Í desembermánuði 1963 birtist í Vikunni býsna áhugaverð skipulagstillaga fyrir miðbæ Reykjavíkur, sem tveir ungir arkítektar, þeir Haraldur V. Haraldsson og Ormar Þ. Guðmundsson höfðu þá nýlega unnið, sem námsverkefni í skipulagsfræðum við Tækniháskólann í Stuttgart. Þó svo að hugmyndir þessara ungu manna séu allsvakalegar í huga okkar nútímamanna, þá er margt athyglisvert þar að finna. Þeir lögðu til að mynda áherslu á að miðbærinn yrði ekki fluttur annað, en síðar varð sú hugmynd ofan á að reisa nýjan miðbæ í Kringlumýri, en áður en af þeim framkvæmdum varð hafði verslun og þjónusta dreifst um borgarlandið. – Ekki hvað síst vegna ístöðuleysis borgaryfirvalda við uppbyggingu í gamla bænum.
Grípum niður í umfjöllun Vikunnar:
„Reykjavík er borg í örum vexti. Hún hefur 80 þúsund íbúa, og um síðustu áramót voru 10.053 bílar skráðir í borginni. Árið 1980 er áætlað, að íbúarnir verði 160 þúsund, og eftir því hlutfalli ættu bílarnir að verða orðnir 21500. Þetta bendir til þess, að þótt Reykjavík sé nú lítil borg á heimsmælikvarða, verði hún á næstu áratugum öflug borg með fjölskrúðugu lífi, og ef vel tekst til, borg með svipmót stórborgar og höfuðborgar.
En til þess þarf að færa ýmislegt í lag og breyta öðru. Þar á meðal þarf að blása nýju lífi um kjarna (center) borgarinnar. Komið hafa fram tillögur um að flytja kjarnann frá gamla miðbænum og endurreisa hann á öðrum stað innan borgarmarkanna. Ýmsir hafa litið á flugvallarsvæðið sem hugsanlega og eðlilega viðbót við núverandi kjarna, enda verði Reykjavíkurflugvöllur fluttur á annan og heppilegri stað. Aðrir staðir hafa einnig verið nefndir, svo sem Kringlumýrarsvæðið sunnan Miklubrautar og niður í Fossvog.
VIKAN hafði spurnir af því, að nýkomnir væru heim frá námi í skipulagsfræðum við Tækniskólann í Stuttgart, tveir ungir arkitektar, Ormar Þ. Guðmundsson og Haraldur V. Haraldsson, sem einmitt hefðu fengið að spreyta sig á því verkefni, að gera tillögu að nýjum kjarna í Reykjavík. Þetta verk unnu þeir ásamt þýskum skólabróður sínum, Romin Köbel, undir handleiðslu Rolf Gutbier, prófessors í skipulagsfræðum. Tillaga þeirra var sýnd á sýningu, sem Tækniháskólinn í Braunsweig efndi til með skipulagsverkum frá öllum Tækniháskólum í Þýskalandi, og vakti tillagan um kjarna Reykjavíkur mikla athygli. VIKAN gekk því á fund þeirra félaga, og fékk leyfi til þess að birta myndir og frásögn af skipulagsteikningu þeirra og módelinu, sem þeir gerðu af nýjum miðbæ í Reykjavík.
