Nú eru framkvæmdir að hefjast við Hverfisgötu, en Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg, ásamt hópi rekstraraðila við Hverfisgötu, höfðu áður gagnrýnt harðlega skort á samráði við hagsmunaaðila vegna þeirra framkvæmda, sem komu flestum í opna skjöldu.
Þegar rýnt er í fyrirliggjandi tillögur að breyttu umferðarskipulagi er margt sem mætti gagnrýna. Sér í lagi hið mikla umferðarmagn, en Ólöf Örvarsdóttir, forstöðumaður umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar, sagði á kynningarfundi í Tjarnarbíói og hún vildi sjá Hverfisgötuna sem „búlevarð“.
Líklega eru langflestir hagsmunaaðilar og íbúar á öðru máli. Betra væri að takmarka umferð um Hverfisgötu þannig að hún þjónI íbúum og viðskiptavinum sem best. Gegnumstreymisumferð ætti aftur á móti að fara um Sæbrautina.
Í þessu sambandi má velta því upp hvort ekki væri rétt að gera Hverfisgötuna aftur að einstefnugötu, en þá með einstefnu í vestuátt, enda koma flestir viðskiptavinir úr auturhluta borgarinnar. Í fyrirliggjandi tillögum er gert ráð fyrir tveimur hjólreiðastígum beggja vegna götunnar, en ætla má að fáir vilji hjóla sunnanmegin götunnar í skugga frá húsum. Þess vegna væri ráð að hafa einn örlítið breiðari hjólreiðastíg upp við gangstéttina norðanmegin, en nýta suðurhliðina fyrir bílastæði.
Með þessu móti mætti sjá fyrir sér að Hverfisgatan myndi gagnast íbúum jafnt sem viðskiptavinum verslana enn betur og um leið verða öruggari og vistlegri gata.