Stjórn Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg kom saman til fundar að Laugavegi 91, þriðjudaginn 16. júlí. Mættir voru Bolli, Gunnar, Helgi, Hildur, Jón og Björn Jón.
Talsvert mikið var rætt um þrengingu Snorrabrautar sem gerir aðgengi að miðbænum enn erfiðara en ella. Bæta hefði mátt öryggi gangandi vegfarenda með grindverki meðfram gangstettinni og hliðum við gatnamót. Með þrengingu götunnar flyst umferð inn í nálæg íbúðahverfi og skapar þar stórhættu. Réttara hefði verið að þrengja Snorrabrautina næst Laugavegi, enda umferðin hæg þar inn götuna. Þá hefði verið hægt að nota aðra akgreinina undir bílastæði, sem mjög skortir á þeim slóðum – til dæmis fyrir tónleika- og leikhúsgesti í Austurbæ. Með sama áframhaldi – þrengingum og lokunum – er í reynd verið að girða miðbæinn af.
Bolli og Björn Jón gerðu grein fyrir ágætum fundi sem þeir áttu með Pálmari Harðarsyni, sem keypt hefur svokallaðan Hljómalindarreit, Brynjureit og Vatnsstígsreit af Regin fasteignafélagi. Félag Pálma, Þingvangur, hyggur á miklar framkvæmdir sem brátt eiga að hefjast á Hljómalindarreit, sem afmarkast af Hverfisgötu, Laugavegi, Smiðjustíg og Klapparstíg. Hugmyndir um uppbyggingu eru mjög í samræmi við gildandi deiliskipulag og gera ráð fyrir miklu byggingarmagni, þar með talið verslunarhúsnæði Laugavegsmegin og einnig meðfram Hverfisgötu, sem gæti orðið mjög til að efla neðri hluta Laugavegar. Helstu áhyggjur eru af fáum bílastæðum, en ekki er gert ráð fyrir nema 25 stæðum í kjallara. Með örlitlum breytingum á fyrirliggjandi tillögum um nýtt umferðarskipulag á Hverfisgötu mætti bæta við fjölda bílastæða við götuna, sem gætu bætt verulega úr bílastæðavandanum fyrir íbúa jafnt sem viðskiptavini verslana.
Nokkuð var rætt um bílastæðavandann sem hefur verið að magnast, meðal annars vegna fjölda bílaleigubíla erlendra gesta. Stjórnarmenn ræddu í því sambandi um ýmsar leiðir til úrbóta, þar á meðal ný langtímastæði við Skúlagötu, en sú hugmynd var nýlega kynnt borgaryfirvöldum.
Komandi borgarstjórnarkosningar bar á góma og var það samdóma álit stjórnarmanna að leita eftir viðhorfum frambjóðenda til miðborgarinnar.
Talsvert var rætt um fasteignagjöldin sem eru óeðlilega há í miðbænum samanborið við önnur verslunarsvæði. Þeirri hugmynd var velt upp að Samtökin sendu frá sér ályktun um málið og þá á grundvelli rækilegs samanburðar á álögðum fasteignagjöldum milli svæða.