Samtökum kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg bárust á dögunum upplýsingar frá Ámunda V. Brynjólfssyni, skrifstofustjóra samgöngusviðs Reykjavíkurborgar, varðandi framkvæmdir við Laugaveg og í nágrenni götunnar næsta sumar.
Svarbréf Ámunda er svohljóðandi:
Klappastíg milli Hverfisgötu og Skúlagötu á að endurgera í sumar. Áætlað er að meginframkvæmdir standi yfir frá byrjun apríl og fram í ágúst en lokafrágangur einkum gróðursetning verði í september.
Einnig er áformað að endurgera hluta Hverfisgötu og Frakkastígs. Unnið er að forhönnun þessara verkefna og er áformað að henni ljúki í næsta mánuði. Í framhaldi af því munu verða lagðar línur um hvað kemur til framkvæmda á þessu ári en reiknað er með að framkvæmdir standi yfir frá Júní og fram í nóvember
Á Snorrabraut í ár verða einungis bráðabirgðaaðgerðir sem munu ekki trufla umferð. Aðrar breytingar á Snorrabraut eru óráðnar.
Ég á von á því að bílaumferð verði takmörkuð á Laugavegi í sumar eins og undanfarin sumur, en tímasetningar eru ekki frágengnar. Framkvæmdir eru fyrirhugaðar á Laugavegi ma. Til að bæta ásýnd götunnar. Undirbúingur er að byrja og framkvæmdatími enn óráðinn.
Af þessu má ljóst vera að rask vegna framkvæmda í nágrenni götunnar er það mikið að lokun mun svo til gera viðskiptavinum ókleift að komast að stórum hluta miðbæjarins.
Það er fyrir löngu orðið tímabært að borgaryfirvöld taki tilliti til aðgengis að verslunum þegar framkvæmdir standa yfir, en láti þær ekki vara fram eftir öllu hausti, líkt og nú er áformað. Þær eru ófáar verslanirnar sem hafa lagt upp laupana vegna þess að framkvæmdir hafi dregist úr hófi.
Í ljósi þeirra miklu framkvæmda sem nú standa fyrir dyrum gæti lokun Laugavegar orðið enn meira áfall fyrir verslun við götuna en undanfarin ár.