Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg gengust fyrir opnum fundi á Sólon í hádeginu 13. mars síðastliðinn undir yfirskriftinni „Framtíð verslunar í miðbænum“. Allir flokkar sem bjóða fram til borgarstjórnar áttu sinn fulltrúa á fundinum. Fundurinn var vel sóttur, en fundarmenn voru ríflega fimmtíu talsins og spunnust líflegar umræður að loknum framsögum stjórnmálamannanna.
Kaupmenn fundu að því að skort hefði á í framsögum að þeirri spurningu væri svarað hver framtíð verslunar í miðbænum væri, en megininntakið í fyrirspurnum kaupmanna var að það skorti mjög á samráð og samráð væri ekki fólgið í því tilkynna kaupmönnum með nokkurra vikna fyrirvara að til stæði að ráðast í mjög umfangsmiklar framkvæmdir, líkt og raunin var með Hverfisgötu. Samráð feli í sér að kaupmenn séu spurðir álits og hafðir með í ráðum allt frá byrjun þegar ákvarðanir eru teknar er varða málefni miðbæjarins.
Verslun er grunnatvinnugreinin í öllum blómlegum miðbæjum. Önnur þjónusta fylgir. Því skiptir meginmáli að huga að öllu því sem orðið getur til að efla verslun í miðbænum.