Í apríl síðastliðnum áttu fulltrúar Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg fund með átta embættismönnum frá jafnmörgum undirdeildum umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar vegna fyrirhugðra framkvæmda við Laugaveg, en borgin hafði þá kynnt að fyrir dyrum stæði að „endurhanna“ allan Laugaveg frá Hlemmi og að Skólavörðustíg. Að því tilefni komu Samtökin á framfæri við borgina ýtarlegum athugasemdum, sem birtust hér á heimasíðunni.
Framkvæmdastjóri Samtakanna sendi fyrirspurn til borgaryfirvalda fyrr í sumar og leitaði upplýsinga um það hvar málið væri statt. Svar barst ekki fyrr en með miklum eftirgangsmunum. Þar kom fram í máli Ólafs Bjarnasonar samgöngustjóra að „áform um endurgerð Laugavegar“ standi þannig að auglýst hafi verið forval hönnuða til samkeppni um útfærslu götunnar og hefðu áhugasamir aðilar frest til 15. ágúst til að gefa sig fram. Að því loknu yrðu fimm „hönnunarhópar“ valdir til samkeppni á útfærslu götunnar.
Í útvarpsviðtali á Rás 2 á sunnudagsmorguninn var lýsti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri því yfir að hann vildi reiðhjólastíga á Laugavegi. Samtökin hafa ítrekað lýst andstöðu sinni við að lagðir verði reiðhjólastígar á Laugavegi, vegna plássleysis, og þá er nærtækt að benda á að reiðhjólastígar hafa verið lagðir beggja vegna Hverfisgötu, en eru þó lítið notaðir.
Helst að öllu þyrfti að hvíla Laugaveginn fyrir stórframkvæmdum næstu árin, en verja þess í stað fjármunum til viðhalds. Víða eru götuvitar skakkir, skilti brotin, gangstéttarhellur aflaga og tré ekki klippt. Mun brýnna er að sinna nauðsynlegu viðhaldi, en ráðast í afar dýrar framkvæmdir, sem munu valda miklu raski. Rask vegna framkvæmda við Hverfisgötu og Klapparstíg hefur valdið versluninni miklu tjóni undanfarin misseri og brýnt ekki verði farið í framkvæmdir á Laugavegi sjálfum á næstunni.
Sama gildir um Frakkastíg, en þar er gert ráð fyrir framkvæmdum á næsta ári, en til stendur að fjarlægja öll bílastæði vestan megin götunnar til að rýma fyrir reiðhjólastíg, en austan megin er gert ráð fyrir að sárafá stæði verði eftir. Samtökin hafa áður lýst yfir andstöðu sinni við þessi áform og hvetja borgaryfirvöld til að hverfa frá þeim, enda má verslunin ekki við frekari fækkun stæða. Um þriðjungur hótelgesta er á bílaleigubílum svo þörf fyrir bílastæði í miðbænum fer hratt vaxandi.