Viðtal við Bolla Kristinsson, formann Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg
Bolli Kristinsson er flestum kunnur, en hann hefur löngum verið kenndur við verslunina Sautján, sem hann stofnaði árið 1976. Bolli fæddist og ólst upp við Laugaveginn og hefur rekið fjölda verslana við götuna, svo segja má að hann sé bundinn Laugaveginum traustum böndum. Hann er nú formaður Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg.
„Ég fæddist við Laugaveginn og bjó þá á Laugavegi 49. Seinna bjó ég á Laugavegi 51. Ég opnaði mína fyrstu verslun á Laugaveginum árið 1974, en það var verslunin Úr & klukkur á Laugavegi 3. Ég seldi hana síðan til Gilberts Guðjónssonar úrsmiðs sem enn rekur úrsmíðaverkstæði við götuna og flestir þekkja. Árið 1976 opnaði ég fyrstu Sautján verslunina að Laugavegi 46. Á þeim árum var slegist um hvert það verslunarpláss við götuna sem losnaði. Fyrir að Laugavegi 46 var Dömu- og kápubúðin og ég gat ekki fengið húsnæðið leigt öðruvísi en að kaupa lager Dömu- og kápubúðarinnar. Sautján fluttist fljótlega yfir götuna í nýbyggt hús í eigu mín og föður míns að Laugavegi 51, en verslunin varð mjög vinsæl í nýjum húsakynnum. Síðar opnaði ég verslun á Laugavegi 33 og rak hana jafnhliða. Enn síðar eignaðist ég verslanirnar Gallery og Evu á Laugavegi 42. Ég byggði við og stækkaði stórhýsið að Laugavegi 91, en þangað fluttu Gallery og Eva, og þar opnaði Sautján einnig í nóvember 1990. Árið 1996 byggði ég húsið að Laugavegi 89 og þá voru verslanirnar í þeim húsum, Laugavegi 89 og 91, samtals á 3200 fermetrum.“
En hvernig var að opna verslun svo ofarlega við götuna?
„Þegar Sautján opnaði að Laugavegi 91 var frekar lítið um góðar verslanir við ofanverða götuna, en í kjölfar opnunar Sautján hússins tók verslunin allt í kring að blómstra. Eftir að ég seldi verslunina ákvað nýr eigandi að fara með megnið af versluninni inn í Smáralind og Kringlu. Þá hnignaði verslun aftur á þessum efsta hluta Laugavegar. Nú hefur hönnunarmiðstöðin ATMO opnað í þessu sama húsi vonandi tekur verslunin við sér í nágrenninu.“
Þú hefur lifað tímana tvenna í verslun og horft upp á hnignun og ris við Laugaveginn, hvernig hefur þróun miðborgarinnar verið frá því að þú hófst rekstur?
„Kvosin var áður aðalverslunarsvæði borgarinnar. Eftir að Austurstræti var breytt í göngugötu á áttunda áratugnum hörfaði verslunin af svæðinu og nú er þar aðallega að finna veitingastaði, listasöfn og aðra menningarstarfsemi og ágætt að haldið verði áfram þar á þeirri braut. Ég myndi gjarnan vilja sjá Listaháskólann rísa í Kvosinni, en að Laugavegurinn fengi að þróast sem góð verslunargata, líkt og Strøget í Kaupmannahöfn, en þó með fljótandi umferð bíla. Hér á landi eru ekki forsendur fyrir göngugötum. Til að göngugata geti virkað vel þurfa að vera til staðar öflugar almenningssamgöngur og ódýr bílastæði nærri verslunarsvæðinu. Veðráttan hér gerir göngugötur heldur ekki sérlega fýsilegan kost. Það er í raun ótrúlegt að borgaryfirvöld séu að reyna að breyta Laugaveginum í göngugötu í óþökk meirihluta rekstraraðila við götuna – okkur sem höfum starfað hér í áratugi, byggt upp okkar fyrirtæki og fjárfest mikið við götuna. Síðan lætur borgin gera skoðanakannir fullar af rangfærslum til að réttlæta þessar aðgerðir sínar. Við kaupmenn höfum reynt að koma skilaboðum til borgaryfirvalda um það sem betur mætti fara í þessum efnum, en þau hunsa öll okkar ráð og vilja ekkert samstarf við okkur hafa.“
En hvernig hefur samstarf kaupmanna við borgaryfirvöld verið í tímans rás?
