Stjórnarmennirnir Jón Sigurjónsson gullsmiður og Gunnar Guðjónsson gleraugnakaupmaður, ásamt Birni Jóni Bragasyni framkvæmdastjóra, áttu í morgun fund með Páli Hjaltasyni, formanni umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar. Varaformaður ráðsins, Hjálmar Sveinsson, sat hluta fundarins.
Í máli Páls kom fram að fyrirhuguð væri lokun Laugavegar milli Skólavörðustígs og Vatnsstígs næsta sumar í tvo mánuði. Stjórnarmenn lýstu mikilli andstöðu við þessi áform á fundinum enda hefur lokunin haft í för með sér mikinn samdrátt í verslun á svæðinu öllu. Páll tók fram að ekki yrði hvikað frá þessari ákvörðun en hét því að framkvæmdir við Hverfisgötu myndu ekki skarast við lokun. Stjórnarmenn mótmæltu ennfremur skorti á samráði við kaupmenn í og við Laugaveg vegna lokunar og fyrirhugaðra framkvæmda við Hverfisgötu og víðar.
Páll hét því að eiga eftirleiðis gott samstarf við Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg og fannst miður að þau samtök hefðu ekki fyrr komið að borðinu. Að öðru leyti áttu stjórnarmenn gott samtal við Pál um málefni miðbæjarins og kom fram í máli hans meiri skilningur á málefnum svæðisins en gætt hefur hjá borgarfulltrúum meirihlutans að undanförnu. Stjórnarmenn vænta góðs samstarfs við Pál á næstu misserum, en ráðgert er að stjórnarmenn fundi aftur með Páli á næstu vikum.