En það eru til betri leiðir til að tryggja sem best flæði í bílastæði. Víða á meginlandi Evrópu, sem og á Akureyri, er notast við framrúðuskífur eða svokallaðar „bílaklukkur“ með góðum árangri. Ef slíkt fyrirkomulag yrði tekið upp í miðbæ Reykjavíkur gætum við til að mynda hugsað okkur að við Laugaveginn sjálfan mætti leggja í tuttugu mínútur til hálfa klukkustund. Í hliðargötum og öðrum nálægum götum í tvær klukkustundir og fjærst, á Skúlagötusvæðinu, væru langtímastæði sem sér í lagi myndu gagnast starfsfólki verslana og annarra fyrirtækja sem þyrftu að leggja bílum sínum allan daginn.
Framrúðuskífurnar hafa gefist afar vel á Akureyri og leitt til mun betri nýtingar á stæðum og þá hafa heildartekjur bílastæðasjóðsins þar nyrðra aukist eftir breytinguna. Almenn ánægja ríkir meðal kaupmanna sem og bæjarbúa með framrúðuskífurnar.
Það er afar mikils virði fyrir borgina að verslun og þjónusta fái áfram dafnað í miðbænum. Stuðlum að því að borgarbúar sæki í ríkara mæli í bæinn og fjarlægjum stöðumælana.