„Það má segja að ég hafi verið í stjórn allra samtaka miðborginnar og Laugavegsins frá 1975. Margir merkiskaupmenn komu að þeim málum, svo sem Sigurður E. Haraldsson, kenndur við Verslunina Elfur, sem var formaður Laugavegssamtakanna, og Guðlaugur Bergmann í Karnabæ sem var formaður Gamla miðbæjarins. Guðlaugur var óþreytandi í baráttu sinni fyrir miðborginni, en hinar myndarlegu verslanir hans í Austustræti; Karnabær, Bonaparte og Garbo urðu göngugötunni að bráð.
Ég starfaði með Ingibjörgu Sólrúnu að málefnum miðborginnar í borgarstjóratíð hennar og áttum við mjög farsælt samstarf. Hún ákvað að koma á fót miðborgarstjórn, þar sem í áttu sætu jafnt hagsmunaaðilar, sem fulltrúar borgarinnar, en þetta var gert að breskri fyrirmynd. Þar í landi nefnist þetta samstarf PPP, sem stendur fyrir Public Private Partnership, en um 400 breskar borgir starfa með þessum hætti að miðborgarmálum og PPP hefur verið helsta vörn þeirra gegn hnignun. Miðborgarstjórnirnar taka á ýmsu sem aflaga fer í miðborgum svo sem glæpum, veggjakroti o.s.frv. Ótrúlegur árangur náðist í tíð Ingibjargar Sólrúnar og sorglegt að því starfi skyldi ekki fram haldið. Þessi vinna var í takti við starf Davíðs Oddssonar borgarstjóra og Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarfulltrúa á sínum tíma undir merkjum Þróunarfélags Reykjavíkur, sem Pétur Sveinbjarnarson veitti forstöðu. Þar var unnin mjög markviss og fín vinna í að styrkja miðborgina sem verslunarsvæði.
Starfsemi Þróunarfélagsins fór síðan út um þúfur þegar R-listinn komst til valda og Guðrún Ágústsdóttir borgarfulltrúi setti allan Laugaveginn undir það sem kallað var „byggðamynstursfriðun“. Þessi stefna átti mikinn þátt í að hrekja stórar og rótgrónar verslanir burt. Friðunin gerði úti um allar ráðagerðir um uppbyggingu verslunarhúsnæðis og margir flúðu þetta ótrygga umhverfi, sem fól meðal annars í sér stöðuga hækkun bílastæðagjalda, sífellt skerta þjónustu SVR, beygjubönn og hugmyndir um breytingu á stórum hlutum Laugavegar í göngugötu. Verslunin gat ekki þrifist undir þessum formerkjum. Húsaleiga fór lækkandi ár frá ári og verslunarhúsnæði varð óseljanlegt.“
En hvernig er staðan nú um stundir, er ekki sérstakt að borgaryfirvöld kjósi að loka Laugavegi í ljósi reynslunnar af lokun Austurstrætis?
„Í rauninni væri nærtækara að breyta Vonarstræti og Tjarnargötu í göngugötur heldur en Laugavegi. Hvernig ætli borgarfulltrúunum félli við svo skert aðgengi að vinnustað þeirra? – Eða þá að íbúðargötum þeirra yrði lokað – hvernig ætli aðrir íbúar við viðkomandi götur tækju í slíkt? Kaupmenn við Laugaveginn hafa fundið fyrir verulegum samdrætti þegar götunni er lokað fyrir bílaumferð og þau áhrif ná langt út fyrir þann kafla sem lokað hefur verið. Ég undra mig á því að valdamesti maður borgarinnar, Dagur B. Eggertsson, skuli láta þetta viðgangast, en hann hefur sannarlega önnur viðhorf en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem sýndi hagsmunamálum miðborgarinnar mikinn skilning í sinni borgarstjóratíð. Hún setti á fót miðborgarstjórn og átti gott samstarf við kaupmenn og aðra rekstraraðila í miðborginni. Að mínu mati er hún besti borgarstjóri miðborgarinnar af þeim borgarstjórum sem ég hef kynnst. Mér finnst skrítið að Dagur skuli ekki horfa til hennar farsælu starfa.“
Hvernig sérðu fyrir þér framtíð miðbæjarins? Hvers virði er miðbærinn fyrir okkur Reykvíkinga – já eða landsmenn alla?
