Bolli Kristinsson, formaður Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg, og Björn Jón Bragason, framkvæmdastjóri Samtakanna, áttu fund með Haraldi Sigurðssyni, skipulagsfræðingi á umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar, þriðjudaginn 21. maí, en fundurinn var haldinn til kynningar á fyrirliggjandi aðalskipulagsdrögum til ársins 2030.
Í máli Haraldar kom fram að sitthvað í þeim drögum getur orðið verslun á svæðinu til framdráttar, en gagnrýni Samtakanna er margvísleg og beinist sér í lagi að því að inn í drögin vantar allar hugmyndir og áætlanir um uppbyggingu verslunar í miðborginni. Úr því þarf að bæta.
Á fundinum voru borgaryfirvöldum kynntar meginhugmyndir kaupmanna í sextán liðum:
- Laugavegurinn verði skilgreindur sem vistgata með umferð.
- Greitt aðgengi verði að miðborginni með helstu stofnbrautum, Sæbraut, Hringbraut, Snorrabraut og framtíðartengingar, s.s. Sóleyjargata í stokk og Skerjabraut.
- Gott aðengi verði um helstu verslunargötur og Laugavegi haldið opnum. Huga mætti að uppbyggingu göngugatna annars staðar, til dæmis í Kvosinni, með því að gera allt Austurstræti að göngugötu og endurvekja útimarkað þar, en þó í góðri sátt og samvinnu við hagsmunaaðila.
- Áframhaldandi uppbygging bílastæðahúsa í miðbænum, til að mynda með stóru bílastæðahúsi undir Arnarhóli. Til eru teikningar sem Línuhönnun gerði að bílastæðahúsi þar með 950 stæðum. Svipur Hólsins þarf ekkert að breytast við þessa framkvæmd.
- Rétt væri að bjóða út rekstur bílastæðahúsa. Nýir aðilar gætu boðið upp á bílaþvott og sótt bíla og boðið upp á ýmsa aðra þjónustu og gert húsin notendavænni.
- Engar frekari hækkanir verði á bílastæðagjöldum en kannaðir í þaula möguleikar á að koma upp kerfi „free-parking” að fyrirmynd nágrannaþjóða. Gera mætti tilraunir með slíkt á nýjum langtímastæðum við Skúlagötu.
- Gætt verði samráðs við kaupmenn og fasteignaeigendur við Laugaveg þegar teknar eru stórar ákvarðanir er varða götuna og komið á fót varanlegum samstarfsvettvangi hagsmunaaðila, ríkis og borgar er varðar málefni miðborginnar að breskri fyrirmynd, PPP.
- Slíkur samráðsvettvangur geri uppbyggingaráætlanir til mjög langs tíma, meðal annars með skýrum takmörkunum á fjölda veitingastaða, þannig að verslunarsvæði haldi sér. Hugsa þarf miðborgina alla sem eitt hús. Best væri ef bílastæðasjóður og skipulagssjóður borgarinnar yrðu settir undir slíka miðborgarstjórn, sem þá færi með raunveruleg völd um framþróun miðborgarinnar.
- Laugavegurinn er verslunargata samkvæmt skipulagi og skulu aðgerðir borgaryfirvalda er varða götuna taka mið af því hvernig verslun megi dafna sem best. Verslunin sé í forgrunni við þessa einu verslunargötu borgarinnar. Á þetta skortir mjög í aðalskipulagsdrögunum.
- Engar frekari tálmanir verði lagðar við uppbyggingu nútímaverslunarhúsnæðis við götuna og þar í grennd. Fylgt verði hugmyndum sem fram komu í skýrslu samráðshóps um þau málefni á sínum tíma, þannig að gætt verði heildarsvipar götunnar og ný hús byggð sem falla vel að umhverfi sínu. Þess verði gætt að gengið sé inn af götuhæð í nýbyggingar svo hjólastólar komist greiðlega inn. Fyllt verði upp í götumyndina á nokkrum stöðum með nýbyggingum sem þá falla vel að umhverfi sínu.
- Fasteignagjöld verði felld niður af nýbyggingum þar sem borgaryfirvöld vilja að ákveðin uppbygging eigi sér stað, til dæmis að hús hafi ákveðinn svip eldri tíma, s.k. Chicago-aðferð.
- Þess verði vandlega gætt að nægur fjöldi bílastæða verði í kjöllurum undir nýbyggingum til að magna ekki bílastæðavandann.
- Fasteignagjöld í miðborginni verði lækkuð til muna til að laða að fjölbreytta starfsemi.
- Hluta þess fjár sem verja á til eflingar strætisvagna verði varið til að bæta almenningssamgöngur í miðborginni. Til dæmis með litlum strætisvagni sem æki niður Laugaveginn.
- Komið verði fyrir skemmtiferðaskipalægi við Hörpuna.
- Í nýrri ráðstefnumiðstöð og hóteli á hafnarbakkanum verði byggt upp fjölsalakvikmyndahús.