Þrenging Snorrabrautar hefur orðið til að tálma mjög aðgengi að miðbænum. Ástæðan sem borgaryfirvöld gefa fyrir þessum framkvæmdum er umferðaröryggi, en frá þeim sjónarhóli er þrengingin í reynd óþörf. Bæta má öryggi gangandi vegfarenda með grindverki meðfram gangstettinni og hliðum við gatnamót.
Lögreglubílar, sjúkra- og slökkvibílar þurfa að geta komist hindrunarlaust um götuna og þá má telja líklegt að þrengingarnar skapi umferðartafir og raðir sem aftur auka á hættu við ljósastýrð gatnamót.
Með þrengingu götunnar flyst umferð inn í nálæg íbúðahverfi og skapar þar stórhættu, hvort heldur sem er í Norðurmýrinni eða á Barónstíg. Réttara hefði verið að þrengja Snorrabrautina næst Laugavegi, enda umferðin hæg þar inn götuna. Þá hefði verið hægt að nota aðra akgreinina undir bílastæði, sem mjög skortir á þeim slóðum – til dæmis fyrir tónleika- og leikhúsgesti í Austurbæ.