Þrír stjórnarmenn í Samtökum kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg, þeir Bolli Kristinsson, Gunnar Guðjónsson og Helgi Njálsson fóru til fundar við Pál Hjaltason, formann umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, á fimmtudaginn var, 5. september. Björn Jón Bragason, framkvæmdastjóri Samtakanna, sat einnig fundinn, ásamt Frank Michelsen úrsmið.
Frank bent á fundinum á að þá málamiðlunartillögu varðandi lokun götunnar að opnað yrði aftur fyrir umferð á kvöldin í stað þess að hafa götuna lokaða fram eftir öllu kvöldi á sumrin. Mikils virði væri að fólk gæti ekið rúntinn á kvöldinn til að líta í búðarglugga.
Páll talaði á fundinum um að borgaryfirvöld hygðust endurhanna Laugaveg og farinn væri í gang vinnuhópur vegna þess. Stjórnarmenn lögðu mikla áherslu á að fulltrúi hagsmunaaðila yrði hafður með í þeim hópi og gaf Páll vilyrði um slíkt á fundinum. Umrædd endurhönnun gengur meðal annars út á að hækka og lækka gangstéttir til að auðvelda aðgengi.
Bolli gerði þrengingar á Snorrabraut að umtalsefni og benti á að mikið nær hefði verið að þrengja Snorrabraut næst Laugavegi og búa þar til fjölda nýrra bílastæða, sem gagnast gætu versluninni á daginn og starfsemi í gamla Austurbæjarbíói á kvöldin, en skortur á bílastæðum hefur staðið starfsemi þar fyrir þrifum. Þarna mætti útbúa um það bil 40 til 50 ný stæði.
Á fundinum var talsvert rætt um Hverfisgötuna og áréttuðu stjórnarmenn að betra hefði verið að breyta götunni í einstefnugötu, nýta suðurhliðina fyrir bílastæði og hafa aðeins einn hjólreiðastíg norðan megin í stað hjólreiðastíga beggja vegna götunnar. Frá sjónarhóli íbúa jafnt sem kaupmanna fer mun betur á því að umferð um Hverfisgötu sé hæg og þar sé nóg af bílastæðum. Páll lýsti sig andsnúinn hugmyndum kaupmanna og áréttaði þá afstöðu borgaryfirvalda að gegnumstreymisakstur færi um Hverfisgötu og að fyrri áætlunum yrði haldið, m.a. með fækkun bílastæða og tveimur hjólreiðastígum.
Gunnar áréttaði á fundinum að Laugavegurinn væri verslunargata og allar breytingar yrðu að taka mið af því hvernig verslun fengi þar þrifist. Þá gagnrýndi hann harðlega fyrirhugaðan flutning aðalskiptistöðvar Strætisvagna í BSÍ og nefndi að í staðinn væri rétt að endurvekja góða skiptistöð á Lækjartorgi. Páll varði þá ákvörðun að flytja skiptistöðina.
Á fundinum var einnig töluvert rætt um það hvernig bæta mætti umferðarflæði um Sæbraut, en lítils er að vænta í þeim málum af hálfu borgaryfirvalda.