Þeirra tillaga setur nefnilega fram allróttækar og ákveðnar skoðanir um hvar og hvernig borgarkjarninn skuli vera. Andstætt þeim hugmyndum, sem að framan eru nefndar, að búa til nýjan kjarna á nú óbyggðum eða lítt byggðum stað í borgarlandinu, leggja þeir Ormar og Haraldur aðaláhersluna á gildis- og afkastaaukningu gamla miðbæjarins. — í viðtali við blaðið lýstu þeir tillögum sínum svo:
— Í Reykjavík sameinast flestir sterkustu þættir íslensks þjóðlífs. Sem höfuðborg er hún aðsetur alþingis, hæstaréttar og ríkisstjórnar, en hún er jafnframt miðstöð allrar verslunar, bæði innanlands og utan. Hér er iðnaðurinn öflugastur og fjármagnið mest. Og í Reykjavík er aðsetur helstu menningar- og listastofnana landsins. Lega borgarinnar verður að teljast allgóð. Að vísu nokkuð næðingssöm, en með fallegum vogum frá náttúrunnar hendi og fagurri útsýn í ýmsar áttir, góðum hafnarskilyrðum og jarðhita. En hún á fá gömul, falleg hús svo ekki sé talað um götur eða hverfi. Og hið nýja hefur víðast hvar ekki náð að vaxa saman, svo það er engin furða, þótt útlendingar sem hingað koma, líki borginni okkar stundum við gullgrafarabæ, eða í besta lagi sambland af gullgrafarabæ og „próvins“borg. Miðbærinn, hjarta borgarinnar, er hvað þetta snertir eins og flestir aðrir hlutar hennar. Eldvarnarveggir, eyður, bárujárnskumbaldar á víð og dreif innan um.
Þrátt fyrir þetta er margt gott um miðbæinn að segja. Lega hans getur varla verið betri, milli hafnarinnar og Tjarnarinnar, með hæðirnar sína hvorum megin. Aðkoman að miðbænum er mjög glæsileg, hvort heldur komið er landveg niður Hringbraut, inn Sóleyjargötu og Fríkirkjuveg eða af hafi inn Flóann. Vegna legu sinnar einnar er Miðbærinn því kjörinn til að vera, einnig í framtíðinni, hjarta borgarinnar. Þar við bætist, að í Miðbænum eru margir fallegir staðir og verðmætar byggingar, sem krefjast þess, að ekki sé hætt við hálfnað verk, heldur bærinn byggður upp með tilliti til þessara bygginga, en samkvæmt ströngustu kröfum, sem gerðar eru til nútíma miðborga. Í tillögu okkar er tekið tillit til flestra varanlegra húsa, sem nú standa í miðbænum, nema hvað við gerðum ráð fyrir Grjótaþorpinu, eins og það var, áður en Morgunblaðshöllin var reist, þótt að sjálfsögðu hafi okkur aldrei dottið í hug, að slíkt væri raunhæft. Tillöguna ber fyrst og fremst að líta á sem skipulagshugmynd í stórum dráttum.
Samkvæmt tillögum útreikninga okkar, fullnægir miðbæjarsvæðið þörf miðbæjarkjarnans næstu áratugi, en vaxtarmöguleikar eru inn eftir Laugavegi og Hverfisgötu. Einnig verður að reikna með einhvers konar miðbæjarmyndun á flugvallarsvæðinu, þótt það eigi annars fyrst og fremst að fara undir íbúðarbyggingar til styrktar hinum eiginlega miðbæ.
Og þá er næst að lýsa skipulaginu eins og við höfum gert ráð fyrir því:
Við gengum fyrst og fremst út frá því, að Reykjavíkurflugvöllur yrði að fara þaðan, sem hann nú er. Í upphafi hugsuðum við okkur, að flytja miðstöð borgarlífsins út á flugvöllinn, en hurfum fljótt frá því ráði, einkum vegna þess, að slík miðstöð hefði ekki tekið nema mjög lítinn hluta af öllu því flæmi. Önnur ástæða var sú, að í gamla miðbænum er allt raunverulegt viðskiptalíf, þar er fjárfestingin og peningarnir, sem er undirstaða allrar borgarbyggingar. Okkur varð því ljósara, sem við sökktum okkar lengra niður í viðfangsefnið, að hinn gamli kjarni borgarinnar yrði að halda sér og myndi alltaf halda sér. Allar bollaleggingar um að, flytja hann yrðu lítt framkvæmanlegar.
Við snerum því aftur ofan í miðbæ og komumst að þeirri niðurstöðu, að elsti kjarninn, Austurvöllur og svæðið kringum hann, Dómkirkjan og Alþingishúsið, væri hinn eiginlegi miðdepill. Kringum miðpunktinn röðuðum við svo annarri starfsemi, sem heyrir miðborgum til, og höfum reynt að láta hvað taka við af öðru og mynda sem samfelldasta heild.
