Aðalfundur Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg var haldinn á Hótel Holti í hádeginu í dag, 14. mars. Á dagskrá fundarins voru venjuleg aðalfundarstörf, en auk þess flutti heiðursgestur fundarins, Pétur Sveinbjarnarson, fyrrv. framkvæmdastjóri Þróunarfélagsins, ávarp.
Bolli Kristinsson var endurkjörinn formaður, Gunnar Guðjónsson kosinn varaformaður og aðrir í stjórn eru Helgi Njálsson, Hildur Símonardóttir og Jón Sigurjónsson. Í varastjórn völdust Brynjólfur Björnsson og Hallgrímur Sveinsson.
Pétur Sveinbjarnarson rifjaði í ávarpi sínu upp störf sín með Þróunarfélaginu um 1990 og hvað hefði áunnist á þeim tíma. Hann ræddi einnig um framtíðina og mikilvægi þess að borgaryfirvöld taki á nýjan leik upp samvinnu við hagsmunaaðila í miðbænum og komið verði á fót nýrri miðbæjarstjórn, þar sem í eigi sæti fulltrúar ríkis, borgar, hagsmunaaðila úr verslun og þjónustu, auk íbúa. Ef vel ætti að takast til þyrfti að setja skipulagssjóð borgarinnar, sem og bílastæðasjóð undir slíkt ráð. Nefndi hann sem dæmi það forgangsmál að komið verði á fót verslunarkjörnum milli Laugavegar og Hverfisgötu og að stórátak verði gert í bílastæðamálum, til að mynda með bílastæðahúsi undir Arnarhóli.
Pétur nefndi einni í ræðu sinni að rétt væri að flytja Listasafnið úr Hafnarhúsinu og sameina það Kjarvalstöðum í eitt myndarlegt listasafn. Hafnarhúsið yrði á hinn bóginn nýtt sem miðstöð hönnunar, með verslunum og vinnustofum. Í þessu sambandi nefndi hann sem dæmi að stærðin segði ekki allt um mikilvægi – þannig hafi Bæjarins beztu miklu meiri þýðingu fyrir miðbæinn heldur en Listasafnið í Hafnarhúsinu. Þá kom Pétur með þá snilldarhugmynd að lappað yrði örlítið upp á búning stöðumælavarða og þeim breytt í miðbæjarþjóna, sem yrðu gestum og gangandi til leiðsagnar um miðbæinn. Sömuleiðis taldi hann mikilvægt að miðbæjarstrætó hæfi á ný akstur.
Pétur segir það grundvallaratriði í allri umræðu um þessi mál að hugsa verði miðbæinn sem eitt hús allt frá Aðalstræti og upp á Hlemm.
Fundurinn samþykkti svohljóðandi ályktun:
„Aðalfundur Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg harmar tillitsleysi borgaryfirvalda gagnvart verslun við götuna. Í sumum málum mæta kaupmenn hreinum fjandskap borgaryfirvalda, til að mynda þegar kemur að lokun götunnar og hækkun bílastæðagjalda, sem hvort tveggja hefur stórskaðað verslun á svæðinu. En einnig má minna á minni á aðgerðir eins og bann við skiltum sem skyndilega var sett á síðastliðið sumar með miklu offorsi og þegar hjólreiðar voru á nýjan leik leyfðar á gangstéttum, sem skapar stórhættu fyrir gangandi vegfarendur.
Í þessum málum sem öðrum er ekkert samráð haft við kaupmenn eða fasteignaeigendur, sem sumir hverjir hafa staðið í atvinnurekstri við götuna í um og yfir hálfa öld og fjárfest mikið við götuna, jafnvel fyrir hundruð milljóna króna.
Næsta sumar standa fyrir dyrum framkvæmdir við Klapparstíg, Frakkastíg, Hverfisgötu, Laugaveg og Snorrabraut og munu þær að einhverju leyti standa yfir fram í nóvember, að því áætlað er. Á sama tíma og svo stórkostlegar framkvæmdir standa fyrir dyrum er fráleitt að loka einnig Laugavegi fyrir bílaumferð. Aðgengi að verslunum við Laugaveg og nálægar götur verður þá ekkert, nema menn fari fótgangandi nokkur hundruð metra. Allir sem starfrækt hafa verslun vita hversu nauðsynlegt er að tryggja gott aðgengi, en lokun götunnar fyrir bílaumferð undanfarin ár hefur leitt til mikils samdráttar í verslun, líkt og veltutölur frá ríkisskattstjóra bera vitni um.
Kaupmönnum og fasteignaeigendum við Laugaveg er ljóst að róttækra aðgerða er þörf til að sporna við viðskiptaflótta úr götunni. Laugavegurinn getur aftur orðið miðstöð verslunar í Reykjavík, en til að svo megi verða þarf að grípa til róttækra aðgerða sem ekki munu ná fram að ganga nema í góðu samstarfi við borgaryfirvöld. Samtökin skora því á borgaryfirvöld að leita samstarfs við kaupmenn og fasteignaeigendur við götuna, sér í lagi þá aðila sem mesta reynslu hafa og sýnt hafa miðbænum mesta tryggð um áratugaskeið.
Án blómlegrar verslunar er engin miðborg.“