„Reykjavík er ein besta borg í heimi til að búa í, við eigum hús til að þjóna öllum hlutum, flott gatnakerfi og torg, sundlaugar, íþróttamannvirki, útivistarsvæði og svo mætti lengi telja. En við eigum aðeins einn laskaðan miðbæ og ef hann deyr alveg verður borgin miklu fátækari. Miðbærinn hefur staðnað mikið síðustu áratugi og borgaryfirvöld hafa beinlínis staðið í vegi fyrir eðlilegri framþróun hans og þá hefur litlu skipt hvaða flokkar eru við völd. Tilkoma Torfusamtakanna batt nánast enda á uppbyggingu nútímaverslunarhúsnæðis í miðborginni, en Laugavegurinn samanstendur að miklu leyti af gömlum bárujárnshúsum sem fylla ekki upp í lóðirnar, en fæst þessara húsa voru byggð sem verslunarhús og þjóna því versluninni illa. Uppbygging verslunarhúsnæðis hefur því orðið annars staðar á höfuðborgarsvæðinu og nægir að nefna Kringlu og Smáralind sem dæmi. Skortur á góðu verslunarhúsnæði var aðalástæða þess að flestar betri verslana fluttu burt úr miðborginni. Ég vil þó taka fram að meðal friðunarsinna eru menn sem hafa mikinn skilning á þörfum verslunarinnar og langar mig sérstaklega að nefna þá Pétur Ármannsson arkítekt og Þorstein Bergsson hjá Minjavernd. Þeirra hófsömu viðhorf í friðunarmálum og skilningur á notagildi húsa eru góður grundvöllur að sátt milli friðunarsinna og uppbyggingarsinna.
Miðbærinn hefur alltaf verið mér mjög kær en sorglegt hefur verið að horfa upp á hvernig þessu verslunarsvæði hefur hnignað og fasteignir lækkað í verði. Mín stóru vonbrigði urðu á síðasta kjörtímabili þegar Sjálfstæðisflokkurinn var við völd. Flokkurinn hafði þá horfið frá þeirri stefnu sem Davíð Oddsson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson mörkuðu á sínum, sem byggðist á nánu samstarfi við kaupmenn. Á síðasta kjörtímabili voru verktakar og áhugasamir fjárfestar upp og niður götuna í startholunum að hefja gríðarlega uppbyggingu verslunar- og skrifstofuhúsnæðis sem hefði orðið alger bylting fyrir gamla miðbæinn. Þetta stóra tækifæri fór algjörlega forgörðum og í tíð Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili var ekki byggt eitt einasta hús við götuna þrátt fyrir mikinn vilja framtakssamra manna og næga fjármuni. Vonbrigði mín urðu svo mikil að ég treysti mér ekki á kjörstað í síðustu borgarstjórnarkosningum til að kjósa minn flokk eins og ég hef alla tíð gert, en ég hef stutt Sjálfstæðisflokkinn áratugum saman og unnið mikið fyrir flokkinn. Þetta var mér mjög þungbært.
Ég hvet hagsmunaaðila við Laugaveginn og annars staðar í miðborginni til að fylgjast vel með frambjóðendum fyrir næstu borgarstjórnarkosningar og greiða þeim atkvæði sem hugsa til miðborgarinnar. Miðborgin getur átt fyrir sér glæsta framtíð, en til að svo megi verða þarf að koma til samstillt átak hagsmunaaðila og borgaryfirvalda. Borgaryfirvöld verða að sýna vilja í verki og taka mark á þeim kaupmönnum sem starfað hafa í miðborginni áratugi, jafnvel í fimmtíu til sextíu ár og hafa mesta þekkingu á því hvað gagnast miðborginni. Ég vil að lokum hvetja kaupmenn og fasteignaeigendur við Laugaveg til að taka þátt í samtökum okkar og fylgjast vel með starfinu.“