Hinn 9. júlí síðastliðinn sendi lögmannsstofan Lex kæru fyrir hönd Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg til innanríkisráðherra, þar sem þess var krafist að ráðherra felldi út gildi ákvörðun Reykjavíkurborgar um lokun Laugavegar, sem samþykkt var 26. maí síðastliðinn. Kæran er studd ýtarlegum gögnum og lá mikil vinna að baki henni. Gerð var sú krafa að réttaráhrifum ákvörðunar um lokun yrði frestað meðan kæran væri til meðferðar í ráðuneytinu, sbr. 2. mgr. 114. gr. sveitarstjórnarlaga, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Afar brýnt var að réttaráhrifum yrði frestað svo frekari tjóni vegna lokunar yrði afstýrt. Hins vegar fengust engin svör frá ráðuneytinu eftir að kæran hafði verið móttekin. Þess vegna var farin sú leið að óska eftir fundi með ráðherra sem til stóð að haldinn yrði 6. ágúst síðastliðinn. Tæpri klukkustund áður en fundurinn átti að hefjast hafði ritari ráðherra samband við framkvæmdastjóra Samtakanna og tilkynnti honum að ekki gæti orðið af fundi, þar sem ráðherrann væri á leið út á landi í embættiserindum.
Nýr fundur var boðaður degi síðar og þangað mættu fulltrúar Samtakanna með lögmanni sínum. Eftir nokkra bið kom aðstoðarmaður ráðherra fram og tilkynnti að hér væri misskilningur á ferðum, þar sem ráðherrann mætti ekki hitta fulltrúa Samtakanna, þar eð ráðuneytið yrði þar með vanhæft til meðferðar málsins. Ráðherra hefði ekki heimild til að hitta málsaðila.
Þess í stað fengu fulltrúar Samtakanna fund með aðstoðarmanni ráðherra og aðallögfræðingi ráðuneytisins. Í máli aðallögfræðingsins kom fram að hvorki hún ná aðrir embættismenn ráðuneytisins hefðu lesið kæruna og borið var við önnum. Því var komið á framfæri að þessi dráttur ylli kærendum miklu tjóni, enda hafði verið farið fram á að réttaráhrifum ákvörðunar borgaryfirvalda yrði umsvifalaust frestað.
Lögmaður Samtakanna og fulltrúar þeirra reifuðu málið á fundinum og ítrekuðu mikilvægi þess að málið yrði tekið fyrir hið snarasta. Embættismennirnir sýndu málstaðnum mikinn skilning en gátu ekki gefið upplýsingar um það hvenær ákvörðunar væri að vænta.