Undanfarna mánuði og misseri hefur mikil umræða átt sér stað um gríðarlega fjölgun gistihúsa og hótela í miðbænum, sér í lagi í tengslum við svokallaðan Landssímareit. Mörgum þykir sem miðbærinn sé að verða yfirfullur af hótelrýmum og verslunum með varning fyrir ferðamenn. Uppbygging þjónustu við ferðamenn hefur haldist í hendur við þá þróun að miðbærinn hefur orðið að fjölsóttasta ferðamannastað landsins og er það vel.
Það verður þó að teljast varhugavert ef starfsemi í miðbænum verður of einsleit, en á síðustu áratugum hefur átt sér stað mikill viðskiptaflótti af þessu svæði sem ekki sér fyrir endann á. Brýnt er að laða fjölbreyttari starfsemi í miðbæinn, hvort heldur um er að ræða verslanir eða þjónustufyrirtæki ýmiss konar. Einn þröskuldurinn í vegi þessa eru fasteignagjöldin sem leggjast mjög misjafnlega á húsnæði, eftir staðsetningu og starfsemi. Einna hæst eru fasteignagjöldin á verslunarhúsnæði í miðbænum.
Munur á fasteignagjöldum á verslunarhúsnæði annars vegar og íbúðarhúsnæði hins vegar getur verið allt að áttfaldur – og það í sömu fasteign. Tökum nokkur raunhæf dæmi. Af 83,3 fermetra rúmgóðu verslunarplássi á góðum stað við Laugaveg nema fasteignagjöldin rúmum 535 þúsundum kr. eða 6423 kr. á fermeter. Í sama húsi er stúdíóíbúð á annarri hæð, 42 fermetrar að stærð. Þar nema fasteignagjöldin rúmum 35 þúsund kr. eða 833 kr. á fermeterinn. Leigan per fermeter er hins vegar ekki nema um það bil 70 prósentum hærri í versluninni heldur en íbúðinni, en fasteignagjöldin aftur á móti næstum áttfalt hærri á verslunarhúsnæðinu.
Sem dæmi má einnig nefna tvö mjög sambærileg pláss undir atvinnuhúsnæði á annarri hæð, annars vegar við Laugaveg og hins vegar inn við Hátún. Í húsnæðinu við Hátún nema álögð fasteignagjöld 1159 kr. á fermeterinn en inn við Laugaveg eru sömu gjöld 3694 kr. Fasteignagjöld af atvinnuhúsnæði á annarri hæð eru því í þessu tilfelli meira en þrefallt hærri við Laugaveg heldur en Hátún, þrátt fyrir að greidd sé talsvert hærri leiga við Hátún. Þá er aðgengið mun greiðara við Hátún og á þeim slóðum innheimtir borgin ekki bílastæðagjöld, líkt og við Laugaveg.
Fasteignagjöld virðast víða vera gersamlega úr takti við verðmæti fasteigna. Sem dæmi má nefna lítið verslunarpláss við Laugaveg sem er 45 fermetrar að stærð, þar nema fasteignagjöldin 4794,5 kr. á fermeterinn eða á þriðja hundrað þúsund yfir árið. Mánaðarleiga á umræddum stað er þó aðeins rétt ríflega hundrað þúsund krónur á mánuði svo fasteignagjöldin samsvara um það bil tveggja mánaða leigu. Fasteignaeigendur hafa í ljósi þessa mjög sterkan hvata til að breyta verslunarhúsnæði þannig að það henti annars konar atvinnustarfsemi, eða þá því er breytt í íbúðarhúsnæði. Þetta ásamt ýmsum öðrum þáttum hefur um langt árabil ýtt undir viðskiptaflótta úr miðbænum.
Borgaryfirvöld hafa líka lengi amast við litlu viðhaldi sumra fasteigna í miðbænum, en lækkun fasteignagjalda gæti einnig orðið mönnum hvatning til betri umhirðu eigna sinna. Ef borgaryfirvöldum er raunveralega umhugað um að fjölbreyttari starfsemi fái blómgast í miðbænum þarf að koma til veruleg lækkun fasteignagjalda. Sá mikli munur sem er á fasteignagjöldum milli hverfa er í mörgum tilfellum hrópandi. Þá er munurinn á þeim gjöldum sem lögð eru á verslunarhúsnæði annars vegar og íbúðarhúsnæði hins vegar ekki með nokkru móti réttlætanlegur og grefur beinlínis undan atvinnulífi í miðbænum.