Stjórn Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg (hér eftir nefnt Samtök kaupmanna) lýsir yfir ánægju sinni með að borgaryfirvöld vilji bæta umhverfi Laugavegar, en lýsir að sama skapi yfir áhyggjum vegna mikils rasks sem mun fylgja framkvæmdum. Telur stjórnin rétt að hvíla götuna fyrir framkvæmdum um sinn eða að þær verði unnar í áföngum. Þá verði leitað allra leiða til að draga úr raski og að borgaryfirvöld komi fram með raunverulegar mótvægisaðgerðir, til dæmis með því að viðskiptavinir fengju að leggja án endurgjalds í bílastæðahúsum meðan á framkvæmdum stendur, eða með sérstökum miðbæjarstrætisvagni sem verði gjaldfrjáls.
Hér að neðan eru margvíslegar athugasemdir Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg vegna fyrirhugaðra framkvæmda.
Umferð um götuna
Samtök kaupmanna lýsa þungum áhyggjum af sífellt minni umferð um götuna, en árið 2007 var sólarhringsumferð á Laugavegi milli Snorrabrautar og Barónsstígs um 5500 bílar. Árið 2012 var sólarhringsumferð um 3500 bílar á neðsta hluta götunnar. Þrátt fyrir að samanburðurinn sé ekki fyrir nákvæmlega sama kafla er ljóst að umferð um götuna hefur snarminnkað á allra seinustu árum. Umferðina þarf að auka á nýjan leik, til að mynd með því að afnema þrengingar á ofanverðum Laugavegi, taka burtu þrengingar á Snorrabraut og með átaki þar sem borgarbúar yrðu hvattir til að „fara á rúntinn“. Laugavegurinn er aðalumferðaræðin í gegnum miðbæinn. Honum má líkja við slagæð í blóðrásarkerfi. Þegar lokað var fyrir umferð um Austurstræti 1973 leið ekki að löngu uns allt líf dó þar fyrir vestan, þ.e.a.s. í Kvosinni. Rétt er því að leita allra leiða til að auka umferð um götuna. Í því tilliti er rétt að hafa í huga að umferðin er hæg og ógnar engum, auk þess sem fólksbifreiðar menga mun minna nú en þær gerðu fyrir fáeinum áratugum.
Hjólreiðar
Samtök kaupmanna leggja mikla áherslu á að á nýjan leik verði lagt bann við hjólreiðum á gangstéttum, en því banni var aflétt sumarið 2012. Síðan þá hafa nokkur slys orðið á gangandi vegfarendum og ítrekað legið við slysum. Þá leggjast Samtökin gegn sérstökum hjólaakreinum við götuna, enda ekki rúm fyrir þær. Eðlilegast er að reiðhjólum sé ekið á götunni sjálfri. Þeir reiðhjólamenn sem þurfa að hjóla hraðar geta aftur á móti notast við reiðhjólastígana á Hverfisgötu. Umferð um Laugaveginn sjálfan á að vera hæg.
Lýsing
Kaupmenn hafa sumir kvartað undan ónógri lýsingu við götuna. Rétt væri að leita leiða til að auka lýsinguna, með sterkari perum eða fleiri ljósastaurum.
Lokun götunnar
Í skýrslu borginnar er rætt um lokun götunnar fyrir bílaumferð. Þær lokanir hafa mætt mikilli andstöðu hagsmunaaðila og telja Samtök kaupmanna brýnt að götunni verði ekki lokað nema á forsendum verslunarinnar sjálfrar og þá að undangenginni atkvæðagreiðslu meðal hagsmunaaðila. Í þessu sambandi hefur komið upp sú hugmynd að loka götunni fyrir bílaumferð á góðviðrisdögum yfir sumarmánuðina, en allsherjarlokun skilar engum árangri og er til skaða, enda fáir sem hafa áhuga á að spóka sig um á Laugaveginum í úrhellisrigningu, svo dæmi sé nefnt. Þá er Laugavegurinn aðalumferðaræðin í gegnum miðbæinn og því hættulegt fyrir atvinnureksturinn að loka honum fyrir bílaumferð. Verslun við Austurstræti hvarf nánast alveg eftir að þeirri götu var lokað fyrir bílaumferð og allar tilraunir í þessa veru eru hættulegar.
