Bíóferðir hafa verið meðal allra vinsælustu skemmtana Reykvíkinga allt frá árinu 1906, en svo snemma hófust skipulegar kvikmyndasýningar í bænum. Framan af öldinni sem leið voru aðeins tvö kvikmyndahús í bænum, en á fimmta áratugnum fjölgaði þeim í sjö og síðar áttu fleiri eftir að bætast við.
Áður en skipulegar kvikmyndasýningar hófust voru stöku sinnum til sýninga kvikmyndir í Bárubúð og Iðnó, eða allt frá árinu 1903. Forgöngu að fyrstu skipulögðu kvikmyndasýningunum hafði Fr. Warburg, stórkaupmaður í Kaupmannahöfn, en athyglisvert er til þess að hugsa að á sama tíma voru aðeins þrjú kvikmyndahús starfrækt þar í borg og aðeins fáein ár frá því að skipulagðar sýningar kvikmynda hófust í Lundúnum og París.
Warburg keypti áhöld til sýninga og litla olíuknúna rafstöð og sendi hingað út mann til að hefja sýningar. Breiðfjörðshús við Aðalstræti 8 varð fyrir valinu sem sýningarsalur, en það hús var síðar þekkt undir nafninu Fjalakötturinn. Sæti þar í salnum voru um 300 og flest á lausum bekkjum. Fyrirtækið fékk nafnið Reykjavíkur Biograftheater, sem í daglegu tali var brátt farið að nefna Bíó. Þetta fyrsta kvikmyndahús bæjarins naut frá fyrstu tíð gríðarlegra vinsælda og ýmsir framámanna í bæjarlífinu áttu þar sín föstu sæti.
Flest var afar frumstætt í kvikmyndatækni þessa tíma, en sýningarvélin var handknúin fyrstu árin og lagði mikinn hita frá henni. Á sama tíma var engin loftræsting í salnum, svo hitinn fór hæglega upp í fjörutíu stig þar inni.
Fram til ársins 1912 var Reykjavíkur Biograftheater eina kvikmyndahúsið í bænum, en það ár var stofnað annað kvikmyndahús í sal Hótel Íslands sem fékk nafnið Nýja bíó hf. Nafnið Gamla Bíó festist því fljótt við eldra fyrirtækið. Stofnendur Nýja Bíós voru Sveinn Björnsson, yfirdómslögmaður, Friðrik og Sturla Jónssynir, kaupmenn, Ólafur Johnson, stórkaupmaður, Carl Sæmundsson, stórkaupmaður og Pétur Brynjólfsson, ljósmyndari.
Salurinn á Hótel Íslandi var útbúinn með upphækkuðum sætaröðum og lyftanlegum sætum. Bjarni Jónsson gerðist framkvæmdastjóri kvikmyndahússins árið 1914 og gegndi því starfi um langan aldur, en hann eignaðist brátt fyrirtækið og rak það lengi í félagi við Guðmund Jensson. Árið 1919 hófst bygging nýs kvikmyndahúss við Austurstræti og hófust sýningar þar árið eftir.
Árið 1913 lést Warburg og þá keypti maður að nafni Petersen öll tæki Gamla Bíós af dánarbúi hans, en Petersen hafði starfað við kvikmyndahúsið frá upphafi. Umfang starfseminnar óx ár frá ári og 1925 hófst bygging nýs kvikmyndahúss í Ingólfsstræti. Húsið var vígt 1927 og var mikið til þess vandað, svo sem sjá má enn þann dag í dag. Þar var meðal annars komið fyrir fullkomnum loftræstibúnaði, svo bíógestir þurftu ekki að stikna út hita. Hið nýja kvikmyndahús var eitt fyrsta hús landsins sem var lagt gúmmídúkum. Þetta veglega samkomuhús varð brátt aðalsamkomuhús bæjarbúa og fjölmargir fundir og hljómleikar þar haldnir.
Ein stórkostlegasta breyting í kvikmyndagerðinni var tilkoma talmyndanna, en Petersen var fljótur til að verða sér úti um tónmyndavélar fyrir bíóið og hófust sýningar með hljóði árið 1930. Sýningar með tali hófu innreið sína í Nýja Bíó sama ár. Árin 1945 til 46 var kvikmyndahús Nýja Bíós stækkað mikið og út að Lækjargötu.
Undir lok níunda áratugarins hurfu þessi gamalgrónu kvikmyndahús af sjónarsviðinu í kjölfar breyttrar tísku í kvikmyndahúsum með fjölsalabíóum, en mikill skortur á bílastæðum stóð rekstri þeirra einnig fyrir þrifum.
Björn Jón Bragason, framkvæmdastjóri Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg, tók saman