Stjórn Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg kom til fundar fimmtudaginn 6. júní 2013. Mættir voru Bolli Kristinsson formaður, Gunnar Guðjónsson varaformaður, Helgi Njálsson, Hildur Símonardóttir, Jón Sigurjónsson og Björn Jón Bragason framkvæmdastjóri. Fundurinn var haldinn á Laugavegi 91.
Talsvert var rætt um fyrirhugaðar framkvæmdir við Hverfisgötu, en Ólafur Kr. Guðmundsson umferðarsérfræðingur vinnur nú að tillögum um betra umferðarskipulag götunnar, en Samtökin hyggjast kynna þær tillögur bráðlega. Borgaryfirvöld gættu ekki samráðs við hagsmunaaðila á svæðinu þegar unnið var að skipulagi götunnar, en ljóst er að margvíslegra úrbóta er þörf.
Til að mynda er gert ráð fyrir tveimur hjólreiðastígum sitt hvorum megin götunnar. Einn stígur norðanmegin hefði dugað, enda ólíklegt að nokkur vilji hjóla skuggamegin. Hjólreiðastígur var lagður sunnanmegin fyrir nokkrum árum (grænn stígur) og var hann svo til ekkert notaður. Einn hjólreiðastígur norðanmegin myndi þjóna götunni mikið betur.
Þá er gagnrýnivert hversu mikilli umferð er gert ráð fyrir, en Ólöf Örvar, starfsmaður skiplagssviðs borgarinnar, kallaði Hverfisgötuna „búlevarð“ á kynningarfundi á dögunum. Það var samdóma álit stjórnarmanna að rétt væri að takmarka umferð og gera hana frekar að vistgötu og þá með einstefnu vestureftir, en þaðan kemur mest umferðin á leið í bæinn. Með því móti myndi skapast pláss fyrir fleiri bílastæði og gatan yrði öruggari jafnt fyrir íbúa sem gesti.
Þessar tillögur verða útfærðar betur á næstu dögum og síðar kynntar, ásamt tillögum að fjölgun bílastæða við Skúlagötu sem gætu létt mjög á bílaumferð um svæðið.
Talsvert var rætt um salernismál í miðborginni, en til staðar eru almenningssalerni á að minnsta kosti fjórum stöðum – í Bankastræti, á Vitatorgi, á Stjörnutorgi og Hlemmi. Öll þessi salerni eru lokuð. Ferðamenn kvarta mikið undan þessu. Ákveðið var að vekja athygli á þessu máli sérstaklega.
Lokun götunnar bar á góma, en lokunin hefur slæm áhrif á verslun upp eftir götunni nú sem endranær.