Stjórn Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg átti fund með Júlíusi Vífli Ingvarssyni borgarfulltrúa sl. föstudag. Á fundum bar margt á góma og mikið var rætt um leiðir til að efla verslun og mannlíf í miðbænum.
Júlíus kvaðst mjög vilja skoða möguleika á að koma á PPP fyrirkomulagi aftur, það er Public Private Partnership, sem notast er við í miðborgum Bretlands og hefur verið þeirra helsta vörn gegn hnignun.
Í því felst að sett er á fót sameiginlegt ráð yfirvalda og hagsmunaaðila sem hefur raunverulegt vald yfir miðbænum og getur þá tekið ákvarðanir til langs tíma og miðbænum verði þannig hlíft við pólitískum dægurflugum, líkt og skyndilokunum gatna og hækkun bílastæðagjalda um tugi prósenta.
Stjórn Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg þakkar Júlíusi kærlega fyrir fundinn og vonar að borgarfulltrúar muni sína verslun og öðru athafnalífi í miðbænum aukinn skilning á komandi misserum.