Áður en við hófum skipulagninguna, fengum við upplýsingar um, hvaða hús á þessu svæði væru byggð úr varanlegu efni, steini, og höfum alls staðar leitast við að láta þær byggingar halda sér, en nær eingöngu skáldað í skörðin, þar sem gömul hús standa nú fallandi fæti.
Næstum eina undantekningin frá þessu er Morgunblaðshöllin, sem við tókum okkur bessaleyfi til að fella, eins og fyrr segir. — Þannig standa áfram helstu hús, þar sem við höfum gert ráð fyrir menningarhverfi, en það er umhverfis Þjóðleikhúsið og Landsbókasafnið. Þar innar af, nær Smiðjustígnum, höfum við gert ráð fyrir tilraunaleikhúsi, hátíðahúsi niður í Skuggahverfi og leikhúskaffi á torgi gegnt Þjóðleikhúsinu.
Hverfisgatan verður aðal umferðaræð í tvær áttir um þetta hverfi, með vösum til beggja hliða við Þjóðleikhúsið. Þar geta bílar numið staðar til þess að hleypa fólki út og inn, en síðan verður farið með þá í bílageymslur, sem verða neðan jarðar.
Úr menningarhverfinu er skammur gangur í verslanahverfið, en þau eru tengd með göngubrúm yfir Hverfisgötu. Verslanahverfið verður á mörgum hæðum við Laugaveg neðanverðan og Bankastræti. Þær götur verða lokaðar fyrir bílaumferð, nema neðstu hæðirnar, sem verða bílageymslur. Úr þeim er síðan gengið upp á efri hæðirnar, sem verða eingöngu fyrir fótgangandi fólk, með verslunum, skemmtistöðum, matsölum og þvíumlíku.
Suður af þessu verslanahverfi gerum við svo ráð fyrir nokkrum háhúsum, blokkum með íbúðum ekki síst fyrir þá sem atvinnu sína hefðu í nærliggjandi atvinnuhverfum. í þessum háhýsum yrðu þægilegar íbúðir og að sjálfsögðu gróður í kring, íbúunum til ánægjuauka, en gera má ráð fyrir, að þarna byggju helst einhleypingar, þar sem fjölskyldufólk myndi frekar kjósa að búa í úthverfum og aka til vinnu sinnar. En það hefur ýmsa kosti, einkum fyrir einhleypinga, sem verða að matast að jafnaði á matsölustöðum, að geta haft bústað sinn sem allra næst hjarta borganna. Þar við bætist, að víða um heim er það að verða mikið vandamál, að miðborgirnar deyja klukkan fimm á daginn. Með því að setja hagkvæma bústaði svona nálægt, og í jafn miklum tengslum við kjarnann sjálfan, ætti að verða komið í veg fyrri slíka þróun, eftir því, sem við verður ráðið.
Verzlanahverfið er tengt með göngubrúm yfir Lækjargötu niður í gamla kjarnann, þar sem bankar og sérverslanir verða til húsa. Það hverfi verður sem allra mest lokað fyrir umferð, en hugsanlegt er þó, að bílastöður verði leyfðar við mæla í Austurstræti. Ætlast er til, að hægt sé að aka upp að þessu hverfi beggja megin, en bílar síðan geymdir í bílageymslum neðst í Bankastræti eða undir Grjótaþorpi, meðan erindum er sinnt í bankahverfinu. Í Grjótaþorpi verður síðan miðstöð viðskiptalífsins, þar sem viðskiptajöfrar landsins hafa sínar skrifstofur. Undir því hverfi verður auðvelt að koma fyrir góðum bílageymslum á mörgum hæðum, því hallamismunur á Garðastræti og Aðalstræti er 9 metrar. — Við höfum gert ráð fyrir því, að Aðalstræti haldi áfram í beinu framhaldi af Suðurgötu að Tryggvagötu, og þær götur verði með akstri í báðar áttir.
