Stjórnir Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg og Miðborgarinnar okkar héldu sameiginlegan stjórnarfund í ATMO húsinu Laugavegi 91, þriðjudaginn 27. nóvember sl. til að ræða um fyrirhugaða lokun götunnar næsta sumar. Til fundarins mættu Bolli Kristinsson, formaður Samtaka kaupmanna, Magnús Friðgeirsson í Kúnígúnd, formaður Miðborginnar okkar, Jón Sigurjónsson í Jóni & Óskari, Gunnar Guðjónsson í Gleraugnamiðstöðinni, Frank Ú. Michelsen í Michelsen úrsmiðum, Kristín Einarsdóttir í Sigurboganum, Karl Jóhann Jóhannsson í Aurum og Þuríður Hauksdóttir í Spútnik. Fundinn sátu einnig Jakob Frímann Magnússon, frkvstj. Miðborgarinnar okkar, og Björn Jón Bragason, frkvstj. Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg.
Bolli og Jakob höfðu stuttar framsögur um lokunarmálin, en í máli Bolla kom m.a. fram að Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg hafa leitað til ýmissa sérfræðinga til að tryggja rétt sinn í þessum málum og munu m.a. láta kanna skaðabótaskyldu borgaryfirvalda og leiðir til að fara fram á lögbann á lokun, ef ekki verður með nokkrum hætti komið til móts við kaupmenn í þessu máli – hart verður látið mæta hörðu. Jakob minntist á að innan stjórnar Miðborgarinnar okkar væru skiptar skoðanir um þetta efni, en stjórnarmenn væru engu að síður mjög óánægðir með framgöngu borgaryfirvalda í þessu efni.
Fundarmenn lýstu miklum áhyggjum af fyrirætlunum borgaryfirvalda um lokun næsta sumar, m.a. í ljósi þess að til stendur að endurnýja Frakkastíg og Hverfisgötu á sama tíma, en þær aðgerðir munu einar og sér torvelda aðgengi mikið. Þá var rætt um mögulegar leiðir til að koma til móts við borgaryfirvöld, m.a. með styttri lokunartíma, þannig að það verði opið á morgnana og kvöldin, eða einungis lokað á mestu blíðviðrisdögum.
Magnús Friðgeirsson, formaður Miðborgarinnar okkar, lýsti mikilli andstöðu við lokun, sem hefði skaðað sinn rekstur og undir það tóku flestir fundarmenn.
Fundarmönnum bar saman um að rétt væri að fá fram raunsanna mynd af vilja kaupmanna og annarra rekstraraðila og fasteignaeigenda við götuna til lokunar. Í þessu sambandi var rætt um að efna til könnunar og þá hvaða form yrði á henni, hvort miðað yrði við hvert húsnúmer eða rekstur á jarðhæð – en mikil gagnrýni kom fram á fyrirkomulag könnunar Félagsvísindastofnunar Háskólans sem framkvæmd var í vor. Í máli Gunnars Guðjónssonar kom fram að rétt væri að krefjast aukins meirihluta til breytinga á formi götunnar sem lokun sannarlega væri og tóku aðrir fundarmenn undir þá skoðun.
Nokkur önnur mál bar á góma, til að mynda hjólreiðar á gangstéttum sem leyfðar voru að nýju síðasta sumar og kaupmenn hafa miklar áhyggjur af, ekki hvað síst vegna stóraukinnar slysahættu.