Fréttatilkynning frá Samtökum kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg og hópi hagsmunaaðila við Hverfisgötu
Næsta sumar standa fyrir dyrum mjög umfangsmiklar framkvæmdir við breytingar á Hverfisgötu milli Klapparstígs og Vitastígs. Áætlað er að framkvæmdir hefjist nú í lok júní og standi yfir fram í nóvember. Við hagsmunaaðilar á svæðinu fögnum því að Reykjavíkurborg sé umhugað um endurnýjun gatna í gamla bænum, en mótmælum harðlega skorti á samráði. Hagsmunaaðilum hafa ekki verið veittar neinar upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir og fengu loks upplýsingar um þær með eftirgangsmunum hjá embættismönnum borgarinnar. Engin grenndarkynning hefur farið fram.
Á sama tíma stendur einnig til að endurnýja Frakkastíg og þá eru sömuleiðis fyrirhugaðar framkvæmdir við Snorrabraut. Ljóst er að svo umfangsmiklar framkvæmdir á sama tíma munu koma illa við atvinnustarfsemi á svæðinu og því hefði verið brýnt að borgaryfirvöld tækju ákvarðanir um þetta málefni í samráði við hagsmunaaðila. Því miður eru þess mörg dæmi að verslanir hafi hætt starfsemi vegna framkvæmda sem drógust á langinn og nægir þar að nefna framkvæmdir við Ingólfstorg á sínum tíma og framkvæmdir vegna endurnýjunar Laugavegar. Framkvæmdatími vegna breytinga á Hverfisgötu er áætlaður alltof langur.
Við fyrirhugaðar breytingar á Hverfisgötu er ýmislegt að athuga, en meðal annars er gert ráð fyrir mikilli fækkun bílastæða sem mun enn auka á bílastæðavandann í miðborginni og draga úr samkeppnishæfni miðborgarinnar sem verslunarsvæðis. Nú þegar hefur stæðum verið fækkað mikið við Laugaveg og hefur þá gagnast mörgum viðskiptavinum að geta lagt bílum sínum við Hverfisgötu. Enn fremur er gert ráð fyrir tveimur hjólreiðastígum beggja vegna götunnar, þrátt fyrir að tilraun með hjólreiðastíg á Hverfisgötu hafi tekist afar illa.
Rétt er að benda á að á sama tíma og svo stórkostlegar framkvæmdir standa fyrir dyrum er fráleitt að loka einnig Laugavegi fyrir bílaumferð nú í sumar. Aðgengi að verslunum við Laugaveg og nálægar götur verður þá ekkert, nema menn fari fótgangandi nokkur hundruð metra. Allir sem starfrækt hafa verslun vita hversu nauðsynlegt er að tryggja gott aðgengi, en lokun götunnar fyrir bílaumferð undanfarin ár hefur leitt til mikils samdráttar í verslun, líkt og veltutölur frá ríkisskattstjóra bera vitni um. Þá hefur heft aðgengi komið sérlega illa niður á öldruðum, fötluðum og öðrum þeim sem eiga erfitt með gang. Hagsmunaaðilar á svæðinu treysta því að borgaryfirvöld tryggi að aðgengi akandi umferðar verði greitt niður Laugaveginn meðan svo umfangsmiklar framkvæmdir standa yfir við Hverfisgötu.
Engin kynning hefur farið fram á umræddum tillögum og ekki verið gætt að neinu samráði við þá sem hagsmuni hafa að gæta. Það er því einsýnt að verði af framkvæmdum við Hverfisgötu og Frakkastíg næsta sumar að hagsmunaaðilar munu leita réttar síns, svo samráðs verði gætt og tillit tekið til þeirrar umfangsmiklu atvinnustarfsemi sem er á umræddu svæði. Að óbreyttu mun atvinnustarfsemi á svæðinu stórskaðast, en verslun í miðborginni á nú þegar í vök að verjast. Það hlýtur að vera sameiginlegt hagsmunamál borgaryfirvalda og kaupmanna að fjölbreytt verslunar- og þjónustustarfsemi fái þrifist við Laugaveg, Hverfisgötu og fleiri götur í nágrenninu, því án blómlegrar verslunar er engin miðborg.