þar mun koma hjólreiðastígur. Þá verða mun færri bílastæði hægramegin. Björn Jón benti á það á fundinum að fasteignaeigendur á þessu svæði greiddu hæstu fasteignagjöldin á landinu og hefðu greitt fyrir öll bílastæðin. Það væri skerðing á stjórnarskrávörðum eignarréttindum fasteignaeigenda að fjarlægja mikinn fjölda bílastæða sem í mörgum tilfellum kollvarpaði rekstargrundvelli fyrirtækja í nágrennninu. Borgin gæti ekki farið fram með slíkum hætti án þess að skapa sér bótaskyldu.
Athygli vakti á fundinum að fulltrúar borgarinnar gátu litlu um það svarað hvar í kerfinu ákvarðanir væru teknar eða hvaðan hugmyndir að einstökum breytingum hefðu komið.
Því miður er ástæða til að hafa miklar áhyggjur af þróun mála og rétt að rekstaraðilar komi sínum sjónarmiðum enn betur á framfæri við borgaryfirvöld. Ekki hvað síst kjörna fulltrúa – nú í aðdraganda borgarstjórnarkosninga. Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda hafa því ákveðið að boða til opins fundar hinn 5. mars nk. með fulltrúum allra framboða til borgarstjórnarkosninga. Fundurinn verður haldinn á annarri hæð Sólon í Bankastræti og hefst klukkan 12:00.