Sigurður E. Haraldsson í Versluninni Elfur sagði í blaðaviðtali árið 1982:
„Ég held að kaupmenn óttist það mest að ekkert verði við þá talað áður en stórar ákvarðanir eru teknar varðandi framtíð Laugavegarins og miðbæjarins. Menn óttast að vakna upp einn morguninn við það að Laugavegurinn sé orðinn að göngugötu … Það er bara svo margt sem verður að gera fyrst áður en svo stórt skref er stigið. T.d. verður að sjá fyrir bílastæðum alveg við Laugaveginn, ekki langt niður við Skúlagötu, eins og stungið hefur verið upp á. Fólk vill geta ekið á sínum bíl sem næst þeim stað sem það ætlar á.“
Trjágróður og almennt viðhald
Samtök kaupmanna geta tekið undir það að aspir þær sem plantað var við götuna á sínum tíma séu sumar að minnsta kosti lítt til prýði. Að sama skapi verður að hafa í huga að trjáklippingum er lítt sinnt og trén fá að verða úr sér vaxin. Þá kemur að öðru, sem er almennt viðhald á eignum borgarinnar í götunni, en víða er látið óátalið að umferðarskilti séu beygluð, pollar rammskakkir og gangstéttarhellur úr lagi með tilheyrandi slysahættu. Það er ekki góð meðferð á fjármunum borgarbúa að efna til afar kostnaðarsamra framkvæmda, en halda götunni ekki við. Því má halda fram að frekar sé þörf á almennu viðhaldi, en endurhönnun, líkt og nú er boðað. Verði nýjum trjám plantað er brýnt að hirða þau vel. Að sama skapi þarf að huga að því hvort og hvernig tré geti skapað skjól á svæðinu, sér í lagi fyrir norðanáttinni.
Bílastæði
Samtök kaupmanna leggja afar mikla áherslu á að stæðum verði ekki fækkað við götuna. Verslun þrífst um þessar mundir best fyrir innan Frakkastígs, milli Frakkastígs og Vitastígs, en þar eru líka mun fleiri stæði en neðar. Þóra heitin Sigurðardóttir og fjölskylda starfrækti um áratugaskeið verslunina Olympiu, á Laugavegi 26, en verslunin var flutt af Laugaveginum eftir mikla fækkun bílastæða á því svæði. Um það mál sagði Þóra í viðtali við Morgunblaðið:
„En svo breyttist allt þegar Laugavegurinn var gerður að göngugötu og trjáræktarsvæði, þá gat maður bókstaflega lokað og það gerðum við og fluttum verslunina upp í Kringlu.“
Fjölga þarf stæðum á kaflanum milli Skólavörðustígs og Frakkastígs. Ekki nægir að nefna að finna megi stæði nokkur hundruð metrum fjær. Það hentar ekki öllum að ganga langa leið að versluninni. Fleiri stæði nær versluninni myndu verða mikil lyftistöng fyrir hana á þessum kafla.
Þá telja Samtökin rétt að gera tilraun með gjaldfrjáls bílastæði á Laugavegi með svokallaðri bílaklukku sem notuð er mjög víða á meginlandi Evrópu. Eina markmið gjaldtökunnar er að stýra flæðinu í bílastæðin, en því má stýra með mun einfaldari og þægilegri hætti. Gjaldskyldan ein og sér er heimill á að fólk komi í bæinn. Þá fer það vel við markmið borgaryfirvalda að fækka „götugögnum“ að fjarlægja stöðumælana af götunni. Rétt er að hafa í huga að fasteignaeigendur hafa marggreitt fyrir bílastæðin með gjöldum til borgarinnar.
Samkvæmt nýlegum áætlunum er um þriðjungur gesta á hótelum í miðbænum á bílaleigubílum. Á Laugavegi 66 er gert ráð fyrir um eitt hundrað herbergjum, en engu nýju bílastæði. Þeirri spurningu er ekki svarað hvar eigi að leggja þessum ríflega þrjátíu bílum sem fylgja gestum á háannatíma. Því skiptir einnig miklu að stæðum verði ekki fækkað í nágrenninu og horfið frá fyrirtætlun um að fjarlægja öll bílastæði vestan megin Frakkastígs.
