Borgarstjóri efndi til fundar í Tjarnarbíói með hagsmunaaðilum í miðborginni miðvikudaginn 15. maí. Þar voru fyrirhugaðar framkvæmdir við Hverfisgötu, Frakkastíg og Klapparstíg kynntar, auk þess sem borgaryfirvöld sögðu frá áformum um lokun Laugavegar nú í sumar.
Á fundinum komu fram hörð mótmæli við það fullkomna samráðsleysi sem einkennt hefur undirbúning allra þessara framkvæmda. Rekstraraðilar við Hverfisgötu sem tóku til máls á fundinum höfðu fyrst síðastliðinn mánudag fengið upplýsingar um framkvæmdirnar.
Þá var það gagnrýnt á fundinum að framkvæmdatíminn væri alltof langur og ljóst að rask sem þeim fylgir er allsendis óviðunandi með tilliti til hvaða atvinnurekstrar sem er. Á fundinum var meðal annars bent á að verslanir hafa margs sinnis flosnað upp vegna framkvæmda sem drógust úr hömlu – engir viðskiptavinir gátu þá komist að fyrirtækjunum. Það er lágmarkskrafa að hagsmunaaðilum á svæðinu sé kynntar framkvæmdir með löngum fyrirvara. Margir þurfa að haga innkaupum í samræmi við fyrirsjáanlega minnkandi veltu vegna framkvæmdanna. Og þá er að sama skapi ekki nema eðlilegt að þeir sem reki starfsemi í miðbænum séu inntir álits á grundvallarbreytingum á umhverfi sínu. Slíkar breytingar eru ekki einkamál borgaryfirvalda.
Lokun Laugavegar næsta sumar var mikið til umræðu á fundinum, en borgaryfirvöld vísuð meðal annars til könnunar sem svokallaður „Borghildarhópur“ hefur gert, en sú könnun er algjörlega á skjön við aðrar kannanir og ljóst að hún er ekki gerð með marktækum hætti. Mælingar á innstigum í verslanir segja heldur ekkert til um aukna veltu og fyrir liggur að víða er mjög mikill samdráttur í verslun þann tíma sem götunni er lokað. Borgaryfirvöld hyggjast þó hafa Laugaveginn opinn að morgni til í sumar milli klukkan átta og tólf. Sú ráðstöfun dregur úr tjóninu af lokun, en skaðinn er eftir sem áður mikill.
Margir verslunareigendur við Laugaveginn eru einyrkjar sem eru með allan sinn lífeyrissjóð – allan sinn sparnað – bundinn í fasteigninni og rekstrinum. Það er algjör forsendabrestur fyrir fjárfestingu þessara einstaklinga ef borgaryfirvöld taka sig einhliða til og loka götunni eða hækka bílastæðagjöld upp úr öllu valdi. Fjölmarga aldraða og öryrkja þarf að aka upp að dyrum verslana. Gestir Hótels Fróns þurfa til að mynda að rogast með töskur sínar upp Klapparstíginn þegar Laugavegurinn er lokaður. Ýmsar vörur verslana eru þess eðlis að þær þarf að afgreiða beint í bifreiðar.
Borgaryfirvöld hafa um áratugaskeið sýnt kaupmönnum mikið tillitsleysi, nægir að nefna lokun Austurstrætis 1973. Hver einasti kaupmaður við götuna mótmælti þeirri framkvæmd á sínum tíma. Lokunin varð banabiti verslunar í Kvosinni, á svæði sem áður var miðpunktur verslunar á höfuðborgarsvæðinu. Hér er ekki einasta um tillitsleysi að ræða gagnvart kaupmönnum heldur líka lítilsvirðingu.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru það dugmiklir kaupmenn, konur og karlar sem staðið hafa vaktina í sínum verslunum um áratugaskeið, sem gera miðbæinn að því sem hann er. Borgarfulltrúar koma og fara, flestir þeirra hafa aðeins setið í embætti í þrjú ár. Margir kaupmenn eru með fjörutíu – fimmtíu ára reynslu af verslun í miðbænum og koma jafnvel úr fjölskyldum sem rekið hafa verslanir í meira en öld. Líkt og sjá má víða hér á síðunni hafa kaupmenn reynst sannspáir um flest í þróun miðbæjarins.
Það væri óskandi að meira mark yrði í framtíðinni tekið á kaupmönnum því án blómlegrar verslunar er engin miðbær.