Reykjavíkurhöfn, þar sem hún nú er, verður eingöngu fyrir farþegaskip og lystibáta. Lysti bátahöfnin verður milli Ægisgarðs og Ingólfsgarðs, og þarupp af gerðum við ráð fyrirklúbbhúsi fyrir sjávarsport og ef til vill skemmtilegum fiskmarkaði, svipuðum hrognkelsasölunni á vorin. Í krikanum við enda Geirsgötu gerðum við svo ráð fyrjr Skipaafgreiðsluhúsi, sem svaraði til flugafgreiðslu á flugvöllum o.s.frv.
Virðulegasti hluti miðbæjarins er én efa gamli kjarninn — Austurvöllur og umhverfi Dómkirkjunnar og Alþingishússins. Við höfum því sett ráðhús borgarinnar við norð-vestur enda Tjarnarinnar, í nátengdu sambandi við þennan kjarna. Ráðhúsið höfum viðætlað upp á 20 hæðir með lágum þingsal fyrir framan. Jafnframt höfum við fært Tjarnarendann þangað sem hann áður var, upp að Þinghússgarðinum. Gegnt þessum virðulega hluta við nyrðri Tjarnarendann settum við svo annan, engu ómerkari við suðurenda Tjarnarinnar. Við gengum út frá því, að með vaxandi fjölda þjóðarinnar yrði Alþingishúsið of lítið, og ekki væri heldur nógu góður menningarbragur á því, að hafa sitt á hverjum stað, og sumt jafnvel á tveimur stöðum, löggjafarþing þjóðarinnar, stjórnarráðið, hæstarétt og opinbert móttökuheimili forsetans og ríkisstjórnarinnar. Þess vegna settum við þetta allt á einn stað við Tjöinina, á svipuðum slóðum og hafmeyjan sat forðum.
Þinghúsið látum við standa að nokkru úti í Tjörninni, en síðan stjórnarráðið, hæstarétt og opinbert móttökuheimili litlu sunnar. Þegar komið væri til borgarinnar landveg, um Miklubraut og Hringbraut, myndi þetta stjórnaraðsetur bera tígulega yfir iðgrænan og gróskumikinn Hljómskálagarðinn, og síðan, þegar komið væri inn á Fríkirkjuveg og Lækjargötu, tæki ráðhúsið og Austurvallarhverfið við.
Og loks, syðst í þessu skipulagi okkar, kæmi svo háskólahverfi, með öllum þeim byggingum og stofnunum, sem því til heyra. Þar myndi háskólabyggingin, sem nú stendur, vera aðalkjarninn og allt miðast við hana, en aðrar byggingar koma útfrá henni í austur og niður í Vatnsmýrina. Við teljum það ráðlegra, heldur en fara með byggingar háskólans vestur yfir Suðurgötu. Þarna gæti risið mjög skemmtilegt menntahverfi, og til yndisauka gerum við ráð fyrir því, að Tjörn verði grafin undir Hringbrautina og næði út í þetta hverfi. Það yrði mjög auðvelt í framkvæmd.
Við höfum leitazt við að fá sem samfelldastan heildarbrag á allt svæðið, og láta hvað leiða af öðru, eftir því sem kostur er. Ráðhúsið yrði gnæfandi bygging, sem setti svip á borgina langt að, hvort sem komið er að á landi eða sjó. Þeir, sem koma sjóveginn, eiga aðeins fárra mínútna gang til þess að komast í kjarna borgarinnar, en fyrir þá, sem koma landveg, myndar stjórnarsetrið við Tjörnina, virðulega en látlausa mynd yfir Hljómskálagarðinn, en síðan gegnt þeim byggingum hið nýja ráðhús og gömlu, sérkennilegu og fallegu húsin okkar, Dómkirkjan og Alþingishúsið gamia, sem þá yrði væntanlega þingminjasafn.
En eitt viljum við taka fram: Þótt þessi skipulagsuppdráttur okkar spanni yfir þennan borgarhluta með ákveðnum aðalatriðum, yrði að sjálfsögðu að breyta honum og vinna hann betur í mörgum einstökum atriðum, ef ákveðíð yrði að Ieggja hann að einhverju leyti til grundvallar í uppbyggingu nýs Miðbæjar í Reykjavík.“