Skiptar skoðanir eru meðal kaupmanna um það hvort betra sé að stæðin séu samsíða götunni eða skástæði. Þar sem skástæðin eru ríkir almenn ánægja meðal kaupmanna. Þau eru öruggari fyrir barnafólk og einfaldara er að leggja í þau. Hins vegar eru þau illa römmuð inn sem gerir það að verkum að margir leggja inn á gangstéttina. Erfiðara er að leggja í samsíða stæði, en á móti kemur að með þeim er auðveldara að sjá inn í búðarglugga frá götunni, sem auðveldar „window shopping“.
Hreinlæti
Fjölga þarf ruslastömpum við götuna og einnig þarf að huga að almenningssalernum, en engin almenningssalerni eru við Laugaveginn. Sóðaskapurinn er mikill í miðbænum og hefur aukist með fleiri öldurúsum. Edda Hauksdóttir kaupmaður í Stellu í Bankastræti orðaði þetta vel í viðtali fyrir nokkrum árum:
„Það er víst óhætt að segja að hreinsun í miðbænum sé algjörlega í lágmarki og borgum við þó hæstu fasteignagjöldin hérí miðbænum. Fólk vill koma í miðbæinn til að skoða í búðir og fá sér kaffi, ekki til að vaða ryk, sand og gosdrykkjaumbúðir upp í ökkla.“
Að lokum
Við fyrirhugaðar framkvæmdir við Laugaveg er mikilvægast af öllu að huga að því sem bætt geti skilyrði verslunar við götuna og þá almennrar smásöluverslunar við Íslendinga. Eini vaxtarbroddurinn í verslun á þessu svæði á umliðnum árum hefur verið verslun við erlenda ferðamenn á sama tíma og verslun við Íslendinga hefur dalað mikið.
Í fyrirliggjandi tillögum að endurhönnun Laugavegar, sem og þeim kafla aðalskipulagsins sem lýtur að miðbænum, skortir mjög á að hugað sé að skilyrðum verslunar. Verslunin verður alltaf kjarnastarfsemin í blómlegum miðbæ, önnur þjónusta fylgir, og þegar versluninni hnignar tekur alltaf lakari starfsemi við. Það er sú þróun sem átt hefur sér stað á Laugavegi undanfarna áratugi og sú þróun gekk svo langt í Kvosinni að verslun hreinlega lagðist þar af. Þórir Sigurbjörnsson, kaupmaður í Vísi, sagði í blaðaviðtali árið 2003 að það væri
„skelfilegt að horfa upp á það á sama tíma að einu fyrirtækin sem fylli skarð þjónustufyrirtækja sem hverfi á brott úr miðborginni séu veitinga- og skemmtistaðir. Hann heyri það á fólki að það vilji ekki sjá miðborgina þróast í þá átt sem hún sé að gera og sjálfur vill hann sjá miðborgina fyrst og fremst sem verslunarsvæði en ekki „ölsvæði“.“
Borgaryfirvöldum hlýtur að vera annt um að blómleg verslun fái þrifist í miðbænum og fara Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg þess á leit við borgaryfirvöld að fullt tillit verði tekið til allra framkominna athugasemda Samtakanna og til þeirra leitað við alla áframhaldandi vinnu við þetta verkefni.
Margir kaupmenn í Samtökunum hafa starfað við verslun í miðbænum í um og yfir fjörutíu ár og staðið í stappi við borgaryfirvöld, allt frá dögum Geirs Hallgrímssonar í stóli borgarstjóra. Því miður hafa fjölmörg blómleg fyrirtæki í miðbænum lagt upp laupana á umliðnum áratugum, ellegar flust annað. Ólafur Vigfússon, kaupmaður í Veiðimanninum, orðaði þetta vel fyrir nokkrum árum í blaðaviðtali:
„Ákvörðunin um að loka versluninni var sársaukafull en erfitt hefur verið að horfa upp á hnignum miðbæjarins og samdrátt í verslun á sama tíma og aðrar verslanir fyrirtækisins blómstra sem aldrei fyrr … Ekki er loku fyrir það skotið að Veiðimaðurinn verði opnaður á ný í gamla miðbænum þegar borgaryfirvöld framtíðarinnar hafa áttað sig á því að miðborgin verður aldrei lifandi án blómlegrar verslunar og skapa starfsumhverfi til að svo megi verða.“
Vonandi rennur brátt upp sá tími að borgaryfirvöld taki upp raunverulegt samráð við kaupmenn